Ragnhildur Arna Hjartardóttir skrifar: Kjördæmapólitík þykir heldur neikvæð. Þó er kjördæmapólitík í grunninn aðeins sú pólitík að fólk í kjördæmunum veki athygli stjórnmálamanna á brýnustu verkefnum í sínu byggðarlagi. Enda er gert ráð fyrir að málin gangi þannig fyrir sig. Í Borgarahreyfingunni erum við samt sem áður sannfærð um að leggja verði nýjan grunn að íslensku samfélagi.
Efnahagshrunið hefur fært okkur heim sanninn um að ekki verði áfram byggt á sama gildismati. Ef við hugum ekki að því sem mestu máli skiptir kemur annað fyrir lítið. Þótt kjödæmi fengi allar óskir sínar um verklegar framkvæmdir uppfylltar yrði hamingja íbúa þess lítil ef grunnþarfir þeirra eru vanræktar, ef grunnstoðir samfélagsin eru vanræktar.
Hugsjón okkar og velferð
Borgarahreyfingin vill að þjóðin semji sér sjálf eigin stjórnarskrá og leggi í framhaldinu þá dönsku til hliðar. Við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði meðal annars tekið mið af Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu ogvellíðan: „Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“ Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.Lyftum huganum hærra. Greiðum hugsjónum okkar og velferð atkvæði 25.apríl. Setjum X við O.
Höfundur er frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.