Magnað sjúkraflug til Norðfjarðar

Hjá Bókaútgáfunni Hólum er komin út bókin „Björn Pálsson, flugmaður og þjóðsagnapersóna“. Þar segir frá Birni Pálssyni sem var frumkvöðull í sjúkraflugi á Íslandi, en hann starfaði við það frá árinu 1949 þar til hann lést árið1973.

Björn, sem var ættaður af Fljótsdalshéraði, var á þeim tíma kallaður „bjargvættur landsbyggðarinnar“ fyrir afrek sín í sjúkraflugi við erfiðar aðstæður. Jóhannes Tómasson, blaðamaður, skrifaði sögu Björns. Hér birtist kafli úr bókinni sem fjallar um eitt erfiðasta sjúkraflug Björns, austur í Neskaupstað.

Friðrik Einarsson læknir fór oft með Birni Pálssyni í sjúkraflug til að aðstoða við meðhöndlun sjúkra eða slasaðra við flutninginn og vera læknum innan handar þegar sóttir voru sjúklingar. Friðrik lýsir í endurminningum sínum, Læknir í þremur löndum, sem komu út árið 1979, ferð til Neskaupstaðar í desember 1961:

„Hinn 1. desember 1961 fórum við að sækja sjúkling til Neskaupstaðar. Kona hafði verið skorin upp þar, en fengið lífhimnubólgu. Nauðsynlegt var að skera hana upp aftur, en til þess var engin aðstaða eystra.

Við Björn lögðum af stað klukkan ellefu að morgni. Hér sunnanlands var bjartviðri, en norðaustanátt um land allt, 6–8 stiga frost og vindhraði um 23 hnútar.

Á Austfjörðum gekk á með éljum, og þar sem við Björn vorum báðir Austfirðingar vissum við, að í slíkri átt með snjókomu er allra veðra von, frá slydduhríð í kafaldsbyl.

Björn fer fljótlega upp úr skýjunum og tekur stefnu á Neskaupstað. Hann vissi, að vindur bar hann 8 gráður af leið til suðurs, enda ætlaði hann að reyna að komast niður úr skýjum sunnarlega, þar sem samfellt dimmviðri var sagt á Norðausturlandi.

Skýjarof var víða sunnanlands. Við sáum fjallið Skjaldbreið í norðri, Langjökul á vinstri hönd, þá Hofsjökul og Arnarfellin tvö, hið litla og hið mikla.

Nú tekur loftið að hranna sig undir okkur, og æ sjaldnar sést til jarðar. Björn hafði jafnan með sér nesti, og nú tökum við að neyta þess.

Þarna er Hvannadalshnjúkur á hægri hönd og hrikalega stórskorin fjöll beint undir.

Við höfðum rétt skorðað kaffibrúsa og matarkassa, þegar friður er rofinn. Það er eins og fjandinn sjálfur hafi tekið í taumana! Flugvélin þeytist til, ýmist til hægri eða vinstri. Og nú dettur hún. Að sama skapi lyftist ég upp úr sætinu og svíf í lausu lofti – að því að mér finnst.

En Björn lætur sér hvergi bregða.

„Við erum óþarflega nærri Vatnajökli,“ segir hann. „Það er rólegra nokkrum mílum norðar,“ – og snýr nú beint í norður.

Þá tók brátt að lægja ölduganginn í loftinu.

Á Austfjörðum er éljagangur og dimmviðri með köflum. Yfir Hornafirði fer Björn niður, og þar er bjartviðri.

Við fljúgum yfir Almannaskarð, en þar er líklega fegursta útsýni á landinu: Lónsfjörður, Eystrahorn, Álftafjörður. Og þarna er Þvottá, þar sem Síðu-Hallur bjó.

Fyrir norðan Papey lækkar Björn flugið svo snarlega, að vélin flýgur hreinlega á hliðinni, enda komumst við brátt niður í 150 metra hæð frá sjó.

Hann gengur á með éljum inn til fjarða. Við rýnum báðir fram fyrir okkur. Þarna er Skrúður á hægri hönd, þar sem ég sat ungur með pabba og sló fyrir lunda.

„Við fljúgum inn Reyðarfjörðinn og bíðum élið af okkur,“ segir Björn.

Við fljúgum svo lágt, að ég sé hvern stein á mínum kæru bernskuslóðum. Þarna er Vattarnes, Kolmúli – og Hafranes.

En élið þéttist. Björn flýgur yfir Staðarskarð til Fáskrúðsfjarðar til þess að eyða tíma þar til létti yfir Norðfirði; síðan á svipstundu yfir Eskifjörð, en milli hans og Neskaupstaðar er fjallvegurinn Oddsskarð.

Við höfum haft samband við Egilsstaði, en þar var okkur sagt, að dimmviðri væri yfir öllum Norðurfjörðunum og ekki viðlit að leita að Norðfirði.

Björn er þó ekki alveg á því að gefast upp. Við höfum verið á flugi í þrjár klukkustundir, en höfum eldsneyti til hálfrar fimmtu stundar. Hann hringsólar því yfir fjöllum nokkra stund enn.

Í tíu þúsund feta hæð rofar allt í einu til í norðaustri og Björn segir:

„Þarna er Norðfjörður!“

Og hann stýrir þangað og lækkar sig eins fljótt og hann má. Á milli élja er ekki nema lítil glufa, og það er sannarlega spennandi að vita, hvort hann muni komast nógu fljótt niður.

Mér hafði verið falið að hafa útbreitt kort milli handa, svo að Björn gæti sem bezt áttað sig á afstöðu. En nú er flugvélin svo óróleg, að kortið er ýmist niðri á hnjám ellegar uppi í lofti, án þess að ég fái rönd við reist, því að flugvélin dettur ýmist niður eða þeytist í loft upp.

Nú erum við yfir Oddsskarði og stefnan tekin beint niður á Neskaupstað. Þá kemur allt í einu stormsveipur upp úr hinum þrönga firði – eins og hendi væri veifað. Hann beinlínis tekur vélina, kastar henni yfir til hægri og á hliðina þannig, að hægri vængurinn, mín megin, snýr beint niður.

Ég sé, að Oddsskarðið kemur upp á móti okkur!

Þá varð mér nú satt að segja ekki um sel.

En Birni tókst að rétta flugvélina við, því að annars sæti ég nú ekki hér. Og jafnskjótt og honum hefur tekizt það, gefst hann upp.

„Nei,“ segir hann. „Þetta er ekki hægt lengur. Nú verðum við að snúa við.““

Þeir komast til Egilsstaða og taka bensín en halda síðan til Reykjavíkur. Um hádegi þann 5. desember halda þeir tveir aftur austur á firði enda hafði sljákkað í norðaustanveðrinu þó að ekki væri það að fullu gengið niður. Norðfirðingar höfðu rutt flugbrautina og voru enn að þegar Björn var kominn austur. Friðrik heldur áfram:

„Þegar við komum yfir flugvöllinn klukkan 15.10 eru enn sýnilega stórir snjóskaflar hér og þar á lendingarbrautinni. Við sáum greinilega, hvernig mennirnir hömuðust af öllum kröftum við að ýta þeim frá.

En nú er tekið að rökkva og því skammur tími til stefnu.

Hér er fjörðurinn þröngur, skammt milli hárra fjalla og sviptivindar hættulegir.

Björn lækkar flugið skjótt og kemur lágt utan af firði. Hann fer í stefnu á flugbrautina, sem er á leirum í botni fjarðarins – og mennirnir þjóta til hliðar til að verða ekki fyrir.

Það má engu muna. Flugbrautin er ekki nema svo sem sextán metra breið og háir snjóskaflar beggja megin, en vænghaf flugvélarinnar er fjórtán metrar.

En nú kemur sviptivindur, sem kastar flugvélinni til hliðar, svo að fara verður upp aftur.

Björn flýgur út fjörðinn, og mennirnir hamast við að moka á meðan. Þeir eru að hjálpa veikri manneskju og vita, að eftir fáeinar mínútur verður ekki hægt að lenda vegna myrkurs og snjókomu.

Aftur reynir Björn lendingu, en allt fer á sömu leið. Í þetta skipti munar ekki miklu, að vélin fjúki út í snjóskafl.

Um leið og við verðum frá að hverfa öðru sinni heyrist undarlegt hljóð í vélinni, þegar Björn þarf að snúa henni út með hinu bratta fjalli. Það er engu líkara en vélin orgi.

Hún hefur misst hæð sem kallað er. Þá er ekki um annað að gera en beina
flugvélinni niður á við, svo að hún fái meiri hraða og komist upp.

Það gerði að sjálfsögðu hinn reyndi flugmaður, en vélin fór ískyggilega nærri jörðu.

Og enn fljúgum við út yfir fjörðinn.

Í þetta sinn stefnir Björn ákveðið á brautina. Ég þykist sjá á svip hans, að nú skuli látið til skarar skríða.

Flugvélin hallast til hægri og vinstri á víxl – og ég held niðri í mér andanum.

En niður kemst hún á réttum kili og á réttum stað. Og jafnskjótt og hjólin snerta jörðina, skellur á blindbylur!

Við ókum á snjóbíl frá flugvellinum til Neskaupstaðar, og ég skoðaði konuna.

Um nóttina gerðist það, að strandferðaskipið Esja kemur til hafnar með veikt barn frá Raufarhöfn. Barnið var með botnlangabólgu og hafði ekki komizt til læknis.

Þar sem ég var staddur þarna vildi héraðslæknirinn, Eggert Brekkan, að ég skæri barnið upp, þótt hann hefði getað gert það sjálfur, en hann svæfði.

Ég skar síðan barnið upp í sjúkraskýlinu á Neskaupstað. Og Björn Pálsson fékk að vera viðstaddur, því að hann hafði aldrei séð uppskurð – og varð ekki meint af. Hins vegar leið yfir unga stúlku, sem átti að vera mér til aðstoðar, svo að ég varð að ljúka uppskurðinum einn.

Botnlanginn reyndist vera sprunginn, en aðgerðin heppnaðist ágætlega, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, og barninu batnaði.

Daginn eftir fluttum við svo veiku konuna til Reykjavíkur, svo að þessi för hafði orðið árangursrík í bezta lagi – eins og langflestar ferðir Björns.“

Friðrik segir einnig frá því í bók sinni hversu vel Björn þekkti landið:

„Björn þurfti ekki annað en sjá í svip blett af landinu til að vita, hvar hann var staddur. Ef til vill er ofmælt að segja, að hann hafi þekkt hverja þúfu, en hverja hæð held ég að hann hafi þekkt hér á landi – og það kom sér oft vel fyrir hann.

Eitt sinn, er ég furðaði mig á þekkingu hans á landinu og spurði, hvernig á henni stæði, svaraði hann:

„Mér var nauðugur einn kostur. Ég varð að kynnast landinu til hlítar. Án slíkrar þekkingar var óhugsandi að stunda sjúkraflug.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.