Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða

Sævar Sigbjarnarson frá Rauðholti skrifar:    Margar eru áhyggjur Íslendinga um þessar mundir og ekki að ástæðulausu. Mörgum finnst sem leiðin til þess að hafa áhrif á stjórn landsins sé afar löng og torsótt. Af því að ég vil heldur reyna hafa áhrif með skrifuðu orði en með því að berja potthlemma, sendi ég þennan pistil til Austurgluggans.

Enginn skilji þó orð mín svo að ég  telji þá miklu mótmælabylgju sem flætt hefur um götur og torg vera óskiljanlega. Við hljótum að stefna að þeim breytingum á þjóðfélagsskipaninni sem útiloka atburði, eins og þá sem nú hafa orðið og við viljum öll að mótmæla.

Kjörorð dagsins ætti að vera: Treystum þingræðið - aukum lýðræðið. Það er að segja; við viljum að þeir sem kosnir eru til þess að sitja á Alþingi sýni það í verki að þeir ætla að vinna þar fyrir sína kjósendur og í samráði við þá og viti að þeim ber að fylgjast með ríkisstjórninni eins og góður bóndi hefur auga með ráðsmanni sínum. Þess vegna heitir stjórnskipun okkar þingræði.

 Ný stjórnarskrá er brýnt verkefni sem kostar vönduð og öguð vinnubrögð og menn skyldu ekki ætla sér að ljúka í þeirri taugaspennu sem nú ríkir. En þó hún leysi ekki vanda dagsins í dag  er ekki eftir neinu að bíða að gera vinnuáætlun, hvernig sem að gerð hennar verður staðið. Því er krafa um Stjórnlagaþing góðra gjalda verð.

Þótt nokkur undirbúningur sé að baki hefur ekki farið fram nein veruleg umræða um mörg atriði sem þjóðin á eftir að ræða. Ég ætla að minnast á þrjú atriði varðandi kosningarétt. Í fyrsta lagi möguleiki kjósandans að velja á milli manna. Í öðru lagi skiptingu landsins í kjördæmi og í þriðja lagi vægi atkvæða.

  Örugg sæti fyrir kjördag  

Í ágætri grein Njarðar P. Njarðvík í Fréttablaðinu 14.01.09 undir fyrirsögninni Nýtt lýðveldi, lýsir hann með sterkum orðum að lýðveldið frá 1944 hafi gengið sér til húðar. Njörður nefnir finnska aðferð,  þar sem kjósendur fá að merkja við nafn þess manns sem þeir vilja kjósa sem sinn þingmann og munu þá um leið gefa þeim flokki sem sá maður tilheyrir atkvæði sitt.

Það er mikil lenska nú um stundir að tala niður til þess félagsskapar sem kallast stjórnmálaflokkar. Eigi að síður eru flokkarnir tæki sem ekki verður komist hjá að nota við framkvæmd lýðræðisins. Hitt er ljóst að notkun þessara tækja býður upp á margar hættur. Það er augljóst þar sem tugur þingmanna er kosinn í hverju kjördæmi, að yfirleitt er meirihluti þeirra öruggur um þingsæti sitt fyrir kjördag, samkvæmt því kerfi sem nú er, þar sem þeir taka sæti í fyrirfram ákveðinni röð. Einföld breyting í lýðræðisátt er að listarnir væru boðnir fram óraðaðir, en kjósandinn merkti við nafn eða nöfn þeirra manna, sem hann vildi sjá að tækju þingsæti. Mér þætti eftirsóknarvert að heimilt væri að merkja við eitt til fimm nöfn.  Hugsanlega mætti skipta hverju atkvæði í fimm stig (smærra mætti ekki skipta því) og ef merkt væri við færri en fimm kæmi mismunur allur á fyrsta nafn.  Ef kjósandi merkir þannig við þrjú nöfn, fengi fyrsta nafnið þrjú stig af fimm mögulegum, hin tvö bara eitt stig hvort.  Þetta kann að reynast nokkuð flókið, en það er mikið í húfi að finna færa leið til þess að kjósandinn geti valið sína þingmenn beinlínis á kjördag.

Í Spegli RÚV 28.01.09 var Ómar Ragnarsson einmitt að tala fyrir slíkri hugmynd.

Einmennings- eða tvímenningskjördæmi geta líka verið fær leið og jafnvel mætti hugsa sér að heimilt væri að kjósandinn veldi menn af fleirum en einum lista.

   

Það veldur mér nokkurri furðu að flokkar sem klifað hafa á því í áratugi að landið eigi að vera eitt kjördæmi, hafa ekki fylgt þeirri hugmynd eftir með skýrum hætti hvernig eigi að velja menn til þingsetu. Væru boðnir fram raðaðir listar, einn fyrir hvern flokk fyrir landið allt, biði það upp á hámarksmiðstýringu. Hver óskar eftir henni í dag?

Umræðan um þetta atriði hefur mjög einkennst af pirringi út af vægi atkvæða; að það væri miklu meira í strjálbýlinu. Hvort það kann að vera sanngjarnt er líka atriði sem sátt þarf að vera um. 

Vík ég þá að hinum atriðinum varðandi kosningar, kjördæmaskipan og vægi atkvæða.

  Landið og kosningarétturinn  

Til þess að til verði þjóðríki, þarf í fyrsta lagi land og í öðru lagi þjóð.

Með tilvísun til þessa, er engin rökleysa að halda því fram að landið eigi sinn rétt. Gott dæmi um hvað land og fólk er samslungið í vitund manna, er að jafngilt þykir að tala um þingmann Austurlands eins og Austfirðinga. Nú um stundir er að vísu enginn þingmaður fyrir Austurland, þar sem það var tætt í sundur og skipt á milli Norður- og Suðurlands við síðustu kjördæmabreytingu. Þá var farið langt yfir skynsemismörk með stærð kjördæma og vitnar um þá firringu sem birtist nú víða í blindri trú á hagkvæmni stærðarinnar. Vonandi slær eitthvað á þá oftrú við okkar óglæsilegu kollsiglingu á liðnu hausti.

Þjóðin ber öll ábyrgð á sínu landi, en í raun og veru finnst mér sú ábyrgð þyngjast á hvern þegn, eftir því sem hann býr afskekktar. Ekki er hægt að ætla út frá reynslu með byggðaþróun, að strjálbýlið hafi komið fram með miklu ofbeldi við skiptingu þjóðarkökunnar, þrátt fyrir nokkuð meira vægi atkvæða í þingkosningum, enda stirðara um vik að fara þar í kröfugöngur.  Hins vegar er mikil nauðsyn að skapa sátt um það atriði, að það eigi að vera mismunun.

Síðasta breyting á kjördæmamörkum virtist bresta á í óþökk allra. Þingmanna einnig. Næst tekst vonandi betur til og ég vonast til að réttur landsins verði viðurkenndur og virtur. Gjarnan vil ég sjá minnkandi kjördæmi eða aðferð til að tryggja dreifða búsetu þingmanna.

Auk þessa vil ég nefna, að mig grunar að sú breyting sem gerð var fyrir nokkrum árum með að sameina störf Alþingis í eina deild, hafi veikt þingræðið. Afgreiðsla mála hafi orðið flumbrulegri. Skoða mætti að taka upp það sem víða þekkist, að þingdeildir séu tvær og til þeirra sé kosið með tvennum hætti. Til dæmis væri kosið í eins konar öldungadeild í einmenningskjördæmum, en með hlutfallskosningu í landshlutabundnum kjördæmum til hinnar.

 

Minnumst þess að hinar dreifðu byggðir eru eins konar rótarkerfi fyrir þjóðarmeiðinn. Látum öngvan Níðhögg naga það til skaða, meira en orðið er.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.