ME í sjónvarpið

Mennaskólinn á Egilsstöðum tryggði sér í kvöld sæti í fjórðungsúrslitum spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Liðið lagði lið Menntaskólans á Ísafirði í gríðarlega spennandi keppni, 16-14. Menntskælingar gátu ekki dulið hamingju sína eftir keppnina.

ME liðið, skipað Arnari Jóni Guðmundssyni, Urði Maríu Sigurðardóttur og Hrólfi Eyjólfssyni, var yfir eftir hraðaspurningar 12-9. Ísfirðingar sóttu þá á, minnkuðu muninn í 12-11 og jöfnuðu í 14-14. ME tók þá seinustu bjölluspurninguna, um finnska arkitektinn Alvar Alto og síðan tóndæmi úr hinni íslensku uppfærslu á Evítu.

Mikill fögnuður braust út í útsendingarstofu RÚVAust þegar rétt var gefið fyrir tóndæmið. „Ég beit í höndina á mér til að öskra ekki. Ég veit ekki alveg hvað ég er búinn að vera að gera síðan klukkan átta í kvöld,“ sagði Hrólfur í samtali við Austurgluggann. Urður, fyrirliði, segist hafa verið lengur að taka við sér. „Ég fattaði ekki strax hvað þetta þýddi. Þetta tók tíma að síast inn. Ég horfði endalaust á Evítu þegar ég var lítil. Ég skildi ekki söguna þannig ég lærði lögin vel. Það er æðislegt að komast áfram. Ég var í varaliðinu fyrir tveimur árum og mér fannst æðislegt þegar þau sem voru í liðinu komust í sjónvarpið - en þetta er bara snilld.“

Hlustið á keppnina hér á vef ruv.is. (Keppnin var seinust í kvöld, spóla þarf vel inn í upptökuna til að heyra hana).

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.