Með fjölbreytileika að leiðarljósi

Það hefur verið magnað ævintýri að vera hluti af innkomu Vinstri grænna í stjórnmálin á Austurlandi. Rödd sem svo sárlega vantaði inn í gamla og fúna, karllæga umræðuhefð kom svo sannarlega mikilvægum málum á dagskrá. Orðræða um jafnrétti, náttúruvernd, íbúalýðræði og félagslegt réttlæti er það sem ný heimsmynd og þær kynslóðir sem nú eru að vaxa úr grasi kalla eftir.

Umræða um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi sem er svo einsleit og allt að því klæðskerasniðin að hefðbundnum karlastörfum sem spyrja frekar að skammtíma hagsmunum risafyrirtækja en menntunar möguleikum og framtíð þeirra sem hana vinna. Enn einn áratuginn er stórtækur, auðlindafrekur iðnaður aðaláherslumál flestra flokka sem nú bjóða fram á Austurlandi. Þetta er óskiljanlegt þar sem atvinnulíf á Austurlandi er fullkomlega mett af slíkum störfum. Hér þarf að skapa störf fyrir háskólamenntað fólk, og leyfi ég mér að segja konur, fjölbreytt störf sem laða að fólk á öllum aldri og öllum kynjum í grænum skapandi störfum, nýsköpun, menningu, heilbrigðisþjónustu og kennslu svo eitthvað sé nefnt. En hvernig fáum við fólk til að flytja til okkar og starfa á Austurlandi meðan ekkert húsnæði er að hafa?

Við þurfum að beita miklu fjölbreyttari leiðum í uppbyggingu húsnæðis en þar þarf heldur betur að bretta upp ermar. Það er sama hvar gripið er niður í atvinnulífinu og í hvaða byggðakjarna Austurlands, það er gríðarlegur skortur á húsnæði. Það verður að horfa til lausna sem henta jafnt eldra fólki sem vill minnka við sig eða ungu barnafólki. Sveitarfélögin eiga að vera hugrökk og byggja sjálf, semja við fleiri aðila og sérstaklega óhagnaðardrifin félög svo sem Bjarg sem er í eigu verkalýðsfélaga, Brák sem er í eigu sveitarfélaganna og Bríet sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þannig er hægt að tryggja íbúðir sem byggðar hafa verið með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum og eru hugsaðar leigjendum sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum.

Sveitarfélögin á Austurlandi þurfa að tryggja að fjölbreyttar byggingalóðir séu til taks og að kerfið geri notendum ekki svo erfitt fyrir að hefjast handa að fólk sem er tilbúið að fara í framkvæmdir missi hreinlega kjarkinn vegna flækjustiga stjórnsýslunnar. Síðast en ekki síst þurfa hin sameinuðu sveitarfélög á Austurlandi, í samstarfi við smærri sveitarfélögin, í krafti stærðar sinnar að vinna saman að því að þrýsta á ríkið að koma til móts við dreifðar byggðar landsins með jöfnun flutningskostnaðar svo byggingarframkvæmdir séu raunhæfur kostur.

Skólamál á Austurlandi eru sem betur fer komin á skrið en þar þarf að gera betur og leggja áherslu á fjölbreytileika og réttlæti. VG í Múlaþingi barðist fyrir réttlátari leikskólagjöldum í formi systkinaafsláttar á síðasta kjörtímabili enda nægt svigrúm til þess og leikskólagjöld á sveitarfélaginu með því hæsta sem þekkist á landinu. Því miður höfðum við ekki erindi sem erfiði í því máli frekar en í baráttunni um skapandi sumarstörf. Forgangsröðunin var önnur á kjörtímabilinu, en nú er lag að halda áfram og gera betur.

Stærsta áskorun samtímans er matvælaöryggi. Það tryggjum við ekki eingöngu með verksmiðjuframleiddum fiski. Við þurfum fjölbreytni, nýsköpun og hugrekki til að nýta auðlindir okkar í sjálfbæra matvælaframleiðslu til sjávar og sveita. Miklu meiri kraft þarf í innlenda matvælaframleiðslu með lítið kolefnisspor til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við erum hluti af heimsþorpinu og nú með innrásinni í Úkraínu hefur þörfin fyrir samræmda móttöku flóttafólks aldrei verið meiri. Tökum vel á móti fólki, hjálpum því að aðlagast og bjóðum þeim að verða hluti af okkar fallega samfélagi. Það er byggt af mannúð sem ríkulega er til á Austurlandi. Það styður við fjölbreytileikann og þroskar og auðgar samfélagið.

Við erum rík á Austurlandi. Mannauður, frumkvöðlar og hugsjónafólk sem lætur sig málin varða. Það er þó eitt sem er flestu öðru dýrmætara og það er hin stórbrotna og sérstaka Austfirska náttúra. Saman verðum við að standa vörð um þau óspilltu víðerni sem eftir eru en freklega hefur verið gengið gegn náttúrunni sem aldrei verður tekið til baka. Við megum ekki láta skammtíma gróða sem minnst rennur til nærsamfélagsins villa okkur sýn og fórna því sem komandi kynslóðir þurfa að stóla á til síns lífsviðurværis.

Kæri kjósandi, á laugardaginn kemur skulum við öll nýta lýðræðislegan rétt okkar til að kjósa. Við skulum hafa mannúð, umhverfismeðvitund og fjölbreytileika í öllum málaflokkum að leiðarljósi og setja X við V.

Höfundur er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.