Mennt er máttur – fyrir austan

Í aðdraganda þess að Múlaþing varð til sem sveitarfélag var lögð áhersla á mikilvægi þess að styrkja og bæta aðgengi og framboð á háskólastarfsemi í hinu nýja sveitarfélagi. Með það að markmiði var farið af stað í viðræður við University of the Highlands and Islands í Skotlandi (UHI).

Höfuðstöðvar UHI eru í Inverness en alls rekur skólinn 13 háskóla- og rannsóknasetur í skosku hálöndunum og eyjunum auk 70 minni kennslustöðva. Á vegum sveitarfélagsins hefur verið unnið markvisst að verkefninu sem hefur leitt til þess m.a. að viljayfirlýsing um samstarf á sviði háskólastarfs var undirritað í mars á síðasta ári.

Í þessu samstarfi felast mörg tækifæri. Fyrst ber að nefna möguleika fyrir nemendur úr Múlaþingi til að stunda nám við UHI. Auk þess er samstarfið kjörinn vettvangur fyrir fyrirtæki til samstarfsverkefna við faghópa innan UHI. Má í því sambandi nefna umfangsmikla starfsemi UHI í ferðaþjónustu, fiskeldi og landbúnaði.

Tækifæri fræðslustofnana í sveitarfélaginu eru mikil. Hallormsstaðaskóli er kominn með hluta af sinni starfsemi á háskólastig og Menntaskólinn á Egilsstöðum stendur framarlega í netkennslu og nemendur þar í kjörstöðu til að nýta sér það sem UHI hefur upp á að bjóða. Á Skálanesi í Seyðisfirði hefur verið unnið frumkvöðlastarf á háskólastigi um árabil þar sem tekið hefur verið á móti erlendum nemendum til lengri og styttri dvalar.

Mjög gott samstarf hefur náðst milli sveitarfélagsins og starfshóps á vegum ríkisstjórnarinnar sem settur var á laggirnar í kjölfar hamfaranna á Seyðisfirði í desember 2020. Í vinnu starfshópsins hefur verið lögð áhersla á að leysa mál og verkefni sem upp hafa komið ásamt uppbyggingu og stuðningi á fjölbreyttum sviðum. Eitt af þeim verkefnum er frekari þróun háskólanáms á svæðinu.

Það er því sérstaklega ánægjulegt að í nýafgreiddum fjárlögum skuli vera gert ráð fyrir 25 milljóna króna framlagi til samstarfsverkefnis Múlaþings og UHI og jafnframt gefið vilyrði um viðbótarframlag 2023.
Verkefnið verður unnið með aðkomu Austurbrúar sem unnið hefur náið með sveitarfélaginu að málinu.

Starfsemi UHI í Múlaþingi verður öflug viðbót fyrir Austurland við það starf sem fram fer nú þegar í Háskólagrunni HR á Reyðarfirði og fyrirsjáanlegt að stofnanirnar taki upp samstarf í framtíðinni.

Gert er ráð fyrir að kynning á námi sem í boði verður fari fram nú í vor og að fyrstu nemendurnir geti hafið nám við skólann í haust. Það er full ástæða til að fagna þessum áfanga. Aðgangur að fjölbreyttu háskólanámi í heimabyggð eru lífsgæði sem við höfum ekki átt að venjast fram að þessu.

Nýtum tækifærið.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.