Mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi 5: Séráætlun um sterkara Austurland með stærri þjónustumiðju
Sem fræðimaður og áhugamaður um byggðamál skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati. Í fimmta sæti er að vinna sérstaklega að sterkara Austurlandi með stærri þjónustumiðju.Það er flest gott á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Þó er eitt sem stendur upp úr sem okkar langstærsti dragbítur. Það er veðrið. Hvernig stendur þá á því að það eru ekki miklu fleiri sem eiga heima þar sem veðrið er þó skást á Íslandi? Semsagt á Fljótsdalshéraði.
Það er kannski varasamt að fullyrða hvar besta veðrið er á okkar norðlæga landi en því verður ekki á móti mælt að á sumrin er oft besta veðrið á Austurlandi. Ekki er ástæðan slæmar landfræðilegar aðstæður á í landshlutanum.
Öðru nær. Þar er allt til alls: Undirlendi til landbúnaðar, frábærar hafnaraðstæður, mikið vatnsafl, mikil náttúrufegurð og styttra til Evrópu en frá öllum öðrum hlutum landsins. Eina sem mætti vera meira af er heitt vatn. Slíkt er þó viðráðanlegra eftir að varmadælur komu til.
Mannfjöldi á Austurlandi þyrfti að vera meiri til að skapa betri grundvöll fyrir sérhæfða þjónustu. Má þar nefna verslun, heilbrigðisþjónustu og margt fleira. Utanlandsflug frá Egilsstöðum, sem fjallað var um í grein 2, yrði auðveldara ef fleiri byggju á Austurlandi. Í fámennu héraði er grundvöllur fyrir næstum því öllu betri með meiri mannfjölda. Með meiri sérhæfðri þjónustu væri landshlutinn síðan enn betri búsetukostur með fjölbreyttari störfum.
Mestu skiptir líklega að þjónustumiðjan verði stærri og öflugri en nú er. Meðal annars vegna veðurs kemur væntanlega ekki annað til greina en að hún sé á Fljótsdalshéraði. Þar er einmitt núverandi þjónustumiðja héraðsins, Egilsstaðir. Þar er flugvöllurinn og þar mætast margir vegir í vegakerfinu. Í grein 3 talaði ég um að byggja þyrfti upp um allt land. En ég tel samt sem áður mjög æskilegt að sérstök áhersla verði á Austurland í þessum efnum.
Egilsstaðir þyrftu að vera á stærð við Klakksvík í Færeyjum eða Akranes eða Selfoss og jafnvel verða í fyllingu tímans ein af smáborgum landsins. Austurland er lykil landshluti til að ná því sem kalla má meira jafnvægi í byggð landsins.
Það er ekki spurning að stjórnvöld hafa mikil áhrif á byggðamynstrið í landinu. Ef vilji væri til að gera sérstakt átak á Austurlandi þyrfti einfaldlega að setjast niður og finna leiðir til að fara að markmiðinu. Það er ekki víst að það kostaði sérlega mikið. Jafnvel þótt það kostaði eitthvað er það þess virði og yrði Íslandi til góðs til framtíðar.
Höfundur er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri