Minn maður
Forsetakosningar eru framundan og sumir kalla þær lýðræðisveislu. Margir ágætis frambjóðendur eru í boði fyrir okkur kjósendur og var forvitnilegt að sjá þá alla á dögunum í kappræðum í Sjónvarpinu. Sumir voru betri en ég bjóst við og aðrir mun lakari, rétt eins og fólk væri ekki undirbúið. Ég hélt í einfeldni minni að ef maður færi í framboð, þá væri maður vel undirbúinn.Eftir áramót þegar ljóst var að Guðni gæfi ekki kost á sér hafði ég samband við vini mína Felix og Baldur og spurði hvort þeir hefðu áhuga á embættinu. Mér fannst Felix eins geta boðið sig fram. Ég mundi að það hafði verið skorað á þá fyrir 8 árum en þá voru þeir ekki til viðræðu um framboð. Nú heyrði ég strax að ég var ekki sá eini sem skoraði á þá og þeir tóku á endanum ákvörðun, eftir langan umhugsunarfrest, um að bjóða sig fram eða réttara sagt - Baldur Þórhallsson ákvað að bjóða sig fram. Í mínum huga eru þeir eitt, enda samrýmdir drengir sem hugsa og vinna sem einn. Ég sé þá fyrir mér á Bessastöðum.
Ég er búinn að þekkja þá félaga í sennilega 25 ár en það er þannig að þegar maður er að reka veitingastað, halda hátíðir, tónleika og þess háttar, þá eignast maður milljón félaga sem sumir verða lífstíðarvinir. Þannig var það um Gunna og Felix - og Baldur og Björk - sem makar þeirra, urðu góðir vinir okkar hjóna. Þetta er gegnheilt og frábært fólk sem ég er stoltur af að kalla vini mína.
Baldur er með fróðari mönnum sem ég hef kynnst og mér finnst menntun hans og störf vera sem klæðskerasniðin föt fyrir embætti forseta Íslands. Hann er fullur af réttlætiskennd, enda hefur hann ásamt Felix og góðu fólki barist fyrir tilverurétt sínum og fjölskyldu sinnar sem samkynhneigður maður. Líf hans og fólks í hans stöðu hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Baráttan fyrir réttindum samkynhneigðra hefur sem betur fer gengið vel en undanfarið hefur komið bakslag í þá baráttu og sorglegt að sumir skuli nota framboð Baldurs til að koma á framfæri hommahatri og fáfræði. Ég hélt að við værum komin lengra og værum víðsýnni en raun ber vitni. Þetta segir okkur bara það að baráttan heldur áfram og Baldur á Bessastöðum gæti heldur betur skipt máli fyrir þá baráttu, okkur öllum til heilla.
Ég tek það fram að ég kýs Baldur ekki vegna þess að hann er samkynhneigður eða út af því að við erum vinir. Ég kýs hann vegna þess að ég treysti honum og trúi því í hjarta mínu að hann sé besti frambjóðandinn.
Höfundur er framkvæmdastjóri í Neskaupstað