Minning um Cecil Haraldsson

Traustur vinur okkar, Cecil Haraldsson, er fallin frá áttræður að aldri. Hann kom víða við um ævi sína og lét gjarnan til sín taka.

Leiðir okkar lágu fyrst saman í félagsstarfi ungra jafnaðarmanna í Alþýðuflokknum á sjöunda áratug síðustu aldar. Cecil var Krati af gamla skólanum, jafnaðarmaður af lífi og sál, og breytti engu um það þó hann hafi villst yfir í Vinstri Græna eftir að Alþýðuflokkurinn sameinaðist í Samfylkinguna. Hugsjónin var í hjartanu og barátta hans fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi hélt sínu striki.

Hann sat um árabil í bæjarstjórn á Seyðisfirði, reyndist bæjarfélagi sínu vel og lagði þar drjúgt að mörkum. Þá var Cecil kennari um langa tíð og kom víða við í kennslustörfum sínum, hafði gott lag á nemendum og naut þess að kenna. Hann var skólamaður fram í fingurgóma.

En hann var fyrst og fremst prestur sem var honum heilög þjónusta. Það kom, okkur vinum hans, mikið á óvart á sínum tíma þegar við fréttum, að Cecil væri farinn að læra guðfræði í Svþjóð og stefndi á að verða prestur. Og það gekk allt eftir, þjónaði um skeið að námi loknu í Svíþjóð og öðlaðist þar dýrmæta reynslu sem hann miðlaði óspart af til okkar kolleganna eftir að heim var komið.

Það var traust að vera í liði með Cecil. Þess nutum við um margra ára skeið í kirkjunni á Austurlandi. Alltaf var Cecil tilbúinn að finna lausn í erfiðum málum til farsældar, skemmtilegur með sinn húmor og kunni að nálgast mál frá ólíkum sjónarhornum án þess að láta persónulega hagsmuni rugla sig í ríminu.

Hann var sóknarprestur á Seyðisfirði um langt árabil og reyndist kirkjunni vel, sóknarfólki og samstarfsfólki í austfirskum prófastsdæmum, trúfastur málafylgjumaður og málsvari kristinna gilda í þjóðlífinu. Fyrir allt það viljum við þakka.

Við vottum Kristínu Guðveigu og börnum hans okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að blessa minningu Cecils Haraldssonar.

Sjöfn Jóhannesdóttir og Gunnlaugur Stefánsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.