Molbúar eða matarkistufólkið?

Það var á níunda áratug síðustu aldar sem gamall frændi minn stóð upp í pontu á fundi búnaðarfélaga á Austurlandi og lagði til að bændur myndu huga betur að vöruþróun og framsetningu.

Hann ásamt öðrum góðum mönnum sat í fyrstu stjórn samtaka sauðfjárbænda undir formennsku Jóhannesar á Höfðabrekku. Höfðu þeir félagar miklar hugmyndir um breytt viðhorf og framsýn bænda. Þeir sögðu að horfa þyrfti meira til þarfa neytandans og mæta þeim svo vel yrði. Það er skemmst frá því að segja að hann frændi minn ágætur hrökklaðist niður úr téðri pontu og lá við að hann yrði kaghýddur á staðnum. Lokaorð umræðunnar var frá ónefndum bónda sem faðir minn, sem sat téðan fund, gleymir seint. Þau voru þessi: „Held að þetta sé fullgott í kjaftinn á fólki.“

Því miður var viðhorfið þannig þá. Því miður var viðhorfið þannig ansi lengi eftir það. Ekki af því bændur vildu ekki gera betur. Heldur vegna þess að þeim voru of þröngar skorður settar og í stað þess að horfast í augu við það, var þægilegra að láta eins og menn vildu raunverulega hafa hlutina svona. Svona var venjan að hafa þá. Flokkurinn sem þeir kusu sagði þeim að hafa þetta svona.

En nú er öldin sannarlega önnur. Ekki bara í bókstaflegri merkingu. Nú er nefnilega innan bændastéttarinnar fjöldinn allur af gríðarlega flottu fólki sem vill leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið okkar að merkilegri matarkistu. Fólki sem er ekki tilbúið að láta setja sér afarkosti þegar það veit sjálft betur. Mikilvæg skref hafa verið tekin í átt að betri framsetningu og aukinni vöruþróun en betur má ef duga skal og þar stendur ekki á bændum.

Mikilvægi þess að tryggja bændum sjálfbærni er margþætt. Þegar kemur að dýravelferð, náttúruvernd, vöruþróun og nýtingu er engum betur treystandi til að vinna af heilindum en bændunum sjálfum. Í fyrra var gerð tilraun meðal bænda um heimaslátrun sem sýndi gífurlega góða niðurstöðu. Í ljós kom að slík slátrun var ekki bara þrifalegri og mannúðlegri heldur kom öll vinnsla miklu betur út. Kemur þá í ljós að það er ekki svo galið að treysta bændum. Þeir eru ekki molbúar með sorgarneglur. Heldur fagfólk. Fagfólk sem skilur hvað þarf að gera. En hvað tók við?

Í framhaldi slíkra prófanna var náttúrulega réttast að búa til reglur. Setja mörk. Hafa allan vara á. Í þágu neytenda. En hvað gera bitlausar stofnanir sem aldrei heyra í mikilvægum mannauð sem bændur eru? Þeir finna til ástæður til þess að skapa íslenskum bændum það almesta og flóknasta regluverk sem þekkist í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Þetta, þrátt fyrir flotta niðurstöðu úr öðrum tilraunum, og þrátt fyrir miklu hreinni afurðir en þekkist í heiminum, gerir það að verkum að við munum aldrei una íslenskum bændum samkeppnisstöðu.

Þá spyr maður sig, hverjir meta hlutina? Það ku koma mörgum undarlega fyrir sjónir að félagasamtök og samtök algerlega óháð ríkisrekstri fá að hafa skoðun á framleiðslu bænda.

En það er samt staðreynd. Samtök verslunar og þjónustu og önnur samtök fá að skipta sér af landbúnaðarstefnu bænda og hafa úrslitavald. Þá skiptir engu vitneskja ríkisstjórnar að það hefur engin erlend vara verið ódýrari en íslensk þegar í verslun er komið nema þá í einstaka prósentum. Samt treystum við á að SVÞ sé að passa upp á neytandann. Ástæðan fyrir því að Samtökum verslunar og þjónustu er svo umhugað um afkomu íslensks landbúnaðar er einföld. Þeir græða meira á innfluttri vöru.

Sé bændum gerður sá möguleiki að þreifa sig áfram í nafni nýsköpunar og þróunar en engin spurning hver útkoman yrði. Fólkið sem ræktar landið, elur skepnurnar og færir okkur matinn gerir það af einskærri hugsjón. Fólk sem lifir í takt við náttúruna og skilur best hvað þarf að gera til að mæta áskorunum á borð við loftslagsvanda og breytt neyslumynstur. Sé því gert kleift að slíta sig úr klöfum og kagstaur Samtakanna, er engin spurning að það verði neytendum raunverulega til heilla.

Þá skal líka spurt. Hvers vegna fá afurðastöðvar öll völd um kaupverð? Hvers vegna fá afurðastöðvar að búa til marga flokka inn til kaups en aðeins 2 flokka til sölu? Hver ætlar loksins að svara því og hvernig verða þau svör?

Þegar öllu er á botninn hvolft, þegar við spyrjum okkur hver hefur raunverulega hagsmuni okkar, sem samfélags og neytenda, að leiðarljósi. Er það verslunin, er það pólitíkin eða eru það bændurnir?

Sá sem trúir því og treystir að svarið sé bændurnir mun uppskera mun betur en við gerum í dag. Uppskeran verður raunveruleg framtíðarsýn með dýra- og náttúruvernd að leiðarljósi.

Með hag neytandans í forgrunni því það er fólkið sem vill vera upplýst, gera vel og fá heilnæma og góða vöru á borðið. Hún verður líka ódýrari. Það er staðreynd. Eina sem þarf er þor til að standa með bændum og góðri landbúnaðarstefnu óháð skoðunum samtaka sem stjórna verði út í búð. Óháð afurðastöðvum sem hafa fyrir löngu tekið yfir valdi bænda til að gera vel í skugga regluverks stjórnvalda og stofnananna sem eru bitlausar og engum til gagns. Stofnana sem kosta ríkið hundruð milljóna á ári en hafa aldrei beðið um eða kallað eftir þekkingu þess mannauðs sem bændur eru.

Regluverk til handa trausti til bænda muna skila sér í bestum hagnaði til neytenda, dýravelferðar og kolefnisfótspors samfélagsins.

Hlustum á bændur. Treystum þeim. Þannig sækjum við best fram og gerum breytingar.

Til að það geti orðið þurfa bændur að geta orðið samkeppnishæfir. Hlusta þarf á þá og treysta þeirri þekkingu sem þar er til staðar. Einföldum regluverk og treystum fólkinu þegar kemur að framleiðslu. Sjálfbærni felst nefnilega líka í að gefa bændum frelsi til að framleiða alla leið eftir bestu mögulega þekkingu. Færum bændum fleiri tækifæri til nýsköpunar og athafna og tryggjum afkomu þeirra. Flott landbúnaðarstefna er til lítils án samráðs við bændur. Án þeirra erum við matarlítil kista á betlimiða annarra þjóða.

Höfundur skipar annað sæti Pírata í Norðausturkjördæmi og er harðsvíraður bóndi á hliðarkanti hjá öldruðum föðurbróður.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.