Nýir tímar, ný Framsókn

Birkir Jón Jónsson skrifar:  

Þegar kosið var til Alþingis vorið 2007 held ég að fáa hafa órað fyrir öllum þeim atburðum sem orðið hafa síðan í íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi. En öll verðum við nú að horfast í augu við breyttar aðstæður. Stjórnmálaflokkarnir verða að skoða stefnu sína og gjörðir, gera upp við fortíð sína og meta hvernig þeir geta best þjónað þjóðinni til framtíðar.

xb_birkirjonjonsson1vefur.jpg

 

 

Framsóknarflokkurinn fór í rækilega naflaskoðun á flokksþingi sínu í janúar síðast liðnum bæði hvað varðar forystu og stefnu. Þar lét grasrótin í flokknum rækilega til sín taka, lýsti vilja sínum til endurnýjunar í  forystu flokksins og kaus nýtt fólk í öll æðstu embætti flokksins. Nýr formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er nýliði í stjórnmálum en kemur nú inn með miklum krafti. Hann hefur brennandi ástríðu fyrir því að bæta íslenskt þjóðfélag og hefur þegar sýnt og sannað að hann hefur mikið fram að færa þegar kemur að því að taka á þeim efnahagsvanda sem blasir við okkur. Á þinginu var undirritaður einnig kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk á þinginu og jafnframt geri ég mér grein fyrir þeirri ábyrgð sem í þessu embætti felst. Ásamt nýjum formanni og ritara ber mér að leitast við að leiða endurreisn Framsóknarflokksins, ekki flokksins vegna, heldur þjóðarinnar. Nú sem aldrei fyrr er nú þörf fyrir öflugan miðjuflokk sem gerir sér grein fyrir mikilvægi atvinnuuppbyggingar og ber hag fjölskyldufólks fyrir brjósti umfram annað.

Eins og ég sagði hér áðan þá þarf hver stjórnmálamaður að vera í stöðugri sjálfskoðun. Ég hugsaði málið vel og gaumgæfilega áður en ég gaf kost á mér til varaformennsku í Framsóknarflokknum. Með þeirri ákvörðun lá fyrir að ég ætlaði að gefa kost á mér til áframhaldandi setu á Alþingi. Ég hef notið þeirra forréttinda að vera þingmaður Norðausturkjördæmis í sex ár. Á þessum tíma hef ég unnið að fjölmörgum málum kjördæmisins og legg þau verk mín í dóm kjósenda. Það er á grundvelli þessarar reynslu og þess sem ég tel mig hafa fram að færa sem ég ákvað að bjóða mig fram til að leiða lista Framsóknarflokksins í kjördæminu. Ég bið því um stuðning framsóknarmanna til að þess að leiða lista flokksins í NA – kjördæmi.

Birkir Jón Jónsson

varaformaður Framsóknarflokksins

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.