Nær sólin að skína á þjóðina alla á ný?

Karólína Þorsteinsdóttir skrifar:    Vorið er að koma og þó að það sé þoka í dag erum við búin að fá marga sólskinsdaga. Við erum umgirt háum og tignarlegum fjöllum sem mynda hring í kringum fjörðinn, fjöllum sem vekja hrifningu margra sem koma, ekki síst allra listamannanna sem heimsækja Seyðisfjörð

 

En þó að fjöllin séu tignarleg og veki athygli, skyggja þau ansi mikið á sólina. 18. febrúar skín sólin yfir allan bæinn eftir að hafa ekki sést í tvo og hálfan mánuð og hvílík upplifun; eftir alla skugga vetrarins skín sólin á ný.

Ég kem af Suðurlandi. Þar þarf ekki að kvarta yfir sólarleysi, því þar vaknaði ég alltaf við morgunsólina. Kannski er það einmitt þess vegna sem ég nýt sérstaklega þessa fyrsta sólardags og fyllist gleði þegar ég sé hana koma, Ég hef fylgst með henni marga daga áður, þegar hún er að klifra niður hlíðarnar og mér finnst það nánast fullkomnun þegar hún skín yfir allan bæinn og sólinni er fagnað. Þá eru bakaðar sólarpönnukökur sem eru seldar til styrktar Viljanum, íþróttafélagi fatlaðra á Seyðisfirði. Síðan 18. febrúar hafa verið margir sólardagar, snjórinn hefur hopað úr háu fjöllunum og það stirnir á hann þegar sólin skín.

  

Bjart mannlíf

  

Þetta á ekki að vera annáll en ég verð nú samt að segja frá því merkilegasta sem hefur skeð síðan síðast. Skíðafólkið fékk snjóinn og æfir mikið í samstarfi við Egilsstaði, það er svo fjölbreytt og stórt skíðasvæði hérna að það gæti orðið það besta á landinu, ef til væru peningar til að byggja það enn betur upp. Svo ég fari á hundavaði yfir allt sem hefur skeð, þá hefur leikfélagið í samstarfi við skólann komið af stað unglingaleikhóp sem er þátttakandi í Þjóðleik og setti upp nýverið einþáttunginn Ísvélin eftir Bjarna Jónsson, Viskubrunnur, spurningakeppni 9. Bekkjar, þar sem öll helstu fyrirtæki bæjarins fá að sýna hvað þau geta, er einnig nýafstaðin. Ekki má gleyma Listaháskólanum sem kom með sex útskriftarnema og tvo erlenda sem unnu verkefni. Þau koma hingað allslaus með hugmyndir í kollinum sem þau vinna svo úr og það kemur margt frumlegt þar fram. Þetta var skemmtilegur hópur og þar sem þau koma alveg allslaus fór heill dagur í að veiða í matinn. Það var mikil lífsreynsla fyrir þau að fara út á sjó og veiða fiskinn, koma með hann í land og matreiða fiskibollur. Þetta er árlegur atburður og gífurleg vinna lögð í verkefnin með aðstoð heimamanna sem þau fá gjarnan efnið hjá. Mér finnst alltaf styttast í sumarið þegar þessir krakkar koma og þegar Norröna byrjar reglulegar siglingar á milli Íslands og hinna Norðurlandanna.

  

Erfið barátta

  

Þó að sólin hækki á lofti og við finnum fyrir vorinu sem er að koma, er ekki mikil breyting á stöðu landsins eftir bankahrunið. Það er svo ótrúleg saga sem við höfum svo oft heyrt af undanfarið og er áreiðanlega mjög dökk mynd. Við heyrum á hverjum einasta degi þegar helstu spekingar landsins koma fram og spá í framtíðina og flestir segja að Íslendingar séu svo vanir að berjast við náttúruhamfarir að þeir bjargi þessu eins og venjulega. Það verður áreiðanlega erfitt verkefni þó það verði nú ekki eins ljótt og hjá Spaugstofunni þegar Hólminn hvarf í sjó. Þetta verður örugglega erfið barátta fyrir landið og fyrir fólkið sem ekki tíndi saman milljarðana og flúði land. Ég sé fyrir mér unga fólkið sem missir vonina og trú á velgengnina og öll gæði heimsins og ég sé fyrir mér fólkið sem er búið að safna, með venjulegri vinnu, fyrir eignum til að eiga til elliáranna en sem eru svo bara horfnar. Ég sé fyrir mér menntafólkið sem hefur ætlað sér stóra framtíð með menntun, en því hefur alltaf verið sagt að menntunin sé grundvöllur góðrar framtíðar, en nú virðist fokið í flest skjól. Hvert stórfyrirtækið af öðru hefur farið á hausinn og atvinnuleysi er orðið geigvænlegt. Menn sem hafa verið bjartsýnir og byggt missa nú íbúðir sínar.

  

Birtir á ný?

  Það virðist flókið mál að bjarga þessu öllu. Fólk flýr land í leit að atvinnu, Íslendingar hafa löngum leitað til Danmerkur en þar er markaðurinn að verða yfirfullur. Noregur hefur boðið gull græna skóga, svo ég tali nú ekki um Kanada. Svo er málið hvernig fer þetta allt, missum við allt þetta fólk og þeir sem eftir eru berjast við að halda í einhverja atvinnu og heimilin, kikna þeir ekki alveg undan stöðunni eins og hún er í dag? Og litlu börnin sem fæðast koma í heim sem er fullur af hörku og vonleysi, hvað erum við að bjóða þessum börnum? Ég er frekar bjartsýn manneskja enda búin að sjá allskonar kollsteypur hér á landi, en er nú kannski mælirinn fullur? Ég er búin að horfa á sólina koma hérna yfir háu fjöllin þannig að hún skín yfir allan bæinn og mér finnst það kraftaverk að horfa á þegar hún skríður niður fjöllin þangað til hún skín yfir allan bæinn. Verðum við ekki að vona, þrátt fyrir svart útlit, að hún nái að skína yfir þjóðina alla á ný? Ég held við þurfum að taka alvarlega til, koma bönkunum í betri hendur en þeir hafa verið í og útrásarliðið verður að skila til baka einhverju af þeim auðæfum sem það flutti úr landi. En það þýðir ekki að velta sér upp úr þessu, við þurfum bara að vera bjartsýn og trúa því ennþá einu sinni að Ísland rísi úr öskustónni.

Gleðilegt sumar. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.