Öflug heilbrigðisþjónusta

Val á búsetu á ekki að takmarka rétt okkar til þjónustu á vegum hins opinbera. Að búa á landsbyggðinni er val sem við íbúar höfum tekið af hinum ýmsu ástæðum. En eftir því sem við flytjumst fjær Reykjavík, höfuðborg Íslands þá er það staðreynd að þjónusta á vegum hins opinbera verður minni og minni. Skattar eru hinsvegar alltaf jafn háir, þeir lækka ekki eftir því sem við flytjumst fjær Reykjavík. Gífurleg verðmætasköpun fer fram á landsbyggðinni, við verðum því alltaf að standa í fæturnar og standa vörð um rétt okkar til fullnægjandi þjónustu á vegum hins opinbera.

Takmarkað fjármagn

Fjármagn er takmarkað til heilbrigðisstofnana um allt land og stjórnendur þurfa að huga vel að hverri krónu. Hvert eigi að setja þær krónur innan stofnunarinnar svo þær nýtist sem best. Fjórðungssjúkrahús um allt land eiga að vera gífurlega öflug og mikilvægt er því að tryggja nægt fjármagn til að standa vel að allri heilbrigðisþjónustu, bæði forvörnum, almennri læknisþjónustu og öflugri bráðaþjónustu því þar skipta mínúturnar máli.

Öflug bráðaþjónusta

Allir verða að hafa aðgang að öflugri bráðaþjónustu því sérhæfða heilbrigðisþjónustan tengt innvortis blæðingum, hjartaveikindum og fyrirburum er staðsett í Reykjavík. Greining verður að fara hratt fram og ekki má gefa neinn afslátt af þessu skrefi því sjúkraflug taka langan tíma, biðin eftir fluginu og flugtíminn suður. Öflug bráðagreining verður því að vera til staðar á stærri þettbýlisstöðum sem eru fjarri Fjórðungssjúkrahúsum til að greina fljótt og vel hvert för okkar er heitið. Þar má ekki að taka neina sénsa.

Heilbrigðisþjónusta fyrir alla

Þessa grunnhugsun, að allir landsmenn búi við örugga og öfluga heilbrigðisþjónustu má ekki gefa afslátt af. Það er tvennt ólíkt að búa við hlið Landspítalans þegar heilsan brestur en að vera staðsettur á landsbyggðinni. Leggja verður því metnað og fjármagn í að veita fullkomna heilbrigðisþjónustu með öflugri bráðagreiningu á landsbyggðinni svo við sitjum öll við sama borð varðandi líf og heilsu okkar hér á landi.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og frambjóðandi í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.