Öflugt og metnaðarfullt uppbyggingarstarf hjá FHL

Í sumar verður mikið um að vera í kvennaknattspyrnunni hjá FHL. Meistaraflokkur félagsins spilar áfram í næstu efstu deild, Lengjudeildinni. Auk þess var í ár tekin ákvörðun um að senda til leiks lið í keppni U-20 ára liða.

Á síðasta ári var 2. flokks lið kvenna starfrækt í fyrsta sinn um langt árabil og var þá í höndum yngri flokka starfs Hattar og KFA. Að loknu síðasta tímabili fékk stjórn FHL beiðni frá Rekstrarfélagi Hattar og stjórn KFA um að halda utan um rekstur 2. flokks kvenna.

Stjórnin sá tækifæri í þessu, en mikil samlegð er að sjálfsögðu með starfi meistaraflokks og 2. flokks, en stór hluti leikmanna FHL eru á aldrinum 16 – 20 ára. Það var því ákveðið að liðið skyldi kallað U-20 þar sem það gefur tækifæri til að veita öllum stúlkum á aldrinum 16-20 ára sem æfa með FHL tækifæri til að iðka íþróttina, efla sig andlega, félagslega og líkamlega og keppa við jafnöldrur sínar um land allt.

Allt þar til á síðasta ári var gap á milli 3. fl. og meistaraflokks. Ekki þarf að fjölyrða um bilið sem er þar á milli og að mörgum stúlkum getur reynst erfitt að stíga yfir það í einu skrefi. Með U20 liðinu fá þær stúlkur tækifæri á meðan þær þroskast bæði líkamlega, andlega og knattspyrnulega og verða tilbúnar til að keppa með meistaraflokki.

Þá var ákveðið að styrkja lið meistaraflokks svo það fái jafna leiki í Lengjudeildinni á meðan þeir leikmenn FHL, sem þurfa að styrkja sig og ná færni til að spila í þeirri deild, fái tíma til þess. Öflugar styrkingar voru sóttar inní leikmannahópinn fyrir sumarið, og hafa þeir leikmenn sem inn hafa komið frá síðasta ári komið vel inn í liðið. Lengjudeildin hefur alltaf verið að eflast og liðin þar eru sum hver á pari við neðri lið Bestu deildarinnar. Það er því mikilvægt að álagið á leikmenn sé í takt við stöðu þeirra hverju sinni.

Að mati stjórnar FHL var mikilvægt að bjóða upp á U-20 til að sporna gegn brottfalli stúlkna úr íþróttinni og viðhalda því forvarna- og félagsstarfi sem unnið er í yngri flokkum og stúlkurnar hafa notið góðs af. Með þátttöku í U-20 aukast möguleikar á því að fleiri stúlkur á Austurlandi verði leikmenn í meistaraflokki framtíðarinnar. Væntingar standa til að með því aukist vegur kvennaknattspyrnu í landsfjórðungnum. Aukabónus er að hverju sinni mega 4 leikmenn sem eru eldri en 20 ára spila í U20 liðinu. Það gefur enn fleirum tækifæri, t.d. þeim sem eru að vinna sig í gegnum meiðsli, koma aftur inn eftir barneignir eða hlé af öðrum ástæðum.

Fyrirkomulagið í sumar verður þannig að útileikir U-20 passa saman við útileiki meistaraflokks. Þá geta þeir leikmenn, sem fara með meistaraflokki í leik en spila lítið eða ekkert, fengið tækifæri með U-20 daginn eftir. Stjórn FHL vill kom á framfæri þakklæti til mótanefndar og starfsmanna KSÍ fyrir að hafa orðið við beiðni félagsins um að raða leikjum beggja liða FHL upp á þennan hátt. Þar með eiga allir leikmenn að fá leikreynslu og spila knattspyrnu í sumar og til þess er jú leikurinn gerður.

Gengið var til samninga við Ljubisa Radovanovic, betur þekktur sem Ljuba, til að þjálfa U-20 ára liðið, auk þess sem hann verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Ljuba þekkir afar vel til stelpnanna, hefur þjálfað þær margar um árabil og ljóst að reynsla hans og þekking mun nýtast vel í þessu uppbyggingarstarfi.

Björgvin Karl Gunnarsson, er síðan áfram aðalþjálfari meistaraflokks, en undir hans stjórn hefur árangur FHL vakið verðskuldaða athygli og mikill stígandi verið í spilamennsku og umgjörð liðsins. Stjórn FHL bindur miklar vonir við öflugt samstarf þessara tveggja frábæru þjálfara, og það uppbyggingarstarfs sem þeim hefur verið falið að leiða.

Eins og undanfarin ár er ferðakostnaður FHL gríðarlegur og eykst til muna með tilkomu U-20 ára liðs. Forsvarsfólk FHL hefur á undanförnum árum, líkt og önnur lið á landsbyggðinni bent á að aðgerða sé þörf til að koma til móts við þann mikla ferðkostnað sem lið á landsbyggðinni bera á sínum herðum. FHL er heppið með öflugum stuðning. Með styrkjum fyrirtækja á svæðinu og stuðningi velunnara er gerlegt að halda úti jafn öflugu starfi og raun ber vitni. Vill stjórn þakka öllum þeim fjölmörgu stuðningsaðilum kærlega fyrir þeirra framlag til eflingar kvennaknattspyrnu í landsfjórðungnum.

Fyrsti leikur Íslandsmótsins hjá U-20 FHL er á heimavelli í Fjarðabyggðarhöllinni kl. 18 í kvöld, föstudaginn 10. maí en þá mætir sameiginlegt lið félaga á Norðurlandi. Íslandsmótið hjá meistaraflokki FHL hófst síðastliðinn sunnudag á Selfossi þar sem FHL gerði 2-2 jafntefli en fyrsti heimaleikurinn verður gegn ÍA kl. 14 á sunnudaginn.

Mig langar að lokum að hvetja íbúa Austurlands til að mæta á leiki beggja liða í sumar og sýna öflugum leikmönnum okkar stuðning. Við erum öll bjartsýn á sumarið og framtíð kvennaknattspyrnunnar á Austurlandi.

Áfram FHL!

Höfundur er formaður stjórnar FHL

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.