Öflugt samfélag

Nú á komandi vori verða sveitarstjórnarkosningar. Þar með lýkur fyrsta kjörtímabili sveitarstjórnar í hinu nýja sveitarfélagi Múlaþing.

Margs er að minnast á þessum 18 mánuðum og ber þar einna hæst tvennt. Í fyrsta lagi skriðuföllin á Seyðisfirði sem dundu yfir okkur og Guðs mildi að ekki hlutust stórslys af. Var engu líkara en að einhver verndarhendi væri yfir Seyðisfirði.

Múlaþing lagði allt sitt í þessar náttúruhamfarir og stóðu starfsmenn vaktina þarna af stakri prýði og ber að þakka fyrir það. Ekki má gleyma Seyðfirðingum sjálfum sem stóðu sig einnig með stakri prýði í þessu öllu saman, þurftu í skyndingu að yfirgefa heimili sín, misstu húseignir hvort sem var heimili eða atvinnuhúsnæði. Takk Seyðfirðingar fyrir ykkar framlag þið stóðuð ykkur eins og hetjur.

Þarna sá maður hversu mikilvægt það var að búið var að sameina þessi sveitarfélög. Marga heyrði ég hafa orð á því og ekki síst Seyðfirðinga sjálfa, einnig heyrðist talað um það á landsvísu hversu vel var staðið að hreinsunarstarfinu.

Hið síðara er ber hæst er heimsfaraldurinn sem dundi yfir okkur með öllu sem honum tilheyrði fjöldatakmörkunum og fleiru sem varð til þess að allir fundir og fundarhöld fara fram í tölvu þökk sé þessari tækni sem til er nú og nettengingum sem eru svo mikilvægar. Skipta þurfti vinnustöðum í einingar svo ekki of margir hittust og átti það við á starfsstöð Múlaþings á Egilsstöðum eins og öðrum.

Þetta hefur kennt okkur landanum að það er ekkert mál að funda landshluta á milli án tilheyrandi kostnaðar vegna ferða og uppihalds svo ég tali nú ekki um tímasparnaðinn. Að mínu mati er þetta komið til að vera. Þarna skiptir mestu máli að nettengingar séu góðar. Í Múlaþingi er búið að gera stórátak í lagningu ljósleiðara, flest öll heimili komin með ljósleiðara eða sambærilega tengingu.

Skipulag og atvinna

Ég sit í umhverfis- og framkvæmdanefnd og þar hefur verið mikið af málum bæði mál sem komin voru af stað í hinum gömlu sveitarfélögum sem við héldum áfram með, einnig mikið af nýjum málum sem komið hafa inn. Mislangur tími fer í mál eðli málsins samkvæmt.

Umhverfissviðið er endalaust að fara yfir verkferla, hvort ekki sé hægt að stytta tíma án þess að það komi niður á laga kerfinu. Við Íslendingar erum nefnilega snillingar í að kalla yfir okkur lög og reglur sem ævinlega lengja alla ferla. Það á ekki bara við í þessu tilfelli heldur mjög víða annarstaðar. Mér finnst að við þurfum að taka til í laga og regluverkinu hvað þetta varðar, til þess þurfum við að fá í lið með okkur stjórnvöld og stofnanir. Þetta er verkefni sem þarf að vinna til að stytta ferlið.

Allur sá tími sem fer í breytingu á aðal- og deiluskipulagi: umsagnaraðilar þurfa sinn tíma, kærufrestur þarf sinn tíma svo þarf að vinna úr athugasemdum, taka málið fyrir í nefndum, ráðum og sveitarstjórn, síðan að gefa út öll tilheyrandi leyfi, allt tekur þetta sinn tíma.

Á árinu 2021 lágu 48 umsóknir um breytingar á aðal. - og deiluskipulagi fyrir að auki 22 ný deiliskipulög , 33 kláruðust og 37 eru í vinnslu.

Í árslok 2021 eru 89 lausar lóðir í Múlaþingi og eru 44 af þeim á Fljótsdalshéraði.

Það er margt að gerast í atvinnumálum í Múlaþingi þar má t.d. nefna uppbygging á Djúpavogi hún er mest vegna meiri umsvifa í fiskeldi. Á Seyðisfirði er fyrirhöguð breyting á hafnaraðstöðunni sem mun m.a. breyta miklu fyrir smábáta, skútur og skemmtiferðaskip. Á Egilsstöðum er það Egilsstaðaflugvöllur, flughlað og akbraut sem vonandi verður byrjað á sem fyrst svo flugvöllurinn uppfylli skilyrði sem alþjóðaflugvöllur. Ferðaþjónusta er vaxandi á Borgarfirði og eru ferðaþjónustuaðilar að bregðast við því með meiri uppbyggingu.

Samgöngur

Margt er ógert í samgöngum í Múlaþingi, þótt eitthvað þokist í rétta átt, sem dæmi á Borgarfjarðarvegur að vera kominn með varanlegt slitlag á hausti komandi, einnig Efradalsvegur á Jökuldal við Arnórsstaði, sem skiptir miklu máli vegna mikils ferðamannastraums að náttúruperlunni Stuðlagili. Þessar vegabætur eru ekki síst mikil lífskjör fyrir þá íbúa sem þarna búa og þurfa að sækja öll sín aðföng eftir þessum vegi, það virðist vera tilhneiging til að íbúar gleymast þegar kemur að bættum samgöngum.

Ný Lagarfljótsbrú þarf að komast sem fyrst í framkvæmd, þessi brú er farartálmi þungaumferðar. Það eru ekki mörg ár í að bannað verður að fara þar um með þungaumferð. Þess vegna er brýnt að koma þessari framkvæmd sem fyrst af stað.

Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði svo og Öxi eru verkefni sem okkur er lofað en þarna má ekkert til slaka og halda áfram að berjast fyrir, þetta eru samgöngur sem skipta okkur öll miklu máli.

Til að vinna að öllum þessum málum hef ég ákveðið að bjóða mig fram í 1. – 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 12. mars næstkomandi.

Ég tel mig geta unnið að öllum þessum málum þar sem ég hef langa reynslu af sveitarstjórnarmálum og mun vinna að heilum hug fyrir alla kjarna Múlaþings og þar á ég einnig við hina dreifðu byggð í Múlaþingi.

Byggjum öflugt samfélag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.