Öxi, lífæð samfélagsins
Nú þegar það eru að verða þrjú ár frá fæðingu Múlaþings hefur orðið æ sýnilegra hversu mikilvæg Öxi er fyrir eðlilegt samstarf á milli kjarna sveitarfélagsins.Eitt sameinað sveitarfélag sem áður voru fjögur aðgreind bæjarfélög varð að öðru víðfeðmasta sveitarfélagi landsins, um 10.671 ferkílómetrar að flatarmáli sem er rúm 10% af flatarmáli Íslands. Til að þessi kokteill gangi upp þá verða helstu lífæðar kjarnanna að vera greiðar, allt árið um kring.
Æðakerfi Múlaþings er margslungið og hægt væri að segja að við ættum þrjár ósæðar. Þessar lykil æðar í kerfinu okkar er undirstaða blóðrásarinnar. Eins og staðan er núna er fyrirstaða sem við verðum að lagfæra, sem fyrst. Einungis þannig nær þetta margslungna kerfi að blómstra.
Það er ærin ástæða til þess að halda Öxi opinni allt árið um kring, þessi leið hefur verið fyrir vali fólks í marga áratugi og er enn, enda ástæða til, styttingin munar verulega. Til að við í Múlaþingi eigum að eiga möguleika á að starfa sem eitt sveitarfélag þá verðum við að geta komist á milli kjarna með greiðum hætti. Forsendur til þeirrar samlegðar sem bæði íbúar og stjórnvöld töldu eðlilega í kjölfar sameiningarinnar grundvallast á greiðum leiðum á milli kjarna.
Áhugavert er að skoða sögu vegarins en vegurinn var byggður upp árið 1960 í sjálfboðavinnu öflugs ungmennafélags og fjárframlögum þess og höfðu félagsmenn einkum safnað tekjum fyrir félagið með því að rækta og selja kartöflur og rófur. Nú eftir alltof langa bið eftir nýjum vegi verðum við að fara að sjá að Öxi sé tryggð í næstu samgönguáætlun og komist í fjármögnunarferil.
Múlaþing gengur einfaldlega ekki upp ef ekki er hægt að komast á milli staða með greiðum hætti og höfum við í sveitastjórn Múlaþings ásamt öllum þeim sem koma að Öxi með einhverjum hætti, hvort sem það eru umræður við ráðherra og þingmenn eða aðra þá sem unnið hafa við þjónustu Axarvegar og/eða gerð nýs vegar um Öxi verið einskorðuð í tali þegar brýnt er um nauðsyn opnunar vegarins á vorin og mikilvægi nýja vegarins. Undirritið vill trúa því að talið beri þann árangur sem vænlegastur er til vinnings.
Nanna Guðmundsdóttir orti við opnun vegarins 1960:
Axarvegur er orðinn fær
öruggum manni á góðum jeppa.
En aktu varlega, vinur kær,
viljirðu heill til byggða sleppa.
Undirrituð er formaður heimastjórnar á Djúpavogi og kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings.