Ofanflóð og atvinnulífið
Aurskriður og ofanflóð eru okkur mörgum ofarlega í huga í kjölfar náttúruhamfaranna sem áttu sér stað á Seyðisfirði í vetur. Á Norðurlandi hafa einnig fallið snjóflóð í byggð með tilheyrandi áhrifum á samgöngur og atvinnulíf og viðvarandi snjó- og ofanflóðahætta er víðar.Af gefnu tilefni er því forvitnilegt að skoða löggjöf um ofanflóð, stöðu eigenda fasteigna, samfélagslegt tjón og þann mismun sem gerður er varðandi atvinnuhúsnæði annars vegar og íbúðarhúsnæði hins vegar í því samhengi.
Reglur um ofanflóðanefnd og ofanflóðasjóð gera ráð fyrir að greiða megi allt að 90% af kostnaði við kaup eða eignarnám á húseignum að því gefnu að það sé hagkvæmara en varnaraðgerðir sem sjóðurinn myndi annars fjármagna að hluta eða öllu leyti. Meginreglan í því sambandi er sú að við uppkaup húseigna sé tekið mið af staðgreiðslumarkaðsverði sambærilegra húseigna utan hættusvæða sem alla jafna er líklegt að sé töluvert lægra en brunabótamat sömu eigna úti á landsbyggðunum. Í því samhengi má benda á að bætur geta dugað skammt ef ekki er sambærilegt húsnæði til sölu í byggðarlaginu.
Lögin hafa fram til þessa verið túlkuð á þann hátt að þau eigi eingöngu við um íbúðarhúsnæði.
Í frumvarpi um breytingu á lögum nr. 49/1997 sem liggur fyrir Alþingi er fjallað um uppkaupaákvæði. Lögð er til breyting á 11. gr. laganna um að í stað þess að vísað sé til húseigna, verði vísað til íbúðarhúsa með þeim rökum að tilgangur lagasetningarinnar sé að verja byggð.
Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á að forsenda öflugrar byggðar er að atvinnulífið standi traustum fótum og jafnframt að benda á að fjármögnun ofanflóðasjóðs felst í gjaldtöku af öllum húseignum þ.m.t. atvinnuhúsnæði. Því er órökrétt, og getur beinlínis verið hamlandi, að atvinnuhúseignir geti ekki fallið undir uppkaup með sama hætti og aðrar fasteignir og reyndar varasamt sé horft til samfélagslegra hagsmuna á hverjum stað til lengri tíma. Þetta misræmi þarf að leiðrétta.
Höfundur, er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og býður sig fram í oddvitasæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar árið 2021.