Óhamingja Austurlands
Hugmyndin með skrifum þessum er að líta í baksýnisspegilinn og skoða hvað betur hefði mátt fara í samskiptum ráðandi manna á Austurlandi, sem hefði getað þýtt fjölmennara samfélag í fjórðungnum en nú er. Tek fram að þetta er mín persónulega sýn á hlutina. Aðrir hafa aðra sýn og geta sett fram sínar skilgreiningar.Olíumöl í stað forarpolla.
Við skulum byrja á því að staldra við árið 1974. Í hinum austfirsku smáþorpum voru allar götur malargötur. Slitlag þekktist ekki. Gangstéttir varla heldur. Þessu fylgdu drullupollar eftir hverja rigningu úr hverjum skólpið skvettist á gangandi vegfarendur, gott ef ekki fylgdi grjótkast, ef mölin var í grófari kantinum.
Ljóst var að svona gat þetta ekki gengið lengur, en hin smáu þorp voru vanbúin til þess að bæta úr. Þarna gilti samstaðan. Samband sveitarfélaga í Austurlands var þá ekki fyrir löngu stofnað og beitti stjórn þess og framkvæmdastjóri sér fyrir skipulögðu átaki um að koma að minnsta kosti helstu umferðargötum alls staðar á Austurlandi undir slitlag. Gerð var áætlun sem gilti í nokkur ár og sagði fyrir um hvaða götur í hvaða þorpum skyldu „teppalagðar“ hvert ár.
Árangurinn var mun snyrtilegra umhverfi og í raun fyrsta skrefið til að bæta ásýnd fjórðungsins í heild.
Í mínu minni er þetta eitthvert fegursta dæmi um ágætt og árangursríkt samstarf kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. En slík dæmi eru í mínum huga því miður alltof fá.
Jarðgangamál
Ætli það hafi ekki verið árið 1993 að ég sat, ásamt fulltrúum úr flestum eða öllum sveitarfélögum, fund á Reyðarfirði. Á fundinn mættu Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri og fleiri úr þeim hópi sem stjórnuðu samgöngumálum landsins. Erindi þeirra var að kynna áætlun um gerð jarðganga á Austurlandi. Fyrsti áfangi áttu að vera svokölluð Y-göng, sem skyldu tengja Hérað við Seyðisfjörð og Norðfjörð í gegnum Mjóafjörð. Síðan var forgangsraðað næstu göngum í framhaldinu. Sjálfum leist mér vel á þessa hugmynd, og trúlega ýmsum öðrum.
Líklega hefur þessi fundur verið illa undirbúinn, en fundarmenn voru ekki tilbúnir til að vinna með vegamálastjóra að þessari áætlun og voru dæmi um hávær mótmæli úr röðum heimamanna.
Ég er ennþá sannfærður um að Austurland væri annað í dag, ef þessari áætlun hefði verið fylgt. Héraðið væri fyrir löngu komið í heilsárs vegasamband við Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Norðfjörð. Í dag væru einnig komin Fáskrúðsfjarðargöng og líklega Norðfjarðargöng.
Svona fór um sjóferð þá.
Fyrir mér var stytting leiðar milli Egilsstaða og Neskaupstaðar mikilvægasta framförin, en núgildandi áætlun um göngin Seyðisfjörður-Mjóifjörður-Norðfjörður styttir þessa leið mun minna. Þarna skutu heimamenn sig einfaldlega í fótinn með áhugaleysi sínu eða jafnvel andstöðu. Í dag skreytir Mið-Austurland sig aðeins með tvennum jarðgöngum í stað líklega fimm.
Norðurleiðin
Um svipað leyti kom til valda nýr samgönguráðherra, Halldór Blöndal. Eitt fyrsta áhugamál hans var að koma bundnu slitlagi á leiðina Akureyri-Egilsstaðir. Þetta var á þeim árum talin mikil bjartsýni en enn ullu kollegar mínir í austfirskri pólitík vonbrigðum. Mjög fáir urðu til þess að fagna þessari stefnu. Hættan lá í því að við hér eystra hættum að versla í heimabyggð og sæktum allt norður. Jafnvel heyrðust raddir ábyrgra pólitíkusa um að fyrst þyrfti að tengja Austurland við Akureyri með því að gera góðan veg leiðina Egilsstaðir-Vopnafjörður-Bakkafjörður-Þistilfjörður-Öxarfjörður-Húsavík-Aðaldalur-Ljósavatnsskarð o.s.frv. með með bundnu slitlagi. Þegar svona raddir heyrast úr austfirskum ranni, er ekki von að mikið sé hlustað.
Vegurinn norður um Möðrudalsöræfi var nú samt kláraður og þekki ég engan efasemdamann um ágæti þeirrar framkvæmdar. En ekki var heyranlegri hvatningu okkar hér eystra fyrir að fara.
Aðrar leiðir
Seinna var ráðist í göng undir Almannaskarð, sem ég tel hafa verið mikla samgöngubót fyrir okkur sem hírumst hér á Austurhorninu. Sama sagan. Enginn áhugi á Mið-Austurlandi. Nú áratugum síðar er hafinn undirbúningur að mikilli styttingu hringvegar með brúargerð yfir Hornafjarðarfljót. Áhugi okkar hér á miðsvæðinu er ekki merkjanlegur. Þó þenjum við vélfáka okkar í stríðum straumum suðurleiðina, ekki síst að vetrarlagi meðan færð á heiðum norðan lands er ótrygg. Ekki má gleyma vöruflutningunum, en þeir fara nú nánast allir fram á þjóðvegunum.
Ég hef hreyft því við framafólk að mikilvægt sé að tengja saman Norðurland og Suðurland í gegnum Austurland, stytta leiðina með góðum Axarvegi og öðrum aðgerðum sem myndu laga leiðina. Mér dettur í hug vegurinn í Hamarsfirði sunnanverðum, þar sem við höfum tapað mannslífum, og síðan má ræða göng undir Lónsheiði. Lagarfljótsbrúin er ekki beinlínis flöskuháls. Þó þurfa farartæki með yfirþyngd að leggja leið sína út á brú við Lagarfoss, ef þeir ætla að komast í gegnum Austurland.
Reyndar hefur endurbygging brúarinnar lengi verið á dagskrá. Fyrst varð hún bitbein sveitarfélaga, sem ekki gátu komið sér saman um staðsetningu, síðan kom hrunið og nú er verið að tjasla í dekkið eina skammtímaviðgerðina enn. Þetta vitnar ekki um mikinn framfarahug þegar kemur að samgöngum í gegnum fjórðunginn en styrkir hins vegar þá skoðun mína að vald yfir legu stofnvega sé ekki best komið á hendi sveitarfélaga.
Álit austfirskra forystumanna er einfaldlega: „Greið leið í gegnum Austurland fyrir aðra landsmenn þjónar ekki okkar hagsmunum“.
Stundum finnst mér að menn hafi lifað í þeirri sælu trú að við hér eystra hefðum allt og græddum ekkert á því að vera í samskiptum við aðra Íslendinga.
Innanfjórðungsleiðir
Um tíma þjónaði ég íþrótta- og æskulýðsmálum Austfirðinga sem framkvæmdastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Eins og menn vita er sambandssvæðið býsna víðáttumikið og á þessum árum, báðum megin við 1980, voru leiðir torfarnari en nú. Þegar stofnað var til móta eða funda var sjaldgæft að sjá fulltrúa Djúpavogs eða Vopnfirðinga mætta. Ferðalag frá Vopnafirði til Djúpavogs tók gjarna fjóra til fimm tíma og því ekki að undra að innbyggjarar þessara ágætu byggðarlaga treystu sér sjaldan til samfunda sín á milli.
Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri skynjaði ég þó fljótt að svona þurfti þetta ekki að vera. Með jarðgöngum á Vopnafjörð og góðan veg yfir Öxi mátti stytta ferðatímann um ríflega helming. Ég lagði því fram tillögu á U.Í.A-þingi þess efnis að skorað yrði á stjórnvöld að beita sér fyrir úrbótum. Tillagan féll vægast sagt ekki í góðan jarðveg, en hún var þó samþykkt með viðaukum, sem engu máli skipti fyrir megintilganginn.
Þarna fann ég á eigin skinni áhugaleysi og jafnvel andstöðu þeirra sem búa á Mið-Austurlandi fyrir því að efla fjórðunginn sem eina heild. Situr enn við það sama. Jarðgöng til Vopnafjarðar eru ekki á dagskrá og Axarvegur er vægast sagt ekki efst á óskalista margra þeirra sem fjórðungnum stjórna. Geri ég þá ekki lítið úr nauðsyn úrbóta á öðrum leiðum, svo sem í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og víðar á Suðurfjörðum.
Samgöngumiðstöð eða samgönguhindrun
Egilsstaðir eiga að teljast samgöngumiðstöð Austurlands. Þar er flugvöllur, sem flugmenn segja hafa eitthvert þægilegasta aðflug á landinu. Ókunnugir gætu haldið að þar á bæ vildu menn greiða fyrir umferð og tengja hana sem best við þessa „flóttaleið“ suður og við hringveginn sem liggur þar í gegn.
Í vandræðum sínum í árdaga (um 1970) var meginleið í gegnum þorpið á Egilsstöðum ákveðin um Fagradalsbraut. Áður hafði hún legið í krókum um Lyngásinn, nú var hún orðin bein, en nokkuð brött eins og menn þekkja. Utan við þéttbýlið er land óvenju aðgengilegt til vegagerðar, sé Héraðið skoðað í heild.
Þar hafa ýmsir lagt til að Borgarfjarðar- og Seyðisfjarðarvegur verði lagður fyrir utan svokallað Melshorn með tengingu við hringveg ekki langt frá flugvelli, jafnvel inn á flugvallarafleggjarann. Hefði það létt nokkuð á umferð í gegnum þéttbýlið, flugvöllurinn orðið aðgengilegri fyrir þá sem koma að utan, leiðin norður í land og til Fellabæjar einnig þægilegri og síðast en ekki síst aðgengi þeirra sem koma af Borgarfirði, Út-Héraði og Seyðisfirði að miðbæ Egilsstaða myndi batna til muna, þar sem þeir myndu komast hindrunarlaust að vegamótunum við N1 (áður söluskála KH B) en sleppa við að krækja í gegnum bæinn framhjá ótal gatnamótum, gangbrautum sem þvera leiðina og öðrum slíkum hraðahindrunum.
Þessum hugmyndum var þó alfarið hafnað af skipulagsvaldi heimamanna án þess að málefnaleg rök væru uppi höfð.
Í kaldhæðni minni hef ég sagt að við þyrftum að hafa alla umferðina í gegnum bæinn til þess að kaupfélagið færi ekki á hausinn. Síðast þegar ég átti tal við andstæðing Melshornsleiðarinnar bar hann því við að ekki væri hægt að leggja veg þarna vegna nálægra vatnsbóla fyrir Fellbæinga og Egilsstaðabúa. Fyrir ókunnuga skal þess getið að nú eru liðin mörg ár síðan vatnsból þessi voru fjarlægð, enda orðin ófullkomin strax þegar saga þessi gerðist.
Einhvern ávæning hef ég þó heyrt af því að þessi leið yrði skoðuð í tengslum við væntanleg Seyðisfjarðargöng. Af fyrri reynslu treysti ég þó ekki á sinnaskipti í þessu máli fyrr en ég tek á.
Minn skilningur er sá að alvöru samgöngumiðstöðvar eigi að greiða leiðir að þjónustu innan þeirra í stað þessa að leggja steina í götu umferðarinnar.
Austurland smækkar
Þeir sem muna eftir gamla Austurlandskjördæmi ganga að því vísu að suðurmörkin séu við Skeiðará, norðurmörkin við Gunnólfsvíkurfjall í Bakkafirði. Samband sveitarfélaga á Austurlandi mynduðu félagslega heild á þessu svæði.
Árið 1997 breyttist þetta. Austurlandskjördæmi var slitið í sundur. Suðurhlutinn, Austur-Skaftafellssýsla, var talin með Suðurkjördæmi og nokkru síðar hurfu Austur-Skaftfellingar úr samtökum sveitarfélaga á Austurlandi. Þá var skarð fyrir skildi að mínu viti, svo miklu hlutverki höfðu Hornfirðingar gegnt innan samtakanna. Mér er þó ekki örgrannt um að sumir hér á Mið Austurlandi hafi grátið þessa þróun þurrum tárum. Auðvitað er Hornafjörður langt í burtu frá okkur sem austar lifum, en samstarf við „þarlenda“ var þó almennt gott og á sumum sviðum náið.
Eftir situr Austurland einu stóru byggðarlagi fátækara.
Sama gerðist á norðurendanum. Skeggjastaðahreppur, útvörður Austurlands í norðri, er ekki lengur til. Ný mörk liggja um Sandvíkurheiði og ekki gott að vita hver þróunin verður.
Ég er einn af þeim fáu, sem telja þessa skerðingu Austurlands óheillaþróun. Þó ég voni að innbyggjurum Bakkafjarðar og Hornafjarðar líði betur í hinu nýja stjórnskipulega umhverfi, sakna ég þeirra og tel að brotthvarf þeirra hafi veikt okkur sem byggjum miðhluta fjórðungsins.
Aðrir geta verið á öðru máli og gildir það einu.
Landaparís
Eins og ég hef áður komið að í skrifum mínum tel ég vinnuna við endurnýjaða skiptingu landsins í sveitarfélög ákaflega mislukkaða.
Sem krakki lærði ég leik sem við kölluðum landaparís. Tveir krakkar bjuggu til allstóran hring á nýslegnu túni og skiptu í tvennt. Fékk hvor leikmaður sinn helminginn. Til að draga mörkin var notaður hnífur, vasahnífur eða stærri kuti (dálkur). Annar leikandinn stóð á sínu svæði og reyndi að kasta hnífnum í land andstæðingsins þannig að hann stakkst í grassvörðinn. Ef stungan tókst var dregin lína eins og blaðið sneri, þvert yfir landareign mótaðilans, sem síðan var spurður hvorn partinn hann vildi eiga. Hann valdi venjulega stærri partinn. Síðan voru eldri mörkin þurrkuð út og nýja línan voru takmörk „sveitarfélaganna“, annað stækkaði en hitt minnkaði. Þá átti sá sem missti land næsta leik og kastaði á lóð nágrannans. Kannski stakkst hnífurinn og þá eignaðist hann landakröfu. Kannski stakkst hnífurinn ekki og þá var aftur ráðist á hina minnkuðu lóð. Þessu var haldið áfram þangað til annar hlutinn var orðinn svo lítill að ekki var hægt að standa á henni öðrum fæti. Þá var leikurinn búinn og svæðið orðið að einu „sveitarfélagi“.
Vinna sveitarstjórnarmann hefur í seinni tíð minnt mig æ oftar á þennan gamla barnaleik. Þeir sveitarstjórnarmenn sem eru duglegir við að „láta hnífinn stingast“ stækka sitt yfirráðasvæði. Hinir eru þurrkaðir út af landakortinu.
Við þennan hráskinnaleik hafa sveitarstjórnarmenn fengist í þrjá áratugi í boði stjórnvalda, sem hafa ýtt undir með fjárframlögum og öðrum gylliboðum í stað þess að leysa málið ofan frá, þó í fullu samráði og skipulegum viðræðum við heimaaðila. Í stað þess að sinna þjónustu sinni betur við nærsamfélagið hafa sveitarstjórnarmenn slitið sér út við þennan fáfengilega leik í þrjá áratugi. Niðurstaðan er hin ömurlegasta. Við hér eystra höfum nú tvo risa og tvö örsveitarfélög og eiga þessi samfélög sáralítið sameiginlegt.
Tveir turnar
Mitt mat er að niðurstaðan úr hinum austfirska landaparís sé hin ömurlegasta. Austfirðingar standa uppi með tvö tiltölulega sterk sveitarfélög, sem bæði vilja spara sem mest samstarf við hitt. Tvö önnur sem hafa veika stöðu, annars vegar vegna fámennis og hins vegar vegna fjarlægðar til næstu byggða.
Í fljótu bragði virðast þessar einingar ekkert eiga sameiginlegt og því hlýtur allt samstarf þeirra á milli að verða sýndarmennskan ein. Hin tvö stóru telja sig getað bjargað sér hvort um sig á eigin spýtur, hin smærri ekki virt viðtals. Þannig eru komnar tvær stjórnsýslueiningar sem hvor um sig hafa um 5000 íbúa. Samstaða um stærstu framfaramál allra Austfirðinga er horfin.
Sem dæmi vil ég nefna að við stofnun sveitarfélagsins Múlaþings var samþykkt að leggja niður Skólaskrifstofu Austurlands, sem þjónað hafði grunnskólum fjórðungsins ágætlega í áraraðir. Forsvarsmenn Múlaþings og Fjarðabyggðar telja báðir lokunina hagkvæma. Vel má það vera í peningum talið, en hvernig verður þjónustustigið þegar hvort sveitarfélagið um sig sinnir þessum málum sjálft? Verður samstarf? Hvernig verður því háttað?
Mestalla mína starfsævi hefi ég þjónað öllu Austurlandi. Vissulega er það möguleiki enn í dag, en á vettvangi sveitastjórna miðast allt við að halda störfum innan sveitarfélaga. Maður sem ekki er búsettur í sveitarfélaginu er ekkert velkominn á vinnumarkaðinn, þegar málin eru rædd í bæjarstjórnum.
Segja má að þetta skipti ekki stóru máli þar sem Austurland er fyrir löngu orðinn einn vinnumarkaður, en eðlilegt að þetta fari í taugarnar á manni stundum, því að óhjákvæmilega tengjast þjónustustörf ráðandi bæjaryfirvöldum. Við þurfum alltaf af og til að vera í sambandi við opinbera ráðamenn, ekki satt?
Þjónustukjarninn Egilsstaðir
„Þegar ungur ég var“ og flutti 18 ára gamall til Egilsstaða var hér þorp sem taldi á milli þrjú og fjögur hundruð íbúa. Upp úr því fjölgaði nokkuð ört. Viðbrögð annarra Austfirðinga voru jákvæð. Komin nýr meðlimur í þorpafjölskylduna. Gaman að því!
Á áttunda áratugnum var komið annað hljóð í strokkinn. Nýja þéttbýlið á Mið-Héraði skapaði hættu. Í augum sumra var hann ófreskja, sem bæri að halda niðri, svona eins og Lagarfljótsorminum í gamla daga.
Meirihluti sveitarstjórnarmanna austanlands töluðu eins og að þeirra stóra verkefni væri að koma í veg fyrir að hér eystra risi öflugur þjónustukjarni, vel staðsettur gagnvart samgöngum innan fjórðungs sem út fyrir hann. Fulltrúar nýja þorpsins hlustuðu bara og brostu.
Mér hefur oft verið hugsað til þess hvernig umhorfs hefði verið ef austfirskir ráðamenn hefðu stokkið á hugmyndina og sameinast um að koma upp öflugum kjarna á Egilsstöðum, sem gæti veitt þeim sjálfum betri þjónustu en nú er völ á, en jafnframt gert Austurland sterkara gagnvart öðrum landshlutum. Óttinn var bersýnilega sá að sjávarþorpin myndu tæmast og fjöldinn flytja í þetta nýja þéttbýli. Ég er aftur á móti handviss um að þessi ótti var að stórum hluta ástæðulaus.
Ég trúi aftur á móti að ef hinn sterki þjónustukjarni hefði fengið stuðning allra Austfirðinga væru nú ekki 10 þúsund manns búsettir á Austurlandi, heldur 20 þúsund. Og það sem meira er: Í langflestum ef ekki öllum byggðakjörnum væru nú fleiri íbúar en raunin er í dag. Ekki bara á Egilsstöðum.
Það skal þó tekið fram að til þess að þessi stefna hefði lánast þurfti tvennt að gerast:
a) Þeir sem málum sveitarfélaga réðu á Austurlandi þurftu að átta sig á því að þeirra hagsmunir réðust ekki eingöngu heima fyrir, heldur einnig hvernig fjórðungurinn í heild stæði út á við.
b) Heimamenn á Egilsstöðum þurftu að gera sér grein fyrir þjónustuhlutverki sínu gagnvart öðrum Austfirðingum. Meðal annars þurftu þeir að hafa forystu að góðu samstarfi við öll önnur sveitarfélög og tryggja að enginn yrði útundan þegar sótt var á vit ríkisvalds.
Með öðrum orðum þurftu þeir að halda „upplandinu“ í góðu sambandi. Þjónustukjarni án sterkra nágrannabyggða er eins og tré án greina.
En nú er of seint um slíka hluti að tala .... og þó.
Austurbrú. Sameiningartákn, eða ofvaxin embættismannaklíka?
Fyrir réttum 10 árum naut ég þeirrar hamingju að fá að stjórna stofnfundi sjálfseignarstofnunarinnar Austurbrúar. Þar voru sameinuð verkefni sem unnin höfðu verið í mörgum stofnunum, en þjónuðu öll fjórðungnum sameiginlega. Að baki stóð ríkisvaldið og austfirsk sveitarfélög. Mikil ánægja og bjartsýni ríkti á fundinum og rekur mig ekki minni til þess að hafa heyrt þar efasemdarraddir.
Ég átti þess ekki mikinn kost að fylgjast með uppvexti Austurbrúar, en fyrstu fréttir voru ekki allar jákvæðar. Satt að segja óttaðist ég á köflum að fyrirbrigðið yrði ekki langlíft. Hingað til hefur það þó sloppið til og mikilvægur hluti stefnu Austurbrúar er að haga störfum sínum þannig að sem flestir Austfirðingar eigi um skamman veg að fara til að njóta þjónustunnar og að störfin séu þokkalega dreifð um fjórðunginn.
Eitt stendur þó eftir sem vekur ugg. Hvenær sem er geta kjörnir fulltrúar okkar í sveitarstjórnum sagt: „Þeir sem starfa hjá Austurbrú eru ekki lýðræðislega kjörnir. Bara við. Austurbrú getur ekkert skipað okkur fyrir verkum. Og ef fólk þar á bæ gerir eitthvað, sem er ekki okkur að skapi, slítum við Austurbrú í parta.“ Rétt eins og Skólaskrifstofu Austurlands. Þar með væri því ágæta fólki sem kappkostar að efla allar austfirskar byggðir og starfar hjá Austurbrú gefinn fingurinn og sagt: „Farið þið heim og snúið ykkur að öðru. Sveitarfélögin okkar eru nú orðin sterk og geta séð um þessa hluti sjálf.“
Ef slíkir hlutir gerast væri Austfirðingafjórðungur ekki lengur til. Það hefði engan sameiginlegan slagkraft. Austfirðingar hefðu ekkert til að sameinast um og enga eina rödd á landsmælikvarða.
Kveðja til fólks framtíðarinnar
Nú fara í hönd kosningar til sveitar- og bæjarstjórna.
Fyrirsjáanleg er mikil endurnýjun kjörinna fulltrúa og er það að vonum. Störf þessi hafa orðið þyngri og tímafrekari með árunum, auk þess sem þau eru oft vanþakklát. Þeir sem treysta sér til að standa í stafni sveitarfélaga í tvö kjörtímabil eða lengur eru í mínum huga miklar hetjur og ber að verðlauna sérstaklega.
Við gerum miklar kröfur, stundum ósanngjarnar, til þess að kjörnir fulltrúar okkar veiti okkar alla heimsins þjónustu, þó að við vitum líka að fjárhagur sveitarsjóða er þröngur og takmörk fyrir því hvers hægt er að krefjast.
Það skulu vera lokaorð þessa langhunds að óska þeim, sem við keflinu taka í vor, farsældar í störfum. Lengstra orða bið ég þau að gleyma ekki þessu sjálfsagða: Velgengni nágrannabyggðar er líka okkar velgengni. Gleymið ykkur ekki í sjálfstæðismálunum heima fyrir. Þau geta verið mikilvæg, en sveitarfélagið ykkar er líka hluti af stærri heild. Og ef þessi heild er ekki þokkalega sterk, er hætt við að heimabyggðin líði fyrir það, en njóti þess í engu.