Ólæsu piltarnir og kvíðnu stúlkurnar

Mikið hefur verið rætt um vandamál drengja í skólakerfinu. Drengir lesa sér ekki til gagns, þeir eru agalausir og skólakerfið hentar þeim ekki. Mikill meirihluti háskólanema eru nú stúlkur og brottfall stráka úr framhaldsskólum er mikið. Skólakerfið hefur því brugðist drengjum. En er það svo?

Bera skólastjórar og kennarar ábyrgð á þessari stöðu drengja? Nei, það væri mikil einföldun að halda því fram. Það er í raun samfélagið allt sem þarna hefur áhrif. Fyrirmyndir drengja birtast gjarnan sem kærulausir töffarar sem þurfa lítið að hafa fyrir eigin velgengni og þeir virðast frekar stóla á eigin hæfileika en dugnað og seiglu.

Á sama tíma og drengir glíma við ólæsi og agaleysi glíma stúlkur við kvíða og lélega sjálfsmynd. Er það þá líka skólakerfinu að kenna? Eða eru þar aftur fyrirmyndirnar sem senda út röng skilaboð? Fyrirmyndir stúlkna eru gjarnan duglegar, fallegar, kurteisar og blíðar. Það er ekki einfalt að standa undir slíkum kröfum.

Kynjuð vandamál sem birtast okkur í skólunum eru ekki aðeins vandamál skólakerfisins. Þau eru vandamál samfélagsins alls og við foreldrar berum þarna mikla ábyrgð. Setjum ekki ósanngjarna ábyrgð á herðar dætra okkar og munum að það er mjög mikilvægt að drengir hafi skyldur sem snúa ekki aðeins að þeim sjálfum. Ef við teljum eðlilegt að dætur okkar aðstoði t.d. við almenn heimilisstörf þá verðum við að láta það sama gilda fyrir syni okkar.

Auðvitað er hér um mikla einföldun að ræða. Það skilgreina ekki allir sig sem strák eða stelpu, það eru að sjálfsögðu til fluglæsir, skipulagðir drengir og ólæsar, ábyrgðarlausar stúlkur. Auðvitað geta verið ýmsar ástæður fyrir ólæsi, agaleysi, kvíða og brotinni sjálfsmynd. En það getur hjálpað að teikna upp einfalda (og þar með svolítið skakka) mynd til að hægt sé að takast á við stóru myndina.

Það hjálpar ekki að benda á skólakerfið og halda því fram að aðeins þar liggi vandinn.

Höfundur er framhaldsskólakennari og býður sig fram í 1. - 2. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi í rafrænu forvali sem fram fer 13. - 15. febrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.