Opið bréf til Gunnþórs Ingvasonar

Kæri Gunnþór frændi minn

Mig grunaði strax þegar þú skrifaðir hugljúfa grein fyrir nokkrum árum, um framtíð Seyðisfjarðar sem menningar, lista og ferðamannabæjar, að þú sæir nokkra leiki fram í tímann.

Nú ætti að hagræða fyrir peningaöflin, leggja af „óarðbæra“ fiskvinnslu og láta okkur um að bjarga okkur án sjávarútvegsins, sem í ómunatíð, hefur verið undirstaða lifibrauðs bæjarbúa.

Sannarlega höfum við staðið okkur þokkalega á þeirri vegferð, en það breytir ekki því að við viljum byggja bæinn okkar á fjölbreyttri aðkomu okkar að hafinu og auðlindum þess.

Það hryggir mig að þú skulir beita þér í þágu peninga aflanna, sem neita að horfa á landið og miðinn sem samfélag og sameiginlega eign, og að atvinnulíf í í litlum bæ þarf að hvíla á mörgum stoðum.

Sérðu fyrir þér að fólkið, sem hefur puðað alla sína æfi í fiskvinnslunni, verði ánægt með, að nú verði nóg að gera við að skipta á rúmum ferðamanna og bera í þá veitingar?

Eða kannski að að allir bara kaupi sér trönur og fari að mála myndir af af óbilgjörnum mekanisma kapítalismans.

Við ólumst upp í sömu götu og höfum bæði skuld að gjalda því bæjarfélagi sem gerði okkur að því sem við erum.

Ég vil ekki áfellast þig, veit fullvel að sterkari öfl en þú ráða för.

En ég skora á þig að horfa heim og líta til þess fólks sem nú situr eftir og finnst að allt sem það hefur lagt að mörkum, sé einskis metið.

Ef næsti leikur í taflinu lítur að því, að það eina sem geti bjargað samfélaginu úr kröggunum, sé að skapa örfá störf við fiskeldi, bendi ég þér á að við, vinir þínir á Seyðisfirði, viljum ekki fórna náttúrfari fjarðarins okkar, fyrir fljótfenginn gróða auðmanna. Síldarvinnslan og Samherji eru ekki á neinni vonarvöl og þarfnast ekki neinna fórna lítils samfélags.

Þín frænka
Þóra Bergný

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.