Opið bréf til þingmanna vegna skyndigjaldtöku á skemmtiferðaskip

Talsvert hefur farið fyrir umræðu um afnám tollfrelsis og áform um að setja innviðagjald á komur skemmtiferðaskipa í fjölmiðlum undanfarna mánuði. Það er skemmst frá því að segja að verði af þeim áformum þann 1. janúar 2024 mun það hafa mjög neikvæð áhrif á ört vaxandi grein ferðaþjónustu og móttöku skemmtiferðaskipa hringinn í kringum landið. Hafnir Múlaþings munu verða fyrir miklum skaða eins og kemur fram í grein minni hér í Austurfrétt frá 1. október sl. Múlaþing í stöðugum vexti vegna skemmtiferðaskipa en blikur á lofti vegna tollfrelsis.

Það er mikilvægt að vekja athygli á því að skipafélögin eru alls ekki á móti því að greiða skatta og gjöld, þar með talið innviðagjald. Gjaldið er um fimmfalt gistináttagjald eða 2500 kr. pr. farþega pr. nótt en samtök útgerða og hafna kalla eftir lengri aðlögunartíma.

Skemmtiferðaskip nýta innviði mjög takmarkað enda fjöldi farþega einungis 12 – 15% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Álag frá skemmtiferðaskipum er að mörgu leyti ofmetin þar sem þau koma þar fyrir utan í skipulögðum ferðum og notast ekki við hringveginn til að fara hringinn í kringum landið. Þau stoppa þar að auki meira á landsbygginni og minna á Gullna hringnum eins og hinn hefðbundni ferðamaður. Skemmtiferðaskipin nýta hafnarmannvirki vissulega og greiða fyrir það um 17 mismunandi gjöld.

AECO, Cruise Iceland og Hafnasamband Íslands hafa mótmælt afnámi tollfrelsis á leiðangursskipin sem stunda hringsiglingar um Ísland. Markmið tollfrelsisins var að laða skemmtiferðaskip í innanlandssiglingar í þeim tilgangi að stuðla að farþegaskiptum (flug/hótel/skip) og fjölga komum skipa á landsbyggðina. Aðgerðin reyndist mjög vel heppnuð og er dýrmæt tekjulind fyrir minni byggðalög sem annars hafa takmarkaða tekjumöguleika.

Ísland er á sama stað með tollfrelsið og Svalbarði og Grænland, áfangastaðir sem leiðangursskipin sigla líka mikið til. Nágrannalönd sem ekki bjóða tollfrelsi hafa heldur ekki fengið skip í sambærilegar innanlandssiglingar. Um landsbyggðarskatt er því í raun að ræða þar sem öll skemmtiferðaskip flytja farþega til landsbyggðarinnar erlendis frá, og í 29 af 31 tilfelli eru þessir farþegar að koma til áfangastaða sem ekkert millilandaflug er til. Allt staðir á landsbyggðinni.

Í desember 2023 mælti meirihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar fyrir um frestun ákvörðunarinnar um eitt ár á meðan lagt væri mat á efnahagslegar afleiðingar hennar og samráð haft við hagaðila. Enn hefur ekkert verið gert í því í ráðuneytinu þrátt fyrir tilmæli þess efnis frá þinginu og þess vegna nauðsynlegt að fresta afnámi tollfrelsisins um enn lengri tíma. Það er að auki alvarlegt að ráðuneytið skuli ekki fara eftir lögum sem sett eru á Alþingi þar sem heildarskoðun gjaldtöku á ferðaþjónustu átti að fara fram samkvæmt ferðamálastefnu áður en innviðagjald væri lagt á. Sú heildarskoðun hefur ekki heldur farið fram.

Fjármálaráðuneytið virðist hafa fundið ný rök fyrir afnámi tollfrelsisins í mögulegri mismunun samkvæmt EES samningi og að tollfrelsið flokkist því helst sem ríkisstyrkur. Það er merkilegt að ráðuneytið haldi þessum rökum fyrst á lofti nú því þau voru ekki á meðal raka hjá ráðuneytinu þegar tollfrelsið var afnumið með lögum í lok árs 2023. Þessi rök eru eftiráskýring.

Hagsmunaaðilar telja þau enn fremur vera hæpin og benda á að flugfélögin njóti tollfrelsis og eru þau í farþegaflutningum. EES leyfir einnig ríkisstyrki vegna byggðaverkefna, samtökin benda á í því samhengi að tollfrelsið var sett á til að laða skipin í fleiri hafnir á landsbyggðinni. Það má því færa fyrir því rök að hér sé á ferðinni mótsögn við eigin byggðastefnu ríkisins. Það er áríðandi að ræða þetta mál ofan í kjölinn svo koma megi í veg fyrir mikið tjón við einhliða afnám tollfrelsisins sem skerða mun afkomu fjölda fyrirtækja á landsbyggðinni.

Björn Ingimarsson sveitar- og hafnastjóri Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.