Opið bréf til til sveitarstjórnar Múlaþings

VÁ! - Félag um vernd fjarðar skrifar opið bréf til sveitarstjórnar Múlaþings vegna umræðu á sveitarstjórnarfundi Múlaþings 12. maí 2021 - Vegna liðar 12. 202104121 - Strandsvæðisskipulag á Austfjörðum.

Við óskum eftir því að sveitarstjórn taki málið fyrir að nýju og leggjum því til stuðnings fram lögfræðiálit sem unnið er af Friðbirni E. Garðarssyni hjá AX lögmönnum.

Samkvæmt því kemur skýrt fram að sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan og utan netalagna innan Seyðisfjarðarhafnar, sé það svo að lög nr. 88/2018 um haf- og strandsvæðaskipulag gildi ekki fyrir Fiskeldi Austfjarða. Í öllu falli er ljóst að fyrirhugað sjókvíaeldi er innan hafnarsvæðis Seyðisfjarðarhafnar, sem lýtur skipulagsvaldi sveitarfélagsins, en er ekki stjórnlausu einskis manns landi eins og ráða má af ályktunum í frummatsskýrslu. (Sjá má athugasemd VÁ! við þennan þátt í frummatsskýrslunni í heild sinni hér)

Allur málflutningur á fundinum bar þess merki að meirihluti sveitarstjórnar telur ekki að valdsvið hans nái til skipulags hafnarinnar þegar skipulagi haf- og strandsvæða sleppir.

Félagið telur mikilvægt að umræðan fari fram á réttum forsendum. Í ljósi umræðunnar er jafnframt óskað eftir því að sveitarstjórn leiðrétti eftirfarandi:

• Íbúar Seyðisfjarðar hafa mótmælt opnu sjókvíaeldi, sem áformað er í firðinum en ekki fiskeldi sem er stundað í sátt við umhverfi, náttúru og villta fiskistofna.

• Ekki er hægt að halda því fram að allir þeir sem ekki hafa skrifað undir listann gegn áformunum séu þar með fylgjandi þeim. Það verður að rökstyðja það með einhverjum hætti, til að mynda með undirskriftum þeirra sem styðja sjókvíeldi í firðinum.

• Eins viljum við hvetja alla kjörna fulltrúa sem fengu kosningu með lýðræðislegum hætti og eru þar með kjörnir til að gæta heildarhagsmuna íbúa sveitarfélagsins til að kynna sér handbók sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út um íbúasamráð og þátttöku íbúa í mikilvægum ákvarðanatökum.

• Það er ótækt að halda því fram að í kjölfar aurskriðanna í desember séu undirskriftir Seyðfirðinga gegn sjókvíaeldi úreltar þar sem aðstæður hafi breyst. Undirskriftum var safnað eftir að frummatsskýrsla var gefin út í nóvember 2020. Enginn hefur haft samband og beðið um að fjarlægja nafn sitt af undirskriftalistanum. Þvert á móti er enn að bætast við hann.

• Nýleg styrkveiting úr hvatasjóði til Seyðisfjarðar sannar að staðurinn býr yfir einstökum möguleikum þar sem 34 umsóknir sem einkenndust af fjölbreytni og metnaði voru sendar inn og aðeins hluti hlaut brautargengi að þessu sinni.

Við skorum á sveitarstjórn Múlaþings að taka mótmælum meirihluta íbúa Seyðisfjarðar alvarlega. Kynni sér og virði þá miklu vinnu sem íbúar hafa lagt á sig til að geta haft áhrif á framtíð bæjarins. Þegar hefur verið safnað miklum fjármunum til að standa straum af lögfræðikostnaði, í baráttunni við yfirgang Fiskeldi Austfjarða.

Öll umræða í meirihluta sveitarstjórnar um áformað sjókvíeldi á Seyðisfirði litast af því að firra sig ábyrgð í stað þess að taka hana. Að gera lítið úr mótmælunum, tortryggja þau og gefa sér órökstuddar forsendur. Við teljum að sjókvíaeldi fari ekki saman við þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað á staðnum og erum þess fullviss að framtíðin blasi við björt og gjöful þó að við verðum af þessum 6-8 störfum sem lofað er og að þau skapist með öðrum hætti og í sátt við náttúru, umhverfi, íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Á www.va-felag.is má skoða nánar um félagið!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.