Orð og æra

Eftir að hafa fylgst með orrahríðinni kringum uppsögn bæjarstjóra Fjarðabyggðar og þeirri ósanngjörnu umræðu sem þar hefur skapast get ég ekki lengur orða bundist.

Ég veit ekki hvaða persónulegu eða pólitísku ástæður liggja að baki þeirri aðför sem gerð hefur verið að Jóni Birni Hákonarsyni fráfarandi bæjarstjóra í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, en hitt veit ég að hann hefur sannarlega ekki til hennar unnið. Maður sem hefur unnið að sveitarstjórnarmálum af heilindum og hugsjón í áratugi á ekki að þurfa að skilja við vel unnið starf í skugga þess úlfaþyts og aðdróttana sem einkennt hafa umræðuna síðustu daga.

Vissulega er málið mér skylt sem frænku Jóns Björns en ég hef reyndar almennt virkilegar áhyggjur af áhrifum óvæginna ummæla, undirróðurs, eineltis og aðdróttana á heilsu fólks og líðan enda hef ég séð mörg dæmi um neikvæðar afleiðingar þess í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur. Á tímum þar sem umræðurnar í eldhúsinu hafa færst á alnetið er enn frekari ástæða til að gæta orða sinna og hafa í huga að þel getur snúist við atorð eitt og aðgát skal höfð í nærveru sálar. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð og vertu dyggur, trúr og tryggur, tungu geym vel þína eru dæmi um góða lífsspeki sem okkur er innrætt, við eigum ekki að særa aðra eða veitast að þeim með tungumálinu því töluð orð verða ekki aftur tekin og áhrifa þeirra getur gætt ævilangt.

Í orðskviðum Biblíunnar segir að gott mannorð sé dýrmætara en mikill auður og flestir kannast við línurnar úr Hávamálum um orðstír sem „deyr aldregi hveim er sér góðan getur.“ Mannorð og orðstír heyra þannig undir siðferðileg grunngildi bæði í kristni og heiðni og eru mjög mikilvæg í þeim hugmyndaheimi sem menning okkar er sprottin úr enda varða ærumeiðingar við lög í dag. Það er grafalvarlegt mál þegar vegið er að mannorði fólks enda viljum við flest hafa óflekkað mannorð og góðan orðstír.

Mig tekur það mjög sárt að sjá svo harkalega ráðist að Jóni Birni því heiðarleiki og trúmennska hefur einkennt störf hans og líf. Ég sé verulega eftir honum úr bæjarstjórastöðunni sem mér finnst hann hafa sinnt vel og með góð gildi að leiðarljósi sem skipta miklu máli fyrir grunnstoðirnar okkar í Fjarðabyggð og líðan íbúanna. Að launa honum það með undangengnum ávirðingum sem geta haft óafturkræf áhrif á hann og fjölskylduna alla er fyrir neðan allar hellur og þessari óvægnu umræðu verður að linna.

Persónulegar árásir vegna pólitískra og opinberra starfa eiga ekki að líðast frekar en aðrar árásir á fólk, það virðist þó oft sem allt sé leyfilegt á þeim vettvangi og málefnaleg umræða fljót að víkja fyrir skítkasti og ósannindum. Netumræður hafa sérstaklega tilhneigingu til að ganga út yfir allan þjófabálk og ótrúlegt að sjá hvað grandvarasta fólk lætur flakka þar þó engum dytti í hug að slengja orðaleppunum fram augliti til auglitis.

Verum aðeins betri við hvert annað, sýnum bæði okkur sjálfum og öðrum mildi og góðvild og ræktum samkenndina. Spyrjum áður en við skjótum, íhugum svarið, athugum hvort við erum með gilt skotvopnaskírteini, tékkum á veiðileyfinu og síðast en ekki síst, athugum hvort við erum kannski stödd í glerhúsi – það getur nefnilega verið stórvarasamt að skjóta úr þeim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.