Píratar á faraldsfæti

Undanfarna mánuði höfum við Píratar heimsótt fjölmörg sveitarfélög og þéttbýliskjarna í Norðausturkjördæmi.

Síðustu daga hef ég, ásamt Hrafnkelsdælingnum Hrafndísi Báru Einarsdóttur, sem skipar 2. sæti framboðslistans og Seyðfirðingnum Rúnari Gunnarssyni, sem skipar 3. sætið, m.a. komið á Djúpavog, Breiðdalsvík, Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Vopnafjörð, Bakkafjörð og Þórshöfn. Markmið þessara ferðalaga hefur annars vegar verið að kynna okkur sjálf og stefnumál flokksins og hins vegar að kynnast fólki og heyra hvað því býr í brjósti.

Okkur hefur alls staðar verið tekið vel og óhætt er að segja að við höfum orðið margs vísari á þessu flandri, enda hefur margt borið á góma, t.d. ýmislegt sem viðkemur fiskeldi hérlendis og erlendis, nýsköpun, menningarmál, ferðaþjónusta í þéttbýli og dreifbýli, áskoranir og tækifæri í sameinuðum sveitarfélögum, samgöngumál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, sjávarútvegur og landbúnaður og svo mætti lengi telja.

Í þessari viku höldum við áfram með heimsóknir okkar, m.a. á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Það verður áhugavert að heyra meira um þau mál sem helst brenna á íbúum þessara staða, því að þó að hjörtum manna svipi saman í Súdan og Grímsnesinu, eins og skáldið orti, eru aðstæður misjafnar og þarfir og óskir íbúanna ekki endilega þær sömu.

Við hlökkum til að heyra í kjósendum.

Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar þann 25. september nk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.