30 Pistill fluttur í Hljóðnemanum
Pistill fluttur í Hljóðnemanum júní 2002
Flytjandi Guðrún Katrín Árnad.
Ágætu Austfirðingar mig langar til að deila með ykkur draumi mínum um Austurland framtíðarinnar.
Ég sé fyrir mér ósköp venjulega fjölskyldu hjón með tvö börn búsetta á Seyðisfirði. Maðurinn vinnur í álverinu á Reyðarfirði , konan vinnur á Eskifirði, börnin eru í framhaldsskóla. Annað þeirra stundar nám á Egilsstöðum , hitt á Neskaupstað.
Á hverjum morgni fer fjölskyldan til vinnu eins og aðrar fjölskyldur. Maðurinn tekur vinnubílinn frá Álverinu, stúlkan fer með skólabílnum til Egilsstaðar,konan ekur á fjölskyldubílnum til Eskifjarðar.
Venjulega tekur sonurinn skólabílinn til Neskaupstaðar , en í dag ákvað húsmóðirin að keyra hann í skólann um leið og hún færi í vinnu.
Þau lögðu af stað frá Seyðisfirði í gegnum göng til Mjóafjarðar þaðan fóru þau í gegnum önnur göng með muna í Fannardal.Móðirin ók syni sínum að Verkmenntaskólanum í Neskaupsstað. Það var að vísu aðeins úr leið fyrir hana að fara fyrst til Neskaupsstaðar en breytti þó ekki svo miklu, því hjá þessari fjölskyldu eru ekki nema 26 km milli Seyðisfjarðar og Neskaupsstaðar.
Nú gat konan lagt af stað í sína vinnu . Hún ók til baka inn í Fannardal og fór þar í gegnum göng til Eskifjarðar. Að vinnudegi loknum ók konan af stað heim í gegnum göng frá Eskifirði upp í Fannardal og þaðan í gegnum göng til Mjóafjarðar. Í Mjóafirði var margt um manninn enda nóg þar að gera. Mikil uppbygging hafði átt sér stað í tengslum við laxeldið , og með tilkomu ganganna hafði hún margfaldast. Konan hélt ferð sinni áfram í gegnum göngin frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar. leiðin milli Eskifjarðar og Seyðisfjarðar var áður en göngin komu rúmlega 70 km. Með tilkomu ganganna var hún ekki nema 22 km. það tók konuna u.þ.b. 20 mínútur að koma sér úr og í vinnu.
Þetta er ákveðin framtíðarsýn. Göng eins og hér um ræðir myndu breyta gífurlega miklu fyrir okkur Austfirðinga. Við byggjum á einum stað og ynnum á öðrum án þess að raska um of fjölskyldumynstri okkar.Vegalengdirnar væru okkur ekki fjötur um fót.
Fyrir skemmstu þurfti að leggja mann frá Seyðisfirði inn á Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupsstað. Hann lá þar í þrjá sólarhringa. Á meðan hann dvaldi á sjúkrahúsinu fóru aðstandendur hans þrjár ferðar milli Seyðisfjarðar og Neskaupsstaðar . Vegna sjúkrahúslegu mannsins voru eknir 600 kílómetrar. Ef hægt væri að fara þess leið gegnum fyrrnefnd göng þá hefðu aðstandendur þessa manns ekki þurft að aka nema 156 km. Þeir hefðu getað sparað sér 444 km. það munar um minna.
Göng af þeirri gerð sem ég nefndi áðan myndu tengja þéttbýlisstaðina sem eru miðsvæðis á Mið- Austurlandi þ.e.a.s. Seyðisfjörð, Neskaupsstað, Eskifjörð,Reyðarfjörð og Egilsstaði saman í eitt atvinnu og kjarnasvæði.
Gangahugmynd svipuð þessari eða Seyðisfjörður – Mjóifjörður – Neskaupstaður - Hérað, er búin að vera í umræðunni í meira en 20 ár. 1993 var tillaga jarðganganefndar sú að þau göng yrðu næst inn á vegaáætlun.
Austfirðingar voru sem sé næstir í forgangsröðinni og margþráð göng voru í augsýn. 11. mars 1999 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillag um jarðgangagerð á Íslandi, Þessi tillaga olli því að umrædd jarðgöng duttu út. Þau eru sem sagt ekki lengur inni í myndinni.
Þetta finnst mér ásamt stórum hópi fólks sem lætur sér velferð og framtíð Austurlands varða mjög óréttlát. Við ætlum ekki að sætta okkur við það, að áratuga baráttumál sé að engu orðið.
29. júní n.k. verður haldinn fundur í Mjóafirði um þetta mál. Þar höfum við í hyggju að stofna félag sem hefur það að markmiði að koma þessum jarðgöngum aftur í umræðuna.
Fundurinn er opinn öllum þeim sem áhuga hafa.
Ég gæti haldið langa ræðu um þau áhrif sem svona göng hefðu á almenna þjónustu, atvinnumál, menntamál, ferðaþjónustu og menningarmál hér á Austurlandi. En því miður nægja mér ekki nokkrar mínútur í útvarpi til þess. Ég læt ykkur eftir Austfirðingar góðir að velta þeim áhrifum fyrir ykkur.
Áður en ég kveð varpa ég næsta hljóðnema til Aðalheiðar Borgþórsdóttur menningarfulltrúa á Seyðisfirði
Góðar stundir.