Ár stjörnufræðinnar - Undur alheimsins

Helgi Hallgrímsson skrifar:   Árið 2009 hefur verið útnefnt „Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar“, að frumkvæði Alþjóðasambands stjörnufræðinga (IAU) og UNESCO, undir kjörorðinu Undur alheimsins. Opnunarhátíð var haldin í París 15. og 16. janúar sl. Það fór víst framhjá fjölmiðlafólki á Íslandi, sem þó mun vera í hópi 135 ríkja sem lofaði þátttöku.

stjrnuskoun_2.jpg

 

Efnt hefur verið til margra atburða og settar upp ýmsar dagskrár í þessu sambandi, m.a. „Hundrað stjörnufræðistunda“ 2.-5. apríl síðastliðinn. Af hálfu Íslendinga hafa  Stjarnvísindafélag Íslands og Stjörnuskoðurnarfélag Seltjarnarness annast undirbúning. Einar H. Guðmundsson, formaður þess fyrrnefnda, veitir íslensku landsnefndinni forstöðu. (Nánar á vefsíðunni www.2009.is)

Tilefni stjörnufræðiársins er sá atburður, að fyrir 400 árum beindi ítalski fjölfræðingurinn, Galileo Galilei (1564-1642), fyrstur manna að talið er, linsusjónauka sínum að himinhnöttum og sá þar ýmislegt sem enginn hafði séð áður. Hann fylgdi sólmiðjukenningu Kópernikusar og hlaut bágt fyrir hjá Kirkjunni, varð að afneita þeim skoðunum sínum opinberlega í Róm 1633, til að bjarga sér frá bálinu, minnugur þess hvernig fór fyrir Giordano Bruno, sem neitaði allri málamilun um heimsmyndina og var brenndur fyrir villutrú árið 1600. Litlu munaði að eins færi fyrir þekkingarmeistara okkar á 17. öld, Jóni Guðmundssyni lærða, þó ekki væri hann orðaður við stjörnufræði. Hann var dæmdur útlægur 1631, en fékk að afplána útlegðardóminn á Austurlandi, og dvaldi m.a. í Bjarnarey. 

Nú fer að verða hver síðastur að beina augum sínum til himins á björtum kvöldum og dást að stjörnuhimninum, „festingunni víðu, hreinu og háu“, sem náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kallar svo. Það er varla nein tilviljun að Jónas varð fyrstur til að kynna Íslendingum undur alheimsins, með því að þýða og endursegja bókina „Populært Foredrag over Astronomien“ eftir danska stjörnufræðinginn Georg F.K. Ursin, sem hann nefndi Stjörnufræði Ursins og var prentuð í Viðey 1842. Þýðingin þótti meistaraverk og þar er að finna fjölmörg nýyrði á Íslensku er síðan urðu flestum töm.

Saga stjörnufræði á Íslandi er ekki fyrirferðarmikil, og framan af öldum gekk hún aðallega út á tímatal, sem þá var kallað rímfræði. Á því sviði áttum við merkan hugsuð við Breiðafjörð á Landnámsöld, Þorstein surt Hallsteinsson, sem fann upp sumarauka um 950 til að leiðrétta íslenska misseristalið, sem þá var farið að skekkjast. Að hans ráði var lögtekið að bæta viku við sumarið, sjöunda hvert ár „og freista hve þá hlýddi“ eins og segir í Íslendingabók Ara fróða. Annar merkismaður, Oddi Helgason, var á dögum á 12. öld og átti heima í Múla í Aðaldal. Hann gáði tíðum til stjarna og fékk af því viðurnefnið Stjörnu-Oddi. Honum er eignað ritið Oddatala sem fjallar um athuganir á sólhvörfum. Þar koma fram atriði sem á þeim tíma voru óþekkt annarsstaðar í Evrópu. Ritið lagði grunn að endurbættu tímatali okkar, sem var við lýði í margar aldir. Oddi var við útróðra í Flatey á Skjálfanda og halda sumir að þar megi enn sjá leifar af athuganastöð hans á Arnargerði. Athygli vekur að bæði Þorsteinn og Oddi voru draumspakir, og er Stjörnu-Odda draumur einn af þáttum Íslendingasagna. Síðan fer litlum sögum af ástundun stjörnufræði á Íslandi fyrr en seint á 18. öld, þegar Rasmus Lievog var sendur hingað 1779 af dönsku stjórninni, fyrir tilstilli hinnar svokölluðu Landsnefndar (1770-71). Hann fékk aðsetur í Lambhúsum á Álftanesi og ýmis tæki til stjörnuskoðunar og landmælinga, m.a. stjörnukíki. Þar var meira að segja reistur ‚stjörnuturn‘ úr timbri, sem til eru teikningar af, og stóðu athuganir til 1805. (Sjá Ferðabók Sv. Pálssonar).Fyrsta prentaða rímkver (almanak) á íslensku, Calendarium- Íslenskt rím, var gefið út á Hólum 1597 (Ljósprentun hjá Menningarsjóði, 1968). Fingrarím er ævagömul aðferð við tímatalsreikning sem var talsvert stunduð hérlendis. Kver með þessu nafni var fyrst prentað í Khöfn 1739, og endurprentað 1838. Stundatal eptir stjörnum og tungli eftir Jón (Einarsson) Thorlacius (1816-1872) prest í Eyjafirði kom út á Akureyri 1855. Þó að kver þetta sé fyrst og fremst hagnýtar leiðbeiningar um tímatal og tímaákvörðun er þar að finna heilmikinn fróðleik um stjörnufræði, sem byggir m.a. á Stjörnufræði Ursins. Þetta er að sjálfsögðu erlendur fróðleikur, en ljóst er að Jón hefur sett sig vel inn í hann og líklega gert eigin athuganir. (Jón var langafi Örnólfs Thorlaciusar).  

Til gamans má geta þess að um miðja 19. öld var prestur á Hallormsstað, Hjálmar Guðmundsson að nafni, sem þótti furðulegur m.a. af því að sagt var að hann legði í vana sinn að skoða stjörnur og ætti til að gleyma sér við það. Munnmæli herma, að eitt sinn hafi vinnumaður farið að leita hans að næturlagi, og fundið hann liggjandi upp í loft á hjarni. Prestur var þá að telja stjörnur, en fipaðist við talninguna og brást reiður við þessari truflun.

 

 

Björn Gunnlaugsson (1788-1876), „spekingurinn með barnshjartað“, sem lengi var kennari við Bessastaðaskóla, m.a. á námsárum Jónasar, var stærðfræðingur og kunnur landmælingamaður, en stjörnufræðin var uppáhald hans. Hann ritaði m.a. Leiðarvísi til að þekkja stjörnur (Viðey, 1845) og orti langan kvæðabálk sem kallast Njóla eða hugmynd um alheimsáformið (1. útg., Viðey, 1842) þar sem hann dásamar fegurð og reglufestu himninhnattanna og dregur ýmsa lærdóma fyrir guðstrú og mannlíf af þeim. Kver með titlinum Stjörnufræði, eftir Björn Jensson kennara, kom út í Rvík 1889. Í bókinni Himingeimurinn eftir Ágúst H. Bjarnason prófessor í heimspeki (Ak. 1926) er rakin saga stjörnufræðinnar.Frá örófi alda hafa norðurljósin heillað menn og valdið heilabrotum. Jónas ritaði m.a. skáldlega lýsingu á norðurljósakórónu.

Um aldamótin 1900 kepptust vísindamenn í NV-Evrópu við að setja fram tilgátur um orsakir þeirra og hver reyndi að sanna sína kenningu. Í því skyni sendu Danir og Norðmenn hingað leiðangra, sem dvöldu vetrarlangt á Akureyri og í Dýrafirði og gerðu mælingar á norðurljósum, lögðu meira að segja á sig að liggja um nætur í tjaldi og helkulda uppi á fjallinu Súlum til að mæla hæð þeirra. Árið 1965 kom Eðlisfræðistofnun H.Í. upp sérstakri myndavél fyrir norðurljós á Eyvindará, Egilsstöðum, sem rekin var um fimm ára skeið. Sigurður Ægisson, prestur á Siglufirði, ritaði greinargott yfirlit um sögu norðurljósarannsókna í Mbl. 7. jan. 2001, og til mun vera bók með ljósmyndum af norðurljósum á Íslandi.Nokkrir Íslendingar lærðu eðlisfræði og stjörnufræði í háskólum erlendis á fyrri hluta 20. aldar, en sinntu stjörnufræðinni lítið, því að þeim buðust ærin verkefni á sviði jarðfræði og jarðeðlisfræði, en sumir urðu að framfleyta sér með kennslu. Sá fyrsti sem hafði stjörnufræði að aðalstarfi var Þorsteinn Sæmundsson, sem annast hefur útreikninga á Almanaki Þjóðvinafélagsins í marga áratugi og gerir enn. Á síðustu áratugum hafa komið út nokkrar bækur á íslensku um stjörnufræði. Orðabókin Stjörnufræði-Rímfræði eftir Þorstein, kom út í bókaflokknum Alfræði Menningarsjóðs 1972, og í Skátabókinni (1974) er ágætur leiðarvísir um stjörnuskoðun eftir hann. Ágúst Guðmundsson jarðfræðingur ritaði fyrstu og líklega einu kennslubók í stjörnufræði sem til er á íslensku, Stjörnufræði I-II, miðuð við kennslu í menntaskóla, fjölrituð 1981-82, en hefur líklega ekki verið endurprentuð.Bókin Leiðsögn til stjarnanna eftir Ingvar Agnarsson, áhugamann um stjörnuskoðun, kom út 1989, með fjölda mynda. Þar er fjallað um stjörnur og stjörnumerki á einfaldan og aðgengilegan hátt. Bókin Ferð á enda - Ágrip af stjörnufræði, eftir Ara Trausta Guðmundsson (1992) er talsvert fræðilegri en skemmtileg og aðgengileg án sérstakrar menntunar, „samin eins og leiðsögn um sólkerfi okkar og þaðan út í buskann.“ Loks er svo bókin Íslenskur stjörnuatlas eftir Snævar Guðmundsson, Hafnarfirði, kom út hjá Máli og menningu 2004 og 2005. Í henni eru ágætar leiðbeiningar um stjörnuskoðun almennings og nákvæm stjörnukort. Henni fylgir stjörnuskífa, löguð að breiddargráðum Íslands, og sýnir hvaða fastastjörnur (stjörnumerki) eru á lofti í hverjum mánuði ársins, og hægt er að taka með sér á gönguferð á stjörnubjörtum kvöldum.

Af þessu sést að útgáfa rita um stjörnufræði hefur verið furðu mikil hérlendis, sem ætti að endurspegla áhuga á þessari fræðigrein, sem þó má að efast um að sé mikill eða almennur. Eina áhugamannafélag um stjörnuskoðun hér á landi er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness sem stofnað var 1976 af Sigurði Árnasyni og Þorsteini Sæmundssyni. Það kom sér fljótt upp stjörnukíki og aðstöðu á þaki Valhúsaskóla. Skv. nýlegri frétt í Mbl. stefnir félagið að byggingu stjörnuathugunarstöðvar í Hafnarfriði. Stjarnvísindafélag Íslands er nýlega til komið, og stendur nú að mánaðarlegum fyrirlestrum um þessi fræði í Öskju - náttúrufræðihúsi H.Í. Höfundi er ekki kunnugt um slíka starfsemi annarsstaðar á Íslandi. Litlir stjörnukíkjar munu þó vera til í flestum framhaldsskólum landsins og eru einstaka sinnum dregnir fram, enda hefur ágrip af stjörnufræði lengi verið kennt í sumum þeirra.

Sem vísindagrein byggist stjörnufræðin á tveimur undirstöðum: stærðfræði og eðlisfræði. Það er því ekkert áhlaupaverk að tileinka sér hana, svo ekki sé minnst á rannsónir á því sviði. Þó hafa nokkrir landar okkar náð árangri í stjörnufræðirannsóknum erlendis síðustu árin. Hins vegar er stjörnufræðin svo víðfeðm, að allir geta sett sig inn í vissa hluta hennar, svo sem plánetufræði. Einnig jaðrar hún við það sem kallað er heimsfræði (cosmology), sem byggist að nokkru leyti á íhugun og rökrænni hugsun, með hliðsjón af þekkingu hvers tíma, og síðast en ekki síst veitir það flestum ómælda unun að skoða stjörnur og kynnast þeim.Undir heimsfræði má flokka tilgátur sem Helgi Péturss jarðfræðingur kynnti í bókinni Nýall 1919-22 og nokkrum síðari bókum og ritgerðum, um „hið mikla samband“ alls lífs í alheimi. Hann sló því föstu að til væru óteljandi hnettir byggðir vitsmunaverum, og þrátt fyrir órafjarlægðir milli þeirra væri mögulegt að ná sambandi við þær á engum tíma, m.a. í draumi eða miðilsástandi, og eftir dauðann endurfæddist mannfólk og dýr á öðrum jörðum. Í þeim anda ritaði Guðmundur Davíðsson bóndi á Hraunum í Fljótum, ósjálfrátt, bókina Íslendingabyggð á öðrum hnetti (Ak. 1929). Þetta hlaut þá engar undirtektir stjarnfræðinga, en nú eru sumir þeirra farnir að hyggja að lífi á öðrum hnöttum og stjörnulíffræði er orðin til. Hliðargrein stjörnufræðinnar er svo stjörnuspekin (astrología), líklega elsta fræðigrein mannkynsins, og er enn í fullum blóma, en er ekki viðurkennd vísindi.Höfundur þessa pistils komst fyrst í kynni við stjörnufræði í Eiðaskóla 1951, þegar hann fann gamla danska kennslubók, sem Þórarinn skólastjóri hafði notað, og tók sér fyrir hendur að skrifa upp efni hennar á íslensku. Vegna lítillar undirstöðu reynist það hið mesta torf. Síðar lærði ég svipaða danska bók í Menntaskólanum á Akureyri, en ekki varð það til að auka áhugann, því að þessar dönsku kennslubækur voru frámunalega þurrar og leiðinlegar. Til að bæta það upp klambraði ég saman einföldum stjörnukíki í páskafríinu 1953, en efni í hann fékk ég hjá Sveini Þórðarsyni kennara, síðar skólameistara á Laugarvatni. Þar með var ég kominn í spor Galileis og fór að kíkja á stjörnur, þó fjarri sér mér að jafna mér við hann. Kíkirinn reyndist lítið nothæfur, því að aðstöðu vantaði til að festa hann niður. Síðan lenti stjörnufræðin í útideyfu og ný áhugamál tóku við.Stjörnuglópur og skýjaglópur eru alþekkt orð í íslenskri tungu, gjarnan viðhöfð um þá sem eru utangátta, draumóramenn og loftkastalasmiði, og í neikvæðri merkingu um heimskingja eða fífl, og segja væntanlega sína sögu um það álit sem almenningur hefur á stjörnuskoðurum og þá líka á þeim sem þetta ritar.

H.Hall., 2009.

 

 

stjrnuskoun3.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.