Reiðir sjálfstæðismenn

Björn Valur Gíslason skrifar:    Sjálfstæðismenn standa nánast á öndinni af vanþóknun yfir því að tilraun sé gerð til að bjarga tveim fjárfestingabönkum frá hruni. Bankarnir sem hér um ræðir eru VBS fjárfestingabanki og Saga Capital. Því er haldið fram að bankarnir tveir hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu af hálfu fjármálaráðuneytisins, lán á vildarkjörum sem öðrum bjóðast ekki. Gagnrýni sjálfstæðismanna hefur fyrst og fremst beinst að samningi ráðuneytisins við Saga Capital en það jafnvel gefið í skyn að fjármálaráðherra sé að hygla þar vinum sínum eða flokksmönnum. Fátt er jafn fjarri sanni.

bjrn_valur_gslason.jpg

 

 

 

Um hvað snýst málið?

 VBS og Saga Capital tóku á sínum tíma lán hjá Seðlabankanum til að lána gömlu bönkunum. Þetta var gert til að reyna að styrkja gömlu bankana eins og Seðlabankinn í raun hvatti aðila á fjármálamarkaði til að gera. Þegar bankarnir hrundu töpuðu VBS og Saga Capital kröfum sínum en sátu þess í stað eftir með skuld upp á 40 milljarða við Seðlabankann. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde keypti síðan skuldir Saga Capital og VBS af Seðlabankanum í viðleitni sinni til að forða þeim síðastnefnda frá gjaldþroti og þannig var staðan þegar sú ríkistjórn gafst upp. VBS og Saga Capital skulduðu því ríkissjóði orðið þá peninga sem þau höfðu tekið að láni hjá Seðlabankanum í viðleitni sinni við að halda lífi í gömlu bönkunum. Ríkið átti því kröfu á hendur þessum fjárfestingarbönkum og um þá kröfu hefur nú verið samið á milli ríkisins og fyrirtækjanna tveggja. Það er því ekki um neitt lán að ræða heldur skilmálabreytingu á útistandandi kröfum ríkissjóðs. Þessum samningu fylgja svo ströng skilyrði sem fjármálafyrirtækjunum er gert að gangast undir, til dæmis hvað varðar arð- og kaupaaukagreiðslur.  

Málsvari sjálfstæðismanna

 Dögg Pálsdóttir varaþingmaður sjálfstæðisflokksins hefur verið í forsvari þeirra sem gagnrýnt hafa þessa samninga. Áköfust er hún í gagnrýni sinni á samning ráðuneytisins við Saga Capital og gefur það í skyn að þar sé um að ræða einhverskonar vildarvinasamning á milli ráðherra og eigenda fyrirtækisins. Sjálf á Dögg og fyrirtæki hennar í málaferlum við Saga Capital og var reyndar nýlega dæmd í héraðsdómi til að greiða Saga Capital 300 milljónir vegna vanefnda í viðskiptum. Það er ekki ólíklegt að afstaða Daggar til málsins sé lituð af þeim viðskiptum.  

Aðalatriðin

 Það skiptir auðvitað engu í þessu sambandi hvar umrædd fyrirtæki eru með starfsstöðvar sínar. Aðalmálið er að gerður hefur verið samningur á milli þeirra og fjármálaráðuneytisins sem eykur líkurnar á því að þau munu standa efnahagshrunið af sér. Það skiptir hinsvegar máli fyrir Akureyringa ef hægt er að koma fyrirtækjum frá gjaldþroti, að ekki sé talað um að það sé gert með þeim hætti að þeim sé gert kleift að greiða skuldir sínar. Það sama á við um öll önnur fyrirtæki og byggðarlög á landinu og það sama gildir ekki síst við um heimilin í landinu. Að þeim málum er unnið hörðum höndum á vegum ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar. Við skulum ekki láta sjálfstæðismenn trufla okkur við þá vinnu. 

                                                                                                          Björn Valur Gíslason

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.