Reikningurinn í Gleðibankanum

Einn af fremstu sérfræðingum heims um parasambönd, Dr. John Gottman, notar gjarnan hugtakið „tilfinningabankareikningur“ (the emotional bank account) til að lýsa mikilvægu grundvallarlögmáli í samböndum fólks. Lögmálið er einfalt: Ef þú vilt byggja upp gott samband við aðra manneskju og viðhalda því, þá verður þú að „leggja inn á reikninginn“ hennar.

Þú leggur inn með því að mæta tilfinningalegum þörfum hennar. Þegar þú bregst henni með einhverjum hætti tekur þú út af reikningnum. Ef þú leggur lítið inn og tekur mikið út mun viðkomandi líklegast að lokum gefast upp á þér og loka reikningnum.

Þú þarft því stöðugt að leggja inn og forðast úttektir ef þú vilt halda tilfinningareikningnum réttu megin við núllið og forðast yfirdrátt og gjaldþrot og rétt er að hafa í huga að raunvextir á reikningnum eru 0%! (og því ekki nóg að hafa einhvern tíman í fyrndinni verið duglegur að leggja inn). Þetta kann að virðast kuldaleg leið til að lýsa grundvelli sambanda, en við smá umhugsun er ljóst að þetta rímar við reynslu okkar og flestir kannast við að hafa gefist upp á samskiptum við einhvern af því að sambandið var einfaldlega ekki nógu gefandi eða uppbyggilegt. En hvernig leggjum við inn á reikninginn í Gleðibankanum?

Við leggjum fyrst og fremst inn á reikninginn með því að mæta tilfinningalegum þörfum. Í parsambandi snúast þessar þarfir oftast um ást, umhyggju, viðurkenningu, athygli og hlýju. Það stóreykur líkurnar á því að samband sé gott ef þú þekkir maka þinn vel, hlustar í alvörunni og reynir að skynja hvenær hann er að falast eftir því að þú leggir inn á reikninginn og skilur hvernig honum finnst best að fá þessar þarfir uppfylltar.

Það er algeng uppspretta vandamála í samböndum þegar fólki gengur ekki vel að lesa í þessar tilfinningalegu þarfir og leggur ekki nógu mikið á sig til að mæta þeim. Það margborgar sig því að hafa sem mest á hreinu hvenær er best að leggja inn og hvernig. Því meira sem þér tekst að veita makanum athygli, umhyggju, viðurkenningu, athygli og hlýju, því líklegra er að þú sért að leggja inn. Og það skiptir máli þegar þér verður það (óhjákvæmilega!) á að taka út af reikningnum. En hvað er líklegast til að lækka innistæðuna og hvernig getum við reynt að forðast að það gerist?

Við erum öll gallagripir og við hefjum sambönd við annað fólk með ýmislegt úr uppvextinum í bakpokanum. Það þýðir að við munum flest gera mistök í samskiptum við annað fólk og þá er eins gott að eiga eitthvað inni hjá því. Það getur því verið gott að vita hvað er líklegast til að valda því að innistæðan klárist hratt og örugglega. Samkvæmt áðurnefndum Dr. Gottman er það sem spáir best fyrir um sambandsslit eftirfarandi hegðun:

● Persónulegar árásir (Af hverju getur þú aldrei gert þetta rétt?! Hvað er að þér?!)
● Að geta ekki tekið gagnrýni og pakka í vörn (Já, en hvað með xxxxx! Þú ert ekkert skárri!)
● Fyrirlitning (T.d. að ranghvolfa augunum, herma eftir, gera lítið úr)
● Hunsun (draga sig inn í skel, sýna engin viðbrögð, loka á samskipti)

Þegar við gerum eitthvað af ofangreindu er nánast öruggt að við erum að taka út af reikningnum. Það er því mikilvægt að leggja sig fram um að sýna makanum virðingu, stíga varlega til jarðar, hlusta vel og tjá sig yfirvegað, sérstaklega þegar kemur að því að ræða mál sem líklegt er að makinn taki persónulega eða þegar streitustigið í samskiptunum hækkar skyndilega.

Því betur sem við þekkjum reglur Gleðibankans, vitum hvernig og hvenær á að leggja inn og hvernig við getum forðast að taka út, því líklegra er að inneignin vaxi og sambandið verði farsælt. Reglurnar eru einfaldar og auðskiljanlegar, en það er hægara sagt en gert að fylgja þeim. Flestir eru alla ævina að brasa við að ná tökum á því, en það eru fáar fjárfestingar sem skila meiri ávöxtun!

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.