Ríkisendurskoðun segir heilbrigðisþjónustu á Austurlandi hafa eflst undanfarin ár

Miklar breytingar voru kynntar á heilbrigðiskerfi landsmanna í dag. Þær hafa einkum þau áhrif á Austurlandi að til enn frekara samstarfs kemur á milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, en það hefur verið töluvert síðustu árin. Skipulagsbreytingar hafa verið í gangi hjá HSA allan síðasta áratug og falla þær að kynntum breytingum. Ásta Möller, alþingismaður (D) og formaður heilbrigðisnefndar Alþingis sagði á fundi á Egilsstöðum í dag að heilbrigðisþjónusta á Austurlandi hefði batnað á síðustu árum, samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar.

sta_mller_vefur.jpg

,,Við höfum fylgst með fréttum af erfiðri stöðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands á undanförnum árum og hefur verið tekið á þeim vanda bæði af hálfu fjárlaganefndar og fjárveitingavaldsins með því að á fjáraukalögum í fyrra var veitt 125 milljónum króna til stofnunarinnar og fyrir jólin lagðar til 300 milljónir króna upp í 350 milljóna króna halla HSA sem stefndi í á þessu ári,“ sagði Ásta á fundinum.  

 

Hún vitnaði í nýja, óbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um HSA, sem út kemur á næstunni og sagði niðurstöðu hennar þá að þær breytingar sem orðið hefðu í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi væru til góðs fyrir samfélagið. ,,Þjónustan er fjölbreyttari, aðgengilegri, er orðin samhæfðari og sameining heilbrigðisstofnana á Austurlandi í HSA hefur komið samfélaginu til góða.“

Ásta segir heilbrigðisþjónustuna hafa staðið frammi fyrir gríðarmiklu verkefni þegar stórframkvæmdir hófust á Austurlandi. Þurft hafi að þjóna nýjum hópi fólks og þá ekki síst hópi erlendra verkamanna. Þetta hafi þýtt aukið fjármagn og aukna mönnun. ,,Nú hefur aftur dregið úr fólksfjölda og fækkað um 1500 manns. Í raun og veru má segja að á sama tíma og fækkað hefur á svæðinu hefur umfang þjónustunnar ekki minnkað. Gengið hefur erfiðlega að draga saman þjónustuna aftur í samræmi við minnkandi þörf. Þess vegna var þessi gríðarmikli halli í ár, 350 milljónir á þessu ári, sem er mjög mikið. Það verður þó að segjast eins og er að fjárveitingin 2008 var (uppreiknað m.v. gengi) minni en 2007, en þá var líka gert ráð fyrir ákveðnum samdrætti í þjónustunni sem ekki gekk eftir.“

 

Austurglugginn innti Ástu eftir því hvort sérfræðiþjónusta myndi eflast á Austurlandi í kjölfar breytinga innan heilbrigðiskerfisins. Ekki síst í ljósi þess að eini barna- og unglingageðlæknir FSA, sem sinnt hefur Austurlandi, var lagður niður. Sagðist Ásta telja að sérfræðiþjónusta myndi eflast í fjórðungnum. ,,Við höfum séð mikla breytingu í þessa veru á síðustu árum hér fyrir austan og munum sjá enn meiri breytingar vegna þess að nú er horft í miklu meira mæli en áður á þörf svæðanna og jafnframt að standi svæði ekki undir sérfræðingi á tilteknu sviði er það hlutverk stóru stofnananna; Landspítalans og FSA, að færa þá þjónustu austur í samráði við HSA.

 

Ásta segir framboð öldrunarrýma á Austurlandi, skv. stöðlum yfir allt landið, í jafnvægi. Þörf og framboð haldist í hendur. Hins vegar sé ákveðin misskipting. Sé horft til Fljótsdalshéraðs vanti tíu slík rými miðað við staðla, en á hinn bóginn séu umframrými, t.d. á Vopnafirði og víðar. ,,Það breytir því þó ekki að taka þarf á aðstöðu öldrunarþjónustu, ekki síst á Héraði, þar sem hún er ekki til fyrirmyndar. Það hlýtur að vera næsta verkefni hér fyrir austan að taka á því.“

Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, sem verður svokallað umdæmissjúkrahús Austurlands, mun skv. breytingum í heilbrigðiskerfinu í ríkara mæli en áður taka inn sérhæft hlutverk endurhæfingar, auk almennrar grunnþjónustu.

healthcare.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.