Roðagyllum heiminn!

Við erum hér saman komin til að vekja athygli á hvers konar ofbeldi gegn konum og stúlkum, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum.

Það er Soroptimistaklúbbur Austurlands sem stendur fyrir þessum viðburði hér, en starfssvæði hans er Seyðisfjörður, Borgarfjörður eystri og Fljótsdalshérað. Þetta er í fimmta sinn sem klúbburinn tekur þátt í 16 daga átakinu, „roðagyllum heiminn“.

Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlega vináttu og skilning að leiðarljósi.

Eins og mörg undanfarin ár, munu Soroptimistar slást í för með um 6000 samtökum í 187 löndum sem leidd eru af Sameinuðu þjóðunum til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn stúlkum og konum með þátttöku í 16 daga átakinu #roðagyllumheiminn, #orangetheworld. Roðagyllti liturinn sem er litur átaksins táknar bjartari framtíð án ofbeldis gegn konum og stúlkum.

Átakið sem nú fer fram í þrítugasta sinn hefst 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og því lýkur þann 10. desember á hinum alþjóðlega mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, sem jafnframt er dagur Soroptimista.
Markmið 16 daga átaksins er að beina athyglinni að alvarleika kynbundins ofbeldis, fræða almenning og hvetja til að ofbeldið verði stöðvað.

Ofbeldi gegn konum og stúlkum er ein útbreiddasta, þrálátasta og mest tortímandi ógnun við mannréttindi í heiminum í dag. Hvert einasta samfélag í heiminum er þjakað af kynbundnu ofbeldi og á meðan það viðgengst og refsingar eru vægar munu framfarir í jafnréttisbaráttunni vera allt of hægar. Kynbundið ofbeldi hefur víðtæk áhrif á samfélög í heilsufarslegu-, efnahagslegu- og félagslegu tilliti.

Ein af hverjum þremur konum hafa verið beittar ofbeldi á lífsleiðinni. Nærri 140 konur eru myrtar á hverjum degi af nánum fjölskyldumeðlimi. Um 15 milljónir núlifandi unglingsstúlkna, 15-19 ára, hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Konur eru 72% allra þeirra í heiminum sem hneppt eru í mansal og kynlífsþrælkun. 200 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna hafa verið limlestar á kynfærum. Á hverri mínútu eru 23 barnungar stúlkur þvingaðar í hjónaband. Á íslenskum vinnumarkaði telja 45% kvenna sig hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi og því miður er enn þörf fyrir Kvennaathvarfið.

Sú hefð hefur skapast varðandi 16 daga átakið að ákveðið málefni er í brennidepli ár hvert. Áhersla íslenskra Soroptimista mun að þessu sinni beinast að stafrænu ofbeldi. Ýmislegt verður gert þessa 16 daga til að beina athygli að stafrænu ofbeldi. Íslenskir Soroptimistar, sem nú eru um 600 talsins í 19 klúbbum um allt land, munu vera sýnilegir meðal annars með því að klæðast roðagylltum lit, efna til ljósagöngu, skrifa greinar í blöð og hvetja til að byggingar séu lýstar upp í roðagylltum lit sem og sendiráð Íslands víða um heim.

Stafrænt ofbeldi fer fram gegnum tæki og tækni, svo sem síma, tölvu og samfélagsmiðla. Notkun á samfélagsmiðlum hefur aukist mikið undanfarin ár og sífellt fleiri konur og stúlkur eru áreittar, beittar ofbeldi, ofsóttar, niðurlægðar eða þeim ógnað gegnum þá.

Við viljum sjá breytingar. Það þarf að leggja meiri áherslu á forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi. Við þurfum að vanda okkur við uppeldi barna okkar, ekki síst drengjanna okkar. Það þarf að berjast við rótgróið kynjamisrétti sem oft orsakast af gamaldags viðhorfi og tengdum félagslegum normum. Við viljum ekki menningu þar sem valdi er misbeitt í þeim tilgangi að niðurlægja konur og brjóta niður sjálfstraust þeirra. Við stöndum með konum, segjum hingað og ekki lengra, stöðvum kynbundið ofbeldi og bætum þannig samfélagið fyrir okkur öll.

Takk fyrir

Höfundur er aðstoðarverkefnisstjóri Soroptimistaklúbbs Austurlands. Ávarpið var flutt við upphaf ljósagöngu á Seyðisfirði þann 25. nóvember, en sá dagur marker upphaf að 16 daga átaki Soroptimista gegn kynbundnu ofbeldi á heimsvísu.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.