Sameiginleg, sterk rödd er árangursríkust fyrir allt Austurland

Mikið hefur verið skrifað um áherslur í heilbrigðismálum. Eðlilegar kröfur eru að fólk búi við heilsufarslegt öryggi hvar sem það býr á landinu, eins og lög kveða á um.

Áherslum sveitarfélaga er oft snúið upp í hrepparíg og þannig komumst við lítið áleiðis með áherslumál okkar. Sameiginleg rödd er alltaf háværust og árangursríkust og það er ástæða þess að sveitarfélög kjósa að sameinast, til þess að standa sterkari, eins og nýtt sameiginlegt sveitarfélag Múlaþing sýnir vel.

Sameiginleg rödd alls Austurlands er SSA, Samband sveitarfélaga á Austurlandi og verður að vitna í þá rödd þegar rætt er um áherslur alls Austurlands. Þær byggjast á árlegum samþykktum og langar mig að benda á nokkrar þeirra, meginmarkmið SSA og einnig núgildandi samþykktir í heilbrigðismálum á Austurlandi:

Samþykktir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi
1. gr.
Meginmarkmið SSA eru að;
b) berjast fyrir auknum jöfnuði til búsetu milli landshluta svo sem hvað varðar orkuverð, vöruverð, aðstöðu til náms, aðgang að heilbrigðisþjónustu og menningarstarfsemi.

Vegna nýlegra skrifa í Austurgluggann um að meirihluti nýs sameinaðs sveitarfélags Múlaþings, sé í því að ýfa upp tilfinningar og trufla samvinnu milli stóru sveitarfélaga og einnig að verið sé að byggja annað Fjórðungssjúkrahús á Austurlandi þá hafna ég því alfarið og bendi á ályktanir SSA um áherslur í heilbrigðismálum landshlutans:

Efling heilbrigðisþjónustu
Haustþing SSA, haldið á Borgarfirði eystri 11. og 12. október 2019, skorar á yfirvöld velferðar- og fjármála, Alþingi og ríkisstjórn Íslands að efla þá heilbrigðisþjónustu sem nú er veitt í landshlutanum og að bætt verði úr þar sem þjónusta er ekki viðunandi. Í því samhengi er einkar mikilvægt að leggja áherslu á eftirfarandi þætti:
a) Umdæmissjúkrahús Austurlands verði eflt og geti sinnt bráða-, sérfræði- og fæðingarþjónustu allan ársins hring.
c) Lögð verði sérstök áhersla á eflingu frumgreininga í bráðatilvikum með kaupum á nauðsynlegum greiningartækjum á heilsugæslum staðsettum í nánd við sjúkraflugvelli.

SSA er rödd allra sveitarstjórnarfulltrúa á Austurlandi. Hér sést augljóslega að áherslur SSA eru að standa vörð um umdæmissjúkrahús Austurlands svo það geti sinnt bráða-, séfræði- og fæðingarþjónustu allan árssins hring og einnig er sérstök áhersla á eflingu frumgreininga í bráðatilvikum með kaupum á nauðsynlegum greiningartækjum á heilsugæslum sem staðsettar eru við sjúkraflugvelli.

Við viljum öll standa vörð um Fjórðungssjúkrahúsið og um leið leggja áherslu á kaup á nauðsynlegum greiningartækjum á heilsugæslum staðsettum við sjúkraflugvelli eins og bókanir SSA kveða á um. Þá verður hægt að greina bráðatilvik að fullu við sjúkraflugvellina tvo sem er nauðsynlegt vegna landfræðilegrar stærðar og dreifðrar byggðar. Óforsvaranlegt sé að beina greiningu á bráðatilvikum einungis á einn stað því í bráðaerindum verður að bregðast hratt við og fullgreina hvort FSN geti sinnt bráðaástandinu eða hvort niðurstaðan leiði í ljós að flytja verði einstaklinginn strax suður í sérhæfða bráðaþjónustu til að bjarga lífi hans og heilsu.

Það liggur ljóst fyrir að það sárvantar greiningartæki á heilsugæsluna á Egilsstöðum til að hægt sé að greina að fullu bráðatilvik við þann sjúkraflugvöll eins og SSA leggur áherslu á. Ef við leggjumst á eitt og styðjum bókanir SSA um mikilvægi þess að efla og standa vörð um heilbrigðisþjónustu á Austurlandi verður rödd okkar hávær og sterk í stað þess að verða ósamstillt suð sem nær ekki eyrum ríkisvaldsins.

Stöndum saman og látum í okkur heyra.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.