Samfélag þjóða á Austurlandi

Helga Steinsson skrifar samfélagsspegil Austurgluggans:

Samfélag þjóða á Austurlandi

Á Austurlandi búa margar þjóðir. Í gegnum tíðina hefur fólk frá öðrum löndum Evrópu og jafnvel frá enn fjarlægari löndum sest að á Íslandi. Það hefur tengst íslenskum fjölskyldum og orðið hluti af íslensku samfélagi. Samsetning fólks af erlendum uppruna breyttist á tíunda áratugnum þegar fólki frá Austur-Evrópu tók að fjölga á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Seinna fjölgaði fólki af  erlendum uppruna einnig á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og byggingu álversins í Reyðarfirði. Austfirðingar hafa langa reynslu af samstarfi við erlent tónlistarfólk og íþróttafólk, sem hefur lagt okkur til þekkingu sína og reynslu undanfarin ár. Ekki má heldur gleyma þeim fjölmörgu sem vinna við fiskvinnslu, umönnunarstörf og ræstingar svo eitthvað sé nefnt.

 Fordómar meðal unglinga 

Hvernig hafa samskiptin við innflytjendur endurspeglað margbreytileikann? Byggja samskiptin á gagnkvæmu trausti og skilningi eða einkennast þau af fordómum i garð annarra? Sjálfsagt er hvoru tveggja til staðar, en fordómar fyrirfinnast meðal allra manna, bara mismunandi mikið. Kynþáttafordómar koma hins vegar í veg fyrir að fólk af ólíku þjóðerni geti átt eðlileg samskipti sín á milli og sýni hvort öðru gagnkvæma virðingu. 

Niðurstöður rannsókna sýna að fordómar fyrirfinnast mest meðal ungs fólks á aldrinum 12 til 16 ára. Þess vegna skiptir máli að fræðsla um fordóma og fjölmenningarlegt samfélag eigi sér stað meðal annars innan skólakerfisins. Fordómur er dómur án ígrundunar. Upplýsingamiðlun, jákvæð gagnrýni og rökleiðsla kennir okkur að vega, meta og virða. Getur verið að efnahagsástandið í landinu í dag auki hættuna á fordómum í garð innflytjenda? Til eru þeir sem gleðjast yfir því að nú skuli fólk af erlendum uppruna flytja af landi brott og jafnvel trúa því að allir innflytjendur fari af landi brott fyrr eða síðar. Vissulega eru margir innflytjendur að undirbúa brottför sína frá Íslandi vegna efnahagsástandsins. Hins vegar eru þeir fjölmargir, meðal annars á Austurlandi, sem ekki eru á förum en horfast í augu við þrengingar í efnahagslífi þjóðarinnar líkt og aðrir landsmenn.

Þarf alla sína íbúa

Austurland er fjölmenningarlegt samfélag sem þarf á öllum sínum íbúum að halda. Það skiptir máli að móttaka og aðlögun nýrra íbúa sé markviss og meðvituð og víða er verið að vinna að stefnumótun í þessum málaflokki. Um síðustu helgi voru haldnir pólskir dagar á Reyðarfirði. Fagna ber slíku frumkvæði um leið og bæði stofnanir og fyrirtæki eru hvött til að vekja athygli á þeirri menningarfjölbreytni sem einkennir vinnustaðina í dag. Einmitt með því að vekja athygli á mismunandi menningu og fjölbreytni, eru meiri líkur á að koma megi í veg fyrir fordóma. Byggjum upp samfélag sem einkennist af umburðarlyndi, náungakærleik og hjálpsemi. Höfum það í huga nú þegar aðventan gengur í garð!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.