Samvinna eftir skilnað – fyrir börnin

Samvinna eftir skilnað (SES) er gagnreynt safn þekkingar, verkfæra og námsefnis. Gagnreynt þýðir að notkun á aðferðinni hefur verið rannsökuð og niðurstöður rannsóknanna hafa sýnt fram á gagnsemi og árangur fyrir foreldra, börn og samfélagið í heild þegar foreldrar slíta samvistum.

Markmiðið með SES er að hjálpa fráskildum foreldrum eða foreldrum sem hugleiða að slíta sambúð að takast á við áskoranir sem fylgja skilnaði, skilja börn sín betur og vera betur í stakk búin til að veita börnunum viðeigandi stuðning, ásamt því að forðast dæmigerðar gryfjur í samvinnu foreldranna. SES beinist bæði að þeim sem eiga í vandamálum í tengslum við skilnað sinn og þeim sem allt gengur vel hjá. Alltaf má gott bæta. Það skiptir ekki máli hvort foreldrar hafi verið giftir eða í sambúð heldur það að foreldrar hafi slitið parsambandi og vilji hafa gott samstarf um uppeldi barnsins og velferð.

Aðferðir SES geta falið í sér eitt eða fleira af eftirtöldu:
• Einstaklingsbundið rafrænt námskeið sem foreldri getur nýtt sér þegar það hentar
• Hópnámskeið með leiðbeinanda
• Persónubundin samtöl hjá leiðbeinanda

Sveitarfélögin Múlaþing, Fjarðabyggð og Hornafjörður bjóða nú öll upp á SES. Fljótsdalshérað var í hópi fyrstu sveitarfélaganna til að taka upp SES en nú hafa Fjarðabyggð og Hornafjörður einnig gert samning um innleiðingu SES og í kjölfarið sóttu starfsmenn námskeið með fræðslu og þjálfun sem gefur þeim réttindi til að halda námskeið og veita persónubundin samtöl til foreldra. Sveitarfélögin munu vinna saman í þeim tilvikum þar sem foreldrar búa í sitthvoru sveitarfélaginu á Austurlandi.

Reynslan hefur sýnt að það er ekki skilnaðurinn sjálfur sem hefur mest áhrif á líðan barna heldur fremur samstarf foreldra og upplifun barna af samskiptum þeirra. Því hvetjum við fráskilda foreldra og foreldra sem hugleiða skilnað á austurlandi til að hafa samband við tengilið SES hjá sínu sveitarfélagi í gegnum vefsíðuna samvinnaeftirskilnad.is.

Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, stjórnandi forvarna- og stuðningsmála í Fjarðabyggð
Erla Björg Sigurðardóttir, félagsmálastjóri Hornafirði
Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, Vopnafjarðar og Fljótsdalshrepps

Starfsmenn Fjarðabyggðar, Múlaþings og Hornafjarðar á námskeiði um verkefnið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.