Síðasti dagur krafmikillar Sumarhátíðar UÍA

Sumarhátíð UÍA er nú á lokaspretti sínum í dag. Keppnin hefur farið vel fram, þrátt fyrir köflótt veðurfar, sem nú virðist standa til bóta. Lokið er keppni í knattspyrnu, golfi og sundi og síðasti dagur frjálsíþróttakeppninnar af þremur framundan. Hefjast leikar á Vilhjálmsvelli kl. hálftíu og reiknað með að keppni ljúki um klukkan þrjú. Í dag keppa meðal annarra tíu ára og yngri sem eru að stíga sín fyrstu spor á frjálsíþróttunum. Kl. 14 byrjar opin boccia keppni, sú fyrsta með því sniði sem haldin er á Sumarhátíð. Þrír eru saman í liði og geta þeir sem vilja sett saman lið og skráð til leiks. Klukkan þrjú verður ræst 10 km bæjarhlaup frá Fjölnotahúsinu í Fellabæ. Klukkustund síðar verður 5 km skemmtiskokk í Selskógi.

uiasumarhatidfridarhlaup.jpg

Á vef UÍA segir frá því að hlauparar sem hlaupa Friðarhlaupið umhverfis Ísland hafi verið meðal gesta á hátíðardagskrá Sumarhátíðarinnar í gær. Hlaupararnir, sem hlaupa með friðarloga hringinn í kringum landið, komu þá til Egilsstaða frá Höfn. Barnaskari af Sumarhátíð, undir forystu Ólafs Sigfúsar Björnssonar, starfsmanns UÍA, hljóp hring á Vilhjálmsvelli með hlaupurunum. Krakkarnir skiptust á að halda á kyndlinum í hringnum. Hlauparnir fluttu gestum friðarboðskap, sögðu frá hlaupinu og fóru í létta boðhlaupskeppni við krakka frá UÍA sem UÍA krakkarnir unnu.

Um 150 keppendur tóku þátt í knattspyrnumóti Sumarhátíðar á Fellavelli í gær. Keppt var í 5. 6. og 7. flokki. Liðin voru blönduð. Til leiks voru skráð lið frá Hetti, Fjarðabyggð, Neista, Einherja og Ásinum. Í mótslok voru grillaðar pylsur og allir fengu viðurkenningapeninga.

Guðmundur Hallgrímsson og Björn Pálsson, sem báðir skráðu sig til keppni fyrir Súluna, eru elstu keppendur Sumarhátíðar UÍA til þessa. Þeir kepptu í spretthlaupi og kúluvarpi á föstudagskvöld. Guðmundur hljóp 100 metra hlaup á tímanum 17,15 sekúndum, en hann er 73ja ára. Hann kastaði kúlu 7,96 metra. Þar tapaði hann fyrir Birni, sem er 69 ára í ár. Björn kastaði kúlunni 8,57 metra. Guðmundur stefnir á keppni í starfshlaupi á Landsmóti UMFÍ á Akureyri um næstu helgi.

 

Nánari fréttir af Sumarhátíðinni má finna á vefslóðinni www.uia.is.

 

 

Mynd: Frá friðarhlaupinu á Vilhjálmsvelli/UÍA

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.