Seyðisfjarðargöng – Austfjarðagöng

Í júlí á síðasta ári sagði Vegagerðin „Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðarvegur (93) og Hringvegur (1) í Múlaþingi eru á samgönguáætlun og er áætlaður kostnaður 35 milljarðar. Til stendur að ríkið fjármagni framkvæmdina til hálfs á fjárlögum og innheimti veggjöld fyrir hinum helmingnum.“

Nú er hönnun Fjarðarheiðarganga að ljúka. Kostar líklega 2 milljarðar. Heildarkostnaður verður líklega 40 milljarðar kr. Af því á helmingur að innheimtast með veggjöldum. Stofnað verði félag um reksturinn. Göngin eiga að vera 13,5 km löng og stytta vegleiðina um 3 km. Það er enginn tímasparnaður og Heiðin er mjög falleg vegleið í flestum veðrum. Það fara því fáir í göngin ef færð er góð, sem er flesta daga ársins. Nema allir verði skyldaðir.

Hvernig á þá að innheimta veggjald Í Fjarðarheiðargöngum. Borga þarf rekstur og 20 milljarða skuld, helming stofnkostnaðar. Segjum að innheimta veggjalda og rekstur kosti 200 milljónir (eins og í Hvalfjarðargöngum), að 20 milljarða króna lán sé til 40 ára með 2% raunvöxtum og að afborgun sé því 650 milljónir kr. á ári. Tekjurnar þurfa þá að vera 850 millj. kr. á ári til að standa undir rekstrinum. Svo vilja rekstraraðilar auðvitað einhvern hagnað.

Segjum að allir fari í göngin og að umferð verði að meðaltali 700 bílar/dag eða samtals 250 þús. bílar á ári. Þá þarf veggjaldið að vera 3400 kr. að meðaltali. Þá kostar 6.800 kr. að fara fram og til baka. Það gerir enginn ef Heiðin fagra er fær. Segjum að tíundi hver bíll færi um göngin þá kostar 68.000 kr. að skreppa til Egilsstaða ef dæmið á að ganga upp. Það gerir enginn fyrir 3 km styttingu og 13,5 km. akstur í göngum.

En tónn stjórnvalda er að breytast og í Vísi frétt segir 20.07.22 „Svo fjárfrek verða Fjarðarheiðargöng að öll framlög á fimmtán ára jarðgangaáætlun ásamt gjaldtöku af öllum göngum duga ekki til að greiða kostnaðinn. Rými til að grafa næstu göng í landinu skapast vart fyrr en í kringum árið 2040.“

Seyðfirðingum var lofað Fjarðarheiðar göngum fyrir sameiningarkosningar þar sem nær skuldlaus Seyðisfjarðarbær sameinaðist gjaldþrota Egilsstöðum í þeirri vissu að þar með fengju þeir göngin sem þeir hafa barist fyrir í 50 ár. Nú sést að forsendur loforðsins eru frá upphafi rugl en sameiningin er staðreynd. Allt framkvæmdafé ríkisins og veggjöld í öllum göngum landsins þarf í tvo áratugi til að borga þessi einu göng sem stytta aksturstíma ekkert.

Ég sé ekki að raunverulegur vilji sé hjá stjórnvöldum að gera Fjarðarheiðargöng. Þau yrðu ein lengstu göng í Evrópu og eru aðeins valkostur vegfarenda í vondum veðrum. Næstu göng verða samt á Austurlandi. Allir viðurkenna það. Viðbrögð stjórnvalda við gjaldþroti hugmyndarinnar er að boða veggjald í öllum göngum og á höfuð vegum, annars taki Fjarðarheiðargöng allt framkvæmdafé Vegagerðarinnar í 15 ár. Svo verður hægt að rífast um þessi mál í mörg ár.

En í boði er annar valkostur sem er fjárhagslega hagkvæmur, leysir algerlega einangrun Seyðisfjarðar og opnar samtímis láglendisveg um allt Mið-Austurland, eykur allt öryggi og opnar nýja möguleika í samskiptum. Valkosturinn er að fara um Mjóafjörð og þaðan innst í Eyvindarárdal á Héraði. Göngin yrðu 5,6 km + 9,0 km í stað 13,5 km undir Fjarðarheiði. Þetta yrðu mun ódýrari göng því alls konar viðbótar kröfur bætast við vegna lengdar Fjarðarheiðarganga. Það er ekkert grín að keyra 13,5 km í einum göngum.

Mjóafjarðarleiðin yrði álíka verkefni og Siglufjarðargöng. Hún lengir aðeins leiðina til Egilsstaða og styttir hana álíka í Fjarðarbyggð. Rúsínan í pylsuendanum er að frá Mjóafirði er bara 6,6 km. jarðgangaleið að Norðfjarðargöngum og þar með láglendisveg um allt Mið Austurland.

Ég tel að ef Seyðfirðingar samþykkja Mjóafjarðarleiðina þá muni hún strax fá samþykki. Hún er hagsmunamál allra Austfirðinga og hið hagkvæmasta mál.

Sigurður Gunnarsson, Seyðisfirði.

Mynd: Skjáskot af RÚV

austfjardagong ruv

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.