Seyðisfjörður - samfélag eða gróðapyttur?

Það gladdi mig á þriðjudagsmorgunn að sjá öll börnin leika sér á stóra hoppboltanum. Ekki séð svo mörg börn á Seyðisfirði síðan ég flutti hingað. Það ber merki þess að bjartsýni ríki. Skömmu síðar var mér sagt að Síldarvinnslan ætli að loka frystihúsinu eftir tvo mánuði og leggja þar með af fiskvinnslu á Seyðisfirði. Við það missa um 60 manns vinnu við veiði og verkun. Við sambærilegt áfall í Reykjavík myndu 10.000 störf hverfa.

Ég varð ekki var við að fjölmiðlum fyndist þetta mikið mál. Ríkisútvarpið hafði reyndar viðtal við sveitarstjóra Múlaþings. Hann átti fund með eigendum veiðiréttarins í Neskaupstað. Hann lýsti yfir áhyggjum en sagði að nú þyrftu Seyðfirðingar að finna sér nýjar leiðir til bjargar.

Hann hafði engar efasemdir um rétt Síldarvinnslunnar til að taka veiðiréttinn úr byggðarlaginu, hann er jú eign fyrirtækisins. Gjöful fiskimið hafa verið höfuð viðurværi íbúanna í 150 eða frá upphafi þéttbýlis við fjörðinn. En sjómenn og verkafólk sem hafa byggt framtíð sína á Seyðisfirði á fiskveiðum hafa engan rétt til fiskveiða, þeim rétti hefur verið úthlutað til fyrirtækja sem hafa hann ókeypis. Þessi réttur er mikils virði, líklega 200 til 250 kr./kg afla. Samfélagsvaldið í Reykjavík telur þennan rétt vera helgan því þó handhafarnir hafi hagnast um tugi milljarða á ári í áratugi þá væri það mikið tap að missa þennan rétt og því kæmi það ekki til greina.

Hér hefur átt sér mikil uppbygging að undanförnu. Húseignaverð hefur farið hratt hækkandi, eldri hús um allan bæ hafa verið endurnýjuð og í byggingu eru 10 nýjar íbúðir. Það gefur engan rétt þó svo að verðmæti eigna muni hrapa og fjöldi fólks missi viðurværi sitt, gjöful fiskimið.

Lausnin á að vera að finna sér aðra vinnu. En við hvað? Vissulega er veruleg aukning í ferðaþjónustu 8 mánuði á ári en engin von um að aðrir kostir bjóðist. Byggðarlagið er of langt frá mörkuðum og flest annað en fiskimiðin of fjarri til að önnur starfsemi verði rekstrarhæf. Reyndar mun Múlaþing líklega fá styrki vegna Byggðarlags í brothættu og einhver störf á skrifstofu til teikna óraunhæfar leiðir til uppbyggingar, töframenn sem draga kanínur upp úr hatti fyrir þá atvinnulausu.

Ef byggðarlagið missir veiðirétt sinn þá munu mun fleiri missa vinnuna en þeir 60 íbúar sem starfa við greinina. Það mun draga úr allri annarri starfsemi. Við vitum hvernig þetta fer. Við munum Breiðdalsvík, Djúpavog, Stöðvarfjörð og fleiri byggðarlög sem hafa misst aldagamlan rétt sinn til fiskveiða. Fiskimiðin eru eign þjóðarinnar en veiðiréttinum hefur vegna spillingar verið úthlutað ókeypis til fyrirtækja án skilyrða í áratugi. Það gefur fyrirtækjunum minnst 100 milljarða tekjur á ári fyrir ekkert. Ef veiðirétturinn væri færður til byggðanna myndu sjávarpláss um allt land blómstra. Það eina sem þarf að gera er að breyta úthlutunarreglum.

Ég tel trúlegt að laxeldið fagni, trúi því að nú muni Seyðfirðingar sætta sig við sjókvíaeldi. Laxeldismenn eru jafnvel í samningum við Síldarvinnsluna um að kaupa verkunarhúsin fyrir laxeldi. Ég er viss um að aðrir landsmenn munu nú hrista höfuðið og vorkenna Seyðfirðingum í nokkrar klukkustundir. Þeim mun jafnvel finnast þetta ósanngjarnt. Einhverjir þingmenn munu af skyldurækni segja nokkur orð en svo gleymist þetta öllum nema heimamönnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.