Síðustu metrarnir
Jæja. Nú brestur þetta víst á. Kosningar með allskonar húrrahrópum og heljarinnar uppskeruhátíð. Ég fer í sokkabuxur og vona að þær lifi fram að fyrstu tölum. Einar fer í síðar buxur og finnur sennilegast flibbahnappinn.Maður hefur lagt allt sitt á borðið og farið með eigin sannfæringu eftir bestu getu. Ekki er það átakalaust að fara fram fyrir flokk sem er enn álitinn hálf undarlegur. Það er nefnilega svolítið erfitt að breyta heiminum. Komandi úr samfélagi þar sem maður lærði það að fylgja Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokknum væri pólitík en annað væri skrýtið.
En hvorugum gat ég fylgt. Ég var alin upp við það að enginn væri æðri öðrum og það væri rangt að nýta aðstöðu sína í umboði fólksins til að tjónka við eigin afkomu.
Í barnæsku lærði ég um aflátsbréf og fyrsta hugsun mín var sú að mér þætti ákaflega rangt að menn gætu grætt á vansæld annarra. Enn finnst mér eins og fólk sé að borga fyrir sín aflátsbréf.
Í félagsfræðitíma í ME lærði ég um hjarðhegðun og tilhneigingu mannskepnunnar til að þurfa að tilheyra sigurliðinu. Ég upplifi kosningar á Íslandi svipað. Tilhugsunin um að líða eins og sigurvegara daginn eftir kosningar af því að þú kaust stærsta flokkinn er sennilega góð. Enda hvers vegna ekki? Það skiptir víst litlu hver stjórnar hvort eð er.
Ég er á réttum stað. Því líkt og flokkurinn sem ég fer fram fyrir, þá er ég sennilega undarleg í augum margra. Hef löngum trúað á það góða í fólki og treyst umfram það sem móður minni þykir gott. Hef óbilandi trú á að það sé hægt að breyta gömlum og afdönkuðum reglum og festum á verklitlu þingi. Þykir ákaflega mikilvægt að hafa tækifærin af flokkum til að fara illa með aðstöðu sína að kosningum loknum. Veit að á meðan spilling þrífst þá mun spillt fólk nýta sér það.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég býsna sátt með mitt. Ég get staðið keik á bakvið flokk sem bæði hefur komið miklu til leiðar og það án þess að gera neitt af sér og gerir það í nafni lýðræðis og manngæsku.
Takk Austurland allt og norðausturkjördæmi fyrir að taka á móti mér og öðrum Pírötum.
Til hamingju með lýðræðið og nýtið kosningaréttinn.
Höfundur skipar annað sætið á lista Pírata í Norðausturkjördæmi.