Á skal að ósi stemma ?

Helgi Hallgrímsson skrifar um breytingar á Héraði í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar.

kirkjufossfljotsdal_jn_baldvin_hannesson.jpg

Í september sl. var Ufsarlón Jökulsár í Fljótsdal fyllt og vatni hleypt í göngin sem þaðan liggja yfir í aðfallsgöng Kárahnjúkavirkjunar frá Hálslóni. Jafnframt var byrjað að safna vatni í Keldárlón. Þar með má segja að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun, sem hófust vorið 2003, hafi verið lokið að mestu leyti. Þrjár stórár á hálendi Austurlands, Keldá, Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá á Dal, hafa verið skornar um þvert með stíflum, og vatn þeirra leitt í jarðgöngum að rafstöð í Valþjófsstaðafjalli, sem nú er farið að kalla Fljótsdalsstöð, þar sem það steypist 600 m í stálhólki og knýr fimm rafala, með samtals 690 megawatta afli og 4600 gigawattstunda framleiðslugetu á ári. Frá rafstöðinni rennur vatnið í Jökulsá í Fljótsdal og með henni í Lagarfljót. Þar með er landslag á Héraði orðið breytt.   

 

Þessi risavirkjun, sú langstærsta á Íslandi, er vissulega tæknilegt undur, en á móti kemur að með framkvæmd hennar voru gerð mestu inngrip í náttúru Íslands sem hingað til hafa átt sér stað, enda var tilhögun hennar dæmd óhæf af Skipulagsstofnun 1. ágúst 2001. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar ákvað samt að halda sínu striki með virkjunina og Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra staðfesti það með úrskurði sínum 20. des. sama ár, þar sem fallist var á virkjunina með 20 skilyrðum, er drógu nokkuð úr landspjöllum.Virkjunarheimild var lögfest á Alþingi 8. apríl 2002, og 2 sept. sama ár gaf Valgerður Sverrisdóttir ráðherra iðnaðarmála út virkjunarleyfi. Framkvæmdir hófust vorið 2003, um sama leyti og Íraksstríðið. 28. sept. 2006 var byrjað að safna vatni í Hálsón, og 30. nóv. 2007 var virkjunin formlega tekin í notkun. Aðveitu Fljótsdalsánna var þó ekki lokið fyrr en í haust.Öllum mun vera í fersku minni sú gríðarlega andstaða sem beindist að Kárahnjúkavirkjun meðan á framkvæmdum stóð, og byrjaði raunar með áætlun um virkjun Jökulsár í Fljótsdal árið 1998, þar sem ráðgert var að sökkva Eyjabökkum undir jökullón. Aldamótaárið 2000 var ákveðið að stefna að mun stærri virkjun, beggja jökulsánna, með sameiginlegu miðlunarlóni í efsta hluta Jökuldals. Þar með var Eyjabökkum bjargað, sem telja verður innlegg á móti þeim gríðarlegu landskemmdum sem K-vikjun olli. Mótmælin fóru aðallega fram í Reykjavík, en Austfirðingar voru upp til hópa fylgjandi framkvæmdum, sem flestir tölu mikilvægar fyrir landshlutann, enda hafði Austurland lengi verið afskipt í því efni. Þetta olli nokkurri úlfúð um tíma milli íbúa þessara landshluta. Meðal heimamanna beindist andstaða einkum gegn tilhögun virkjunar, og 17. mars 2002 birtist í Morgunblaðinu heilsíðuauglýsing, þar sem 120 Austfirðingar mótmæltu flutningi Jöklu í Lagarfljót.   

 

Lagarfljót umhverft

Á vordögum 2008 leyndi sér ekki að Lagarfljót hafði breytt um lit. Í stað hins venjulega gulgrágræna litar var kominn á það grámórauður litur, og brá þá mörgum Héaðsmanni brún. Sumir höfðu við orð að það væri orðið skólplitað, sem ekki er fráleit líking. Lögurinn, og móðan mikla sem þaðan rennur, eru drjúgur þáttur í lífi margra Héraðsbúa, sérstaklega þeirra er alist hafa upp við þau frá blautu barnsbeini. Fyrir þá eru umskiptin ekkert hégómamál. Það á ekki síst við brottflutta Héraðsmenn, sem sjá það í rómantísku ljósi, og hafa e.t.v. fegrað lit þess í huganum. Líklega urðu engir fyrir eins miklum vonbrigðum og þessir útlagar, sem lögðu leið sína á æskuslóðir í sumar.Jökulsá á Dal (Jökla) var þekkt sem aurugasta jökulsá landsins, enda iðulega líkt við sementsvatn. Talið var að hún flytti fram um 10 milljónir tonna af aur á ári hverju, og að þar af væri 2/3 svifaur. Áætlað var að meginhluti aursins settist til í Hálslóni, en um 6% bærist gegnum virkjunina í Lagarfljót, þ.e. um 600 þúsund tonn á ári. Meðalstyrkur svifaurs í vatni frá Hálslóni var áætlaður um 220 mg/l, en í Lagarfljóti var aurinn 25-35 mg/l að jafnaði fyrir breytingu. Því mátti ætla að eftir virkjun yrði aurstyrkur í fljótinu 110-130 mg/l að jafnaði, eða 4-5 sinnum meiri en áður. Mér er ekki kunnugt hvort þessi spá hefur verið staðfest, en hún er varla fjarri lagi.Þar af leiðir að gegnsæi vatnsins minnkar að meðaltali um meira en helming. Fyrir breytingu var gegnsæi fljótsins misjafnt eftir árstímum. Það var að jafnaði mest seinni hluta vetrar og snemma vors, eða 2-2,5 m, en að sumarlagi oftast um 1 m. Þetta var þó mismunandi eftir veðráttu, ástandi Eyjabakkajökuls og rennsli í Jökulsá, sem átti það til að hlaupa á nokkurra ára fresti. Talið er að um landnám hafi Jökulsá verið lítil og fljótið næstum tært eða blágrænt eins og sjórinn, sem gæti verið skýring á nafni þess. Sömuleiðis hefur vatnsborð Lagarins ávallt verið mjög breytilegt eftir árstíðum, sem sjá má af hinum miklu fjörum hans. Eftir að báðum jökulsám hefur verið miðlað verður aurstyrkur fljótsvatnsins svipaður allan ársins hring, og vatnsborð Lagarins breytist lítið eftir árstíðum, en gegnumstreymi hans eykst um allt að helming, þar sem meðalrennsli er nálægt því að tvöfaldast. Ekki er talið að meðalhiti Lagarins breytist nema um hálfa til eina gráðu til lækkunar að sumarlagi innantil. Ísalög geta breyst vegna aukin rennslis.Í matsskýrslu var ekki gert ráð fyrir teljandi vatnsborðshækkun í Leginum eftir virkjun, ef klapparhaft við Lagarfossstíflu yrði lækkað eins og gert var 2006-07, en önnur varð þó raunin síðastliðið sumar, þegar yfirborð stöðuvatnsins var hálfum til heilum metra hærra en vanalega. Væntanlega dregur úr þessari hækkun eftir að Jökusá á Fljótsdal hefur verið miðluð. Lagarfossvirkjun var stækkuð um meira en helming í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar, en skv. virkjunarleyfi hennar frá 1976 skal rennsli vera óhindrað við Lagarfoss á tímabilinu 1. maí til 1. okt. ár hvert, nema brýna nauðsyn beri til. Ef til vill eru flóðgáttir ekki nógu víðar fyrir núverandi vatnsmagn og hugsanlega þarf að dýpka farveginn meira en orðið er. Að sjálfsögðu hækkar meðalvatnsborð um nokkra tugi sm í Fljótsdal og neðan við Lagarfoss.Alkunna er að plöntur þurfa ljós til að geta þrifist. Sumarið 1975 var birtan aðeins um 1% á 1 m dýpi í Leginum, en það er nokkurn veginn það vatnslag sem plöntur geta starfað í. Eftir breytinguna þynnist þetta lag um helming og því má ætla að frumframleiðsla minnki að sama skapi. Hjá því getur ekki farið að dýralíf fljótsins rýrni verulega við þessa breytingu, því að smádýr eru að miklu leyti háð magni þörunga og annara vatnaplantna, en þau eru aðalfæða fiska og sumra fugla. Allt lífríki fljótsins hlýtur því að minnka, bæði að fjölbreytni og magni.Þrátt fyrir mjög viðamiklar rannsóknir á ýmsum sviðum í tengslum við umhverfismat Kárahnjúkavirkjunar, varð lífríki Lagarfljóts að miklu leyti útundan, sem reyndar verður að skrifast á reikning skipuleggjanda þeirra, Náttúrufræðistofnunar. Til dæmis var þörungalífið ekkert kannað. Af þeim sökum beitti greinarhöfundur sér fyrir því að árið 2006 var gerð skipuleg könnun á strandlífi og svifi í Leginum, með mánaðarlegum sýnatökum á nokkrum völdum stöðum, sem Jón S. Ólafsson líffræðingur hjá Veiðimálastofnun stóð fyrir og Landsvirkjun féllst á að kosta. Fyrstu niðurstöður voru kynntar á fundi á Egilsstöðum 21. okt. sl., en úrvinnslu er ekki lokið. Fjöldi þekktra tegunda í fljótinu hefur þó margfaldast við þessa rannsókn, og þar hafa fundist nokkrar nýjar tegundir fyrir landið. Áætlað er að endurtaka rannsóknina eftir fáein ár, til að komast að því hvaða breytingar hafi orðið á lífríkinu. Reiknað er með að Veiðimálastofnun fylgist með breytingum á fiskigengd og fiskveiði í fljótinu og vatnasviði þess, eins og henni ber skylda til, og eitt af skilyrðum ráðherra var að fylgst skuli með fuglastofnum við Lagarfljót næsta áratug eftir virkjun, „til að staðreyna að áhrif breytinga á vatnafari á lífríki séu innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í matsskýrslu.“ Orkustofnun (Vatnamælingar) mun væntanlega fylgjast með vatnshæð og aurburði. Lagarfljót er ekki allt þar sem það er séð. Því hafa lengi verið tileinkuð ýmis undur, sem ekki verða skýrð á vísindalegan máta, en af þeim er Lagarfljótsormurinn þekktastur. Margir líta á hann sem verndarvætt Héraðsins, og sumir hafa alið þá von í brjósti, að hann myndi láta á sér kræla í virkjunarbröltinu, en það hefur enn ekki gerst með afgerandi hætti. Þegar hann sást í Atlavík 1987 var hann dapur til augnanna.  

 

Fljótsdalsfossar svipur hjá sjón

Í haust var lokið við byggingu stíflu í Jökulsá í Fljótsdal, um 2 km neðan við Eyjabakkafoss, þar sem myndast um 1 ferkm inntakslón (Ufsarlón). Nemur vatnsborð þess við fossbrún. Úr lóninu er vatni veitt í göngum yfir í aðfallsgöng frá Hálslóni og getur vatnið runnið þar í báðar áttir, eftir vatnshæð lónanna. Þegar Hálslón er fullt síðsumars rennur Jökulsá yfir stífluna, og þá verður venjulegt sumarvatn í þeim 15 fossum sem eru neðar í ánni. Annars verða þeir vatnslitlir, bara svipur hjá sjón. Í haust var einnig lokið við byggingu stíflu í Keldá við Folakvísl, og byrjað að safna vatni í um 8 ferkm. miðlunarlón á Hraunum og Múlaafrétt, sem m.a. færir Folavatn í kaf, en í því var mjög sérstakt lífríki, þar sem hávellur voru áberandi fuglar og vatnið að líkindum við þær kennt (upphaflega Fóelluvatn). Þaðan er vatni veitt í skurði og göngum ofan í Ufsarlón.Upphaflega átti að veita öllum þverám Keldár á Hraunum í Keldárlón, en með úrskurði umhverfisráðherra (2001) var hætt við að taka vatn úr þeim austustu (Fellsá og Sultarranaá). Á fundinum á Egilsstöðum 21. okt. sl. tilkynnti Friðrik Sophusson að hætt væri við aðveitu Sauðánna beggja, þar sem ekki væri þörf fyrir meira vatn í K-virkjun í fyrirsjáanlegri framtíð. Því hefur aðeins Grjótá verið veitt í lónið.Þessi breyting er til komin vegna aukins rennslis í jökulsánum, sem leitt hefur af almennri hlýnun á norðurhveli jarðar, sem raunar var fyrirsjáanleg um aldamótin 2000. Reyndar benda flestar líkur til þess að vatn jökulsánna tveggja muni nægja til að reka Kárahnjúkavirkjun, og framkvæmdir við Keldá á Hraunum hefði því mátt fella niður. Þar með hefði stóru ósnortnu víðerni verið bjargað. Í Keldá eru álíka margir fossar og í Jökulsá í Fljótsdal, og fegurð þeirra er síst minni. Þeir skerðast að sjálfsögðu verulega við virkjun árinnar og verða vatnslitlir mestan hluta ársins, enda þótt Sauðárnar leggi þeim nokkuð til. Eitt af skilyrðum umhverfisráðherra (2001) var að vatni verði miðlað í Jökulsá seinni hluta sumars og Keldá fái að renna yfir stíflu í góðum vatnsárum.   

 

Stöðuvatnið mikla - Hálslón

Á hálendi Austurlands hefur orðið til nýtt vatn - Hálslón. Það er misstórt eftir árstíðum, en þegar það er fullt er það um 25 km langt og um 57 ferkm að flatarmáli, nokkru stærra en Lögurinn, sem er 53 ferkm. og þriðja stærsta stöðvatn landsins. Hæsta vatnsborð Hálslóns er 625 m yfir sjávarmáli, en lægsta borð um 550 m y.s. Það fyllir efsta hluta Jökuldals, sem farið var að nefna Hjalladal upp úr aldamótum, vegna hinna mörgu og miklu malarhjalla sem einkenndu þennan dalhluta og gáfu honum sérstakt yfirbragð, sem var engu öðru líkt. Austursíða dalsins, Hálsinn, var næstum alþakin jarðvegi og gróðri, en að vestan var nokkuð uppblásið land. Mjög lítið votlendi fór undir lónið, ólíkt því sem hefði átt sér stað í Eyjabakkalóni. Um fjórðungur af friðlandi Kringilsárrana fór á kaf í lónið og þar með hluti Töðuhrauka, Kringilsárgil með sínum Töfrafossi og Þrepafossi, ennfremur Sauðárfoss og Sauðárflúðir á Brúaröræfum. Á Vesturöræfum hurfu Sauðárgil og Jökulkvíslargil, bæði með fossum og flúðum, að ógleymdum eina fossi í Jöklu við Lindur í Hálsi, en þar fóru tvö jarðhitasvæði á kaf í lónið og sérkennilegir stuðlaklettar og rauðaberg vestan ár. Talsvert varpland heiðagæsa hvarf í lónið og mikilvægt burðarsvæði og beitarland hreindýra. Ennfremur hurfu fornar seltættur yst í Hálsi í lónið, og tveir gangnakofar lentu í hæsta vatnsborði þess. Nýlega var tekin saman skrá yfir örnefni í stæði Hálslóns og á strönd þess og reyndust þau vera um 100, en þar af er um helmingur nýnefni. Búast má við miklu áfoki af leir og sandi úr Hálslóni þegar það er vatnslítið og hafnar eru tilraunir til að hefta það.Segja má að Hálslón, með tilheyrandi stíflum við Fremri-Kárahnjúk, sé hryggjarstykkið í K-virkjun, enda beindist athygli mótmælenda, nær eingöngu að því, og aðrar landskemmdir hurfu í skugga þeirra, þar með taldir fossar í Fljótsdalsám og umhverfing stóránna. Mikill fjöldi ferðamanna lagði leið sína í Hjalladal meðan framkvæmdir voru í gangi, og mörgum heimamönnum ofbauð sú dýrkun sem lónstæðið hlaut í hita deilunnar.   

 

Jökla orðin að „Ökklu“Jökulsá á Dal hefur tekið ennþá meiri breytingum en Lagarfljót, eftir virkjun, svo segja má að hún sé óþekkjanleg. Þegar byrjað var að safna vatni í Hálslón haustið 2006 varð hún að bergvatnsá, sem líkist venjulegum dragám, þar sem rennsli er mjög háð úrkomu og snjóbráði. Ofantil í ánni er að meðaltali lítið meira en helmingur fyrra rennslis, og margfalt minna hlutfall á sumrum. Þá sýnist hinn mikli farvegur nánast hálftómur. Einhver snjallyrtur náungi stakk upp á breyta heiti Jöklu í "Ökklu", því að hún nú víða aðeins ökkladjúp.Neðan við bæinn Selland, í mynni Jökuldals, hverfur áin í djúpan og þröngan bergstokk, sem er að hluta til þakinn af fagurlega slípuðu grjóti, svo að þar má ganga yfir hana þurrum fótum. Áður sást þessi steinbrú aðeins þegar minnst var í ánni á vetrum. Þetta fyrirbæri á engan sinn líka hér á landi í vatnsfalli af svipaðri stærð. Undanfarin tvö ár hefur jökulvatn tekið að flæða úr Hálslóni um yfirfall Kárahnjúkastíflu síðari hluta ágústmánaðar og fram á haust. Er búist við að það gerist í ágúst og september í flestum árum. Vegna miðlunar í Hálslóni verður áin þó aldrei jafn mikil og ekki nálægt því jafn aurug og áður. Yfirfallsvatnið myndar um 90 m háan foss ofan í Dimmugljúfur, sem hlotið hefur nafnið Hverfandi. Kannski verður hægt að miðla hluta yfirfallsvatns í Ufsarlón og Jökulsá í Fljótsdal, þar sem það kemur fossum hennar til góða.Ýmsir gera sér vonir um að Jökla og þverár hennar geti orðið laxveiðiár. Veiðifélag hefur verið stofnað um vatnasvið hennar, og stangveiðifélagið Strengir, sem Þröstur Elliðason stýrir af myndarskap, hefur tekið ána á leigu til 10 ára. Sumarið 2006 var byrjað að setja 1-2 ára gönguseiði í þverárnar, með þeim árangri að neðantil í vatnakerfinu veiddust nokkrir tugir laxa sumurin 2007 og 2008. Ofan við steinbrúna hjá Sellandi hefur ekkert veiðst, og því líta laxakarlar hana illu auga. Vonandi tekst að greiða laxinum leið undir brúna án þess að skemma hana. Þrátt fyrir breytinguna er Jökla enn mjög líflítil, en efri þverár eru lífríkar.Tilraunir hafa verið gerðar með að græða upp Jökulsáraura á Úthéraði, sem áin hefur hopað af að miklu leyti. Óttast er um selalátur á aurunum og í vor varð þess vart að selurinn var byrjaður að flytja sig austur á eyrar við Lagarfljót.Fullyrða má að ekkert vatnsfall á Íslandi hafi verið eins áhrifaríkt og yfirþyrmandi á dal sínum eins og Jökla og því hafa tilfinningar íbúanna gagnvart henni verið blendnar. Áin var mikill farartálmi, og það kallaði á tæknileg úrræði, sem leyst voru á einstakan máta með hinum svonefndu dráttum (kláfum); þeir voru um skeið allt að tíu talsins á Jökuldal, en fágætir á öðrum ám. Ekki vitað um samskonar farartæki í öðrum löndum. Auk þess hefur áin verið brúuð lengur en nokkuð annað vatnsfall hérlendis, eins og nafnið Jökulsá á Brú bendir til. Þrátt fyrir það krafðist hún allmargra mannfórna. Jökla var á sinn hátt eins konar meinvættur, sem nauðsynlegt var að semja frið við. Því hefur Bjarni Benediktsson frá Hofteigi lýst snilldarlega í sögunni „Drengurinn og fljótið“, sem víða hefur birst. Viðbrögð Jökuldælinga við umræddri breytingu hafa verið á ýmsan veg. Líklega hafa flestir fagnað henni, en nokkrir hafa þó látið í ljós eftirsjá. Athyglisvert er hversu margir unglingar voru í síðari hópnum þegar málið var kannað í Brúarásskóla í ársbyrjun 2001. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segir máltækið, og mun það eiga við marga íbúa dalsins, sem nú er hljóður og hnípinn. Það var ólýsanleg upplifun að ganga með Jöklu í sumarham, og hefði eflaust getað orðið heimsfræg túristaleið, ef kynnt hefði verið sem slík.

Þeim sem vilja kynna sér þetta efni betur skal bent á Lagarfljótsbók höfundar, sem út kom 2005, og þemahefti Glettings: Snæfellsblað 1998, Kárahnjúkablað 2001 og  Jöklublað 2007, ennfremur bókina Víðerni Snæfells eftir Guðmund P. Ólafsson (2003) og Kárahnjúkar með og móti eftir Ómar Ragnarsson (2004).

 

Egilsstöðum í nóv. 2008. Helgi Hall.

 

 

 

 

LJÓSMYND: JÓN BALDVIN HANNESSON / KIRKJUFOSS

 

 

 

                              (Greinin birtist nokkuð stytt í jólablaði Glettings 2008)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.