Skipulag almannavarna á Austurlandi - stofnun starfshópa

Almannavarnir eru íbúum Austurlands hugleiknar, ekki síst eftir eldskírn síðasta vetrar. Mikils er því um vert að undirbúningur sé góður fyrir verkefni sem kunna að bíða, skipulag gott og áætlanir til staðar sem auðvelt er að virkja komi til almannavarnaástands.

Í fjórðungnum voru lengi tvær nefndir almannavarna. Í kjölfar sameiningar sýslumannsembætta árið 2015 og stofnun nýs lögregluembættis á sama tíma var nefndin sameinuð í eina árið 2019. Umdæmismörk nefndarinnar fylgja umdæmi lögreglu og nær frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri.

Í almannavarnanefnd umdæmisins situr lögreglustjóri sem er formaður, yfirlögregluþjónn, bæjar- og sveitarstjórar í umdæminu, slökkviliðsstjórar og fulltrúi Landsbjargar.

Hlutverk almannavarnanefnda samkvæmt lögum er meðal annars að móta stefnu og skipuleggja starf sitt að almannavörnum í héraði, vinna að gerð hættumats og viðbragðsáætlana, endurskoða hættumat og framkvæma prófanir á viðbragðsáætlunum.

Tveir starfshópar undir yfirstjórn almannavarnanefndar hafa nú verið stofnaðir með ofangreind markmið í huga. Þeir starfa hvor á sínu svæði, annar að verkefnum í Fjarðabyggð og hinn á svæði sem tilheyrir Múlaþingi, Vopnafirði og Fljótsdalshreppi.

Hlutverk hópanna og ástæðan fyrir stofnun þeirra er fyrst og fremst að tryggja nauðsynlega yfirsýn í stóru umdæmi yfir áskoranir sem bíða og nýta til þess staðarþekkingu. Gert er ráð fyrir að fundað verði á mánaðarfresti og verkefnum deilt milli funda. Hóparnir forgangsraða verkefnum á sínum svæðum, forgangsraða búnaðarkaupum og skipuleggja og halda æfingar bæði innan svæðis og milli svæða.

Í hópunum starfa fulltrúar sömu eininga og eru í almannavarnanefnd, auk fulltrúa Rauða krossins. Þá eru áheyrnafulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Austurlands og Vegagerðar.

Inn í hópana verður hægt að kalla til sérfræðinga eftir þörfum og fjölga í þeim þyki ástæða til, hvort heldur til frambúðar í ljósi reynslunnar eða tímabundið. Allar ráðstafanir og aðgerðir hópanna eru kynntar almannavarnefnd sem aðstoðar og greiðir fyrir verkefnum auk þess að koma með tillögur og ábendingar sem hún telur mikilvægar.

Það er mat okkar í almannavarnanefnd að starf hópanna muni færa almannavarnir í umdæminu áfram þannig að næstu skref verði markvisst tekin og við sem samfélag reiðubúin sem fyrr að takast á við verkefni og áskoranir sem upp kunna að koma.

Almannavarnanefnd leggur mikið upp úr samstarfi og samtali við íbúa. Því er nefndin komin með eigið netfang; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Hægt er að senda þangað tillögur, ábendingar eða fyrirspurnir.

Áfram við.

Höfundur er lögreglustjóri á Austurlandi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.