Skólahreysti MS á Austurlandi 19. mars

Skólahreysti MS með austfirskum grunnskólum verður haldin í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum 19. mars kl. 15. Í fréttatilkynningu frá Skólahreysti segir að mikill gangur sé í keppnum og hafi tvö Íslandsmet fallið nú síðast. Þá er sprottinn upp nýr Íslandsmeistari í armbeygjum; Unnbjörg J. Ómarsdóttir í Réttarholtsskóla tók heilar 80 armbeygjur sem vart á að vera mögulegt. Austfirskir þátttakendur í Skólahreysti MS þurfa því að setja markið hátt.

unnbjrg_rtt.jpg

Skólahreysti MS hélt áfram fimmtudaginn 5. mars  í íþróttahúsinu Austurbergi og voru tvo Íslandsmet slegin. Alls mættu 180 unglingar til keppni og var keppt í þremur riðlum. Ljóst er að árangur skólanna verður glæsilegri með hverju árinu sem líður.

 

Pálmi Rafn Steindórsson, Foldaskóla, setti nýtt Íslandsmet í dýfum og Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir, Réttarholtsskóla, setti nýtt Íslandsmet í armbeygjum. Sigurvegarar í riðlunum þremur voru Hvolsskóli, Foldaskóli og Háteigsskóli.

 

Í fyrsta riðlinum kepptu skólar frá Suðurlandi. Hvolsskóli sigraði undanúrslit 2008 og náðu þeir að halda fyrsta sæti í sínum riðli í ár og hlutu þeir 32,5 stig. Grunnskólinn í Hveragerði varð í öðru sæti með 27 stig og Flúðaskóli í þriðja sæti með 24,5 stig.  

 

Í öðrum riðli öttu saman kappi skólar úr Breiðholti, Grafarvogi, Grafarholti og Árbæ.   Keppnin þar var gífurlega hörð. Foldaskóli komst í úrslit 2008 og ætluðu þeir sér augljóslega að halda sínu sæti þetta árið. Rimaskóli reyndist þeim mjög erfiður og að lokum stóðu báðir skólar uppi með 65 stig. Þar sem Foldaskóli hafði tvisvar náð fyrsta sæti í einstökum keppnisgreinum og Rimaskóli aðeins einu sinni, þá sigraði lið Foldaskóla  í sínum riðli og þar með hafði það þátttökurétt í úrslit. Pálmi Rafn Steindórsson úr Foldaskóla setti glæsilegt íslandsmet í dýfum með því að taka 59 dýfur. Í þriðja sæti varð Ölduselsskóli með 62 stig.  

  

Þriðji riðill hafði á að skipa skólum frá Seltjarnarnesi, Vesturbæ og Austurbæ. Keppnin þar var eins og í hinum riðlunum mjög hörð og endaði Háteigsskóli  í efsta sæti með 51,5  stig. Hagaskóli varð í öðru sæti með 44 stig og Laugalækjarskóli í þriðja sæti með 43 stig. 

Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir úr Réttarholtsskóla setti Íslandsmet í armbeygjum. Hún tók 80 armbeygjur sem er frábær árangur og segja má að hún sé komin í hóp afreksmanna á sviði íþróttanna. Fyrra Íslandsmet var 77 armbeygjur.

 

Þættir frá mótunum eru sýndir á laugardögum kl.18:00 á RÚV og endursýndir á sunnudögum og þriðjudögum.  

 

Tíu riðlar verða í Skólahreysti MS í ár. Þó munu tólf skólar keppa í úrslitum. Tveir stigahæstu/árangursbestu skólarnir af öllu landinu  fá einnig keppnisrétt.  Spennan helst því hjá stigaháum skólum sem ekki sigruðu sína riðla þar til í lok allra riðla. Þá kemur í ljós hvaða tólf skólar enda í úrslitum. 

 

Þann 12. mars næstkomandi munu tveir riðlar takast á í íþróttahöll Akureyrar. Þar munu unglingar af Norðurlandi sýna  þrek og þol í þrautum þessarar  skemmtilegu hreystikeppni á milli  grunnskóla landsins.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.