Smjörklípumeistara svarað

 Smári Geirsson, fyrrverandi formaður SSA og Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri SSA, skrifa: Dr. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor ritaði grein í Austurgluggann sem birtist 27. nóvember síðastliðinn. Þar opinberar hann það viðhorf sitt að virkjunar- og álversframkvæmdir á Austurlandi séu í reynd kveikiefnið sem hratt margumræddri kreppu af stað. Undirritaðir svöruðu Þórólfi og birtist svargreinin í Austurglugganum viku síðar. Nú hefur Þórólfur stungið niður stílvopni sínu á ný og sent frá sér greinina Fullar hendur smjörs? en hún hefur einungis birst á heimasíðu Austurgluggans þegar þetta er ritað.

Að okkar mati er síðasta ritsmíð prófessorsins rýr að innihaldi. Helst sýnir hann fram á í skrifum sínum að hann hefur hefur tileinkað sér smjörklípuhugtakið sem nú orðið er mikið notað í pólitískri umræðu. Í sannleika sagt er ekki ástæða til að hafa mörg orð um þessa grein doktorsins en þó viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

 

Hann telur að orðið pólitík sé skammaryrði í okkar munni. Slíkt er fjarstæða. Auðvitað er afstaða okkar til virkjunarframkvæmda og álversbyggingar pólitísk í eðli sínu en sú afstaða byggir að sjálfsögðu á skýrum rökum. Rökin eru í fyrsta lagi dæmigerð byggðarök og í öðru lagi þjóðhagsleg. Við komum hins vegar fram eins og við erum klæddir og sveipum ekki afstöðu okkar í búning fræða eða birtum hana með því að skreyta okkur virðulegum titli eins og prófessorinn gerir. Það er í reynd alveg sama hvaða upplýsingar doktorinn fær varðandi jákvæð áhrif álvers á atvinnulíf og byggðarþróun, hann heldur í sífellu áfram sínum neikvæða málflutningi. Dr. Þórólfur hefði svo sannarlega gott af því að koma austur og kynna sér stöðu mála á vettvangi.

 

Í svargrein okkar við fyrstu grein prófessorsins færum við skýr rök fyrir því að fullyrðingar hans um að framkvæmdir eystra séu undirrót kreppunnar fái vart staðist. Við bendum á að á árabilinu 2004-2007 hafi meðalinnflæði erlends fjármagns á ári verið um 214 milljarðar eða um 1000 milljarðar á öllu tímabilinu. Vakin er athygli á því að Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál hafi kostað um 350 milljarða samtals en einingis 10-20% þess fjármagns hafi komið inn í landið eða um 35-70 milljarðar. Þannig hafi einungis borist árlega 6-12 milljarðar erlends gjaldeyris inn í landið vegna framkvæmdanna eystra. Skýringin á þessu mun vera sú að mestur hluti kostnaðar vegna framkvæmdanna fór í kaup á tækjum, tólum og búnaði erlendis og kom því aldrei inn í landið í formi gjaldeyris. Að auki var vinnuaflið sem sinnti framkvæmdunum að mestu erlent þannig að ekki skapaði það þá þenslu á vinnumarkaði sem ýmsir spáðu. Þessar tölur sýna svart á hvítu að áhrif umræddra framkvæmda voru miklu minni á íslenskt efnahagslíf en heildarkostnaður við framkvæmdirnar gæti gefið til kynna.

 

 Dr. Þórólfur viðurkennir að nokkru réttmæti þeirra talna sem hér eru settar fram en hann er trúr sinni gömlu góðu pólitísku sannfæringu þegar hann skrifar í grein sinni” “litlar” tölur geta haft mikil áhrif.”  Það er í reynd ný hagfræðileg speki að litlar tölur séu áhrifamiklar og þá hugsanlega stórar tölur áhrifalitlar.

Nú vekur það nokkra athygli að í skýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi frá sér um orsök kreppunnar á Íslandi er komist að niðurstöðu í ætt við niðurstöðu Dr. Þórólfs, semsagt að framkvæmdir vegna áliðnaðar hafi komið ofþenslu efnahagslífsins af stað. Þær tölur sem birtar voru hér að framan benda hins vegar til þess að skýringanna sé að leita annars staðar. Fullyrðingar prófessorsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fær menn óneitanlega til að íhuga orð sem Göran Persson fyrrverandi forætisráðherra Svíþjóðar lét nýverið falla í ljósi þeirra efnahagshamfara sem nú skekja heiminn, en hann sagði að engine ein fræðigrein í heiminum væri jafn ofmetin og hagfræði, því að í reynd snúist stjórn efnahagsmála fyrst og fremst um heilbrigða skynsemi. Hugsanlega er dálítið harkalegt að dæma heila fræðigrein með þessum hætti, en vissulega má færa haldgóð rök fyrir því að orð Perssons eigi vel við hvað varðar fjölmarga hagfræðinga.

 

   Með þessum orðum lítum við svo á að orðaskiptum okkar við Dr. Þórólf Matthíasson um orsakir kreppunnar sé lokið. Hins vegar ítrekum við þörfina fyrir að prófessorinn heimsæki Austurland og kynni sér málin á vettvangi Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls. Undirritaðir bjóða fram leiðsögn og aðstoð við skipulagningu slíkrar heimsóknar.   

  

Smári Geirsson og Þorvaldur Jóhannsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.