Snjóflóðaeftirlitsmenn fylgjast grannt með
Snjóflóðaeftirlitsmenn fylgjast grannt með snjóalögum í Norðfirði og á Seyðisfirði. Fjögur snjóflóð hafa fallið í Norðfirði og tvö í Seyðisfirði á síðasta sólarhring rúmum. Engin hætta er á ferðum og um venjubundið eftirlit að ræða, þó ástæða þyki til að herða eftirlit ef bætir í úrkomu á þessum svæðum.
Tveir snjóflóðaeftirlitsmenn úr Reykjavík eru í dag og á morgun við rannsóknir og æfingar ásamt austfiskum eftirlitsmönnum á Austurlandi og var dagsetning þeirra athugana löngu ákveðin. ,,Það vildi svo vel, nú eða illa til, að hér í Norðfirði féllu nokkur snjóflóð sem við gátum skoðað saman", segir Kristín Ágústsdóttir, landfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað.
Hún segir engar áhyggjur vera af snjóflóðahættu í Norðfirði. Uppi sé svokallað hættuástand gulur, sem þýði að snjóflóð geta fallið og þau farið af stað af mannavöldum utan byggðar en ekki talin hætta á flóðum í þéttbýli. ,,Þetta er alnormalt ástand" segir Kristín. Eitt flóðanna í Norðfirði féll úr Bakkagili, tvö í Hátúni á veginn yfir Oddsskarð og eitt úr Grænafelli á Fagradal. Flóðin eru öll heldur óveruleg. Kristín segir að alltaf sé fylgst grannt með á þessum tíma, meðal annars mæld snjódýpt og teknar gryfjur til að taka ástandið.
Emil Tómasson er snjóflóðaeftirlitsmaður á Seyðisfirði. Hann segir ástandið býsna stöðugt en þó hafi fallið tvö flóð út með strönd Seyðisfjarðar í gær, annað nokkuð myndarlegt. ,,Snjóalög eru stöðug, sérstaklega norðanvert í firðinum og í Stafdal. Allt er í góðu lagi í Bjólfinum, enda ekki sest það mikið í hann af snjó," segir Emil. Bæti í úrkomu þurfi þó að fylgjast enn betur með. Nú er verið að gera vikulegar mælingar en gæti þurft að gera þær daglega hvað úr hverju.