Soffía Lárusdóttir verður ekki meðal frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins

Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, hefur ákveðið að taka ekki sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi Alþingiskosningum. Hún bauð sig fram í 2. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi í nýafstöðnu prófkjöri flokksins, en hafnaði í 5. sæti. Ástæður þess að hún dregur sig í hlé segir hún vera annir og að ekki hafi orðið sú endurnýjun í forystu flokksins sem hún vonaðist eftir.

soffa_lrusdttir.jpg

 

,,Ég hef tilkynnt kjörstjórn að ég muni ekki taka sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi," sagði Soffía í samtali við Austurgluggann. ,,Það er í samræmi við það sem ég lagði upp með þegar ég fór í prófkjörið. Áður en þetta kom til hafði ég tekið ákvörðun um að ljúka þessu kjörtímabili og láta svo staðar numið. Þá verð ég búin að vera í ellefu ár í fullu starfi samhliða pólitíkinni. Það hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en afskaplega mikið vinnuálag."

Soffía segist ein af þeim sem ekki hafi verið ánægð með framgöngu forystu Sjálfstæðisflokksins eftir efnahagshrunið og henni finnist ástæða til endurnýjunar. ,,Ég tel þetta ekki vera endurnýjun og að komið hafi inn einstaklingar sem tengjast of mikið því hruni sem varð. Í ljósi þessa og að Ólöf Nordal hætti við að bjóða sig fram (í NA-kjördæmi, innsk. blm.), tók ég ákvörðun um að láta á það reyna hvort ég gæti gert stjórnmál að aðalstarfi og lagði upp með það. Þetta gekk ekki eftir og ljóst að þá var uppi breytt staða. Vegna annarra starfa mun ég því ekki geta unnið í kosningabaráttunni. Þetta er því fyrst og fremst út af vinnuálagi, sem kannski væri þá fyrir ekki neitt. Þetta er mín niðurstaða og það eru kjósendur sem ráða."

Soffía á eitt ár eftir í sveitarstjórnarmálunum, þar sem hún hefur í áratug verið í forystusveit bæjarstjórnarmála á Héraði og er forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.