Stefán Þorleifsson: „Maður verður að hafa eitthvað fyrir því að halda góðri heilsu“

Stefán Þorleifsson verður í dag jarðsunginn frá Norðfjarðarkirkju en hann lést 14. mars síðastliðinn á 105. aldursári. Austurfrétt endurbirtir hér viðtal sem tekið var fyrir Austurgluggann í tilefni af 100 ára afmæli hans í ágúst 2016.

„Ég hef eiginlega ekkert hugsað um að verða 100 ára. Ég læt hvern dag líða án þess að gera nokkra áætlun fram í tíman. Ég hugsa um það á hverjum degi eftir veðri og vindum hvernig ég eyði deginum. Það er mikils virði að geta haft tómstundir sem maður hefur gaman af,“ segir Stefán.

Hann er fæddur í Naustahvammi, bæ sem stóð í byggð sem nú er horfin, innst í Norðfirði. Hann er fjórði í röð fjórtán barna Maríu Aradóttur og Þorleifs Ásmundssonar. Langlífi er í fjölskyldunni og hefur helmingur barnanna náð 90 ára aldri. „Uppeldið var skemmtilegt en strangt. Foreldrar mínir voru miklar hetjur í alla staði. Það er ekkert smá ævistarf að ala upp 14 börn og koma þeim öllum til manns, heilbrigðu og hraustu fólki þótt fátækt væri mikil,“ segir hann.

Föður sínum lýsir Stefán sem „afar músíkölskum manni“ sem hafi spilað á harmonikku og sungið. Móðirin var ekki skólagengin en var fljót að læra þannig hún gæti leiðbeint börnum sínum þegar þau byrjuðu í skóla. „Ég hef oft hugsað um hvað mér finnst það merkilegt að hún skyldi geta leiðbeint okkur betur en kennararnir í stærðfræði.“

Guðsþjónusta var fastur liður á sunnudögum og þá var lesið upp úr postillu. Í Naustahvammi var til Péturspostilla en skammt frá, á Vindheimi þaðan sem Þorleifur var, var til Helgapostilla. „Ég var afskaplega feginn þegar ég var sendur þangað að ná í Helgapostillu. Húslestrarnir í henni voru miklu styttri og þá komst maður fyrr út í náttúruna að leika sér.“

Átta ára í barnapössun

Stefán byrjaði snemma að vinna fyrir sér og strax átta ára var hann sendur í barnagæslu í Sandvík. „Það voru hjón sem unnu þar við útgerð Sameinuðu verslananna og áttu dreng á þriðja ári. Konan kom til mín og vildi fá barnfóstru. Þá var kallað á mig og spurt hvort ég vildi fara til Sandvíkur og passa lítinn strák.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað Sandvík var en sagði já, því mér fannst að mamma vildi þetta. Í mínum huga var vík stór staður því það var alltaf verið að tala um einhverja vík fyrir sunnan sem var Reykjavík.

Ég kom steinsofandi til Sandvíkur og var fluttur úr bátnum upp í verbúð og kastað til fóta í koju hjá einum sjómanninum. Þegar ég vaknaði og leit út og sá ekkert nema nokkrar verbúðir, mold og grjót varð ég alveg undrandi.

Það voru fjögur sveitabýli í víkinni og á hverjum degi var ég sendur 2,5 km leið til að ná í mjólk handa verbúðarmönnum og barninu.

Hvernig datt fólki í hug að senda 8 ára barn alla þessa leið til að ná í mjólk eða passa barn? Það var ekkert vit í þessu, bara hreinlega ekkert. Þetta var ágætt fólk en það gat ekkert hugsað um mig.“

Erfitt á sjónum

Stefán fór þó aftur til Sandvíkur, næst til annarra hjóna og var þar flest sumur fram á fermingarárið við barnapössun og sjósókn. „Ég var þarna síðast sumarið 1930. Ég man að það sumar byrjaði Útvarp Reykjavík og það kom útvarpstæki á eitt af þeim fjórum býlum sem voru í Sandvíkinni. Ég man að það voru sett á mig heyrnartól og ég fékk að heyra í útvarpinu. Ég man hvað ég var undrandi að geta hlustað á fólk sem staðsett var í Reykjavík segja frá.

Þótt vélbátaöldin væri hafin var árabátaöldin ekki liðin í Sandvík enda þaðan stutt á miðin. Ég fór fljótlega að stunda sjóinn með húsbóndanum sem gat orðið ansi kaldranalegt og leiðinlegt. Ég réði varla við árarnar. Yfirleitt var róið út í Gerpisröstina sem var leiðinleg, sjórinn var nánast aldrei sléttur og ég oft sjóveikur. Maður var illa búinn skjólfötum, í heimagerðum hlífðarfatnaði úr sauðskinni sem var lélegur ef hann blotnaði þannig maður var oft blautur og kaldur. Ég myndi ekki bjóða börnunum mínum svona aðbúnað.

Stefán gekk í gagnfræðaskólann á Norðfirði en segir kennsluna þar ekki hafa verið góða. Hann vildi komast í framhaldsskóla og vann fyrir sér með því að fara á vertíðir í Sandgerði og á Hornafirði. „Þetta var á kreppuárunum og ég kom alltaf blankur til baka þótt þetta væri geysimikil vinna. Eftir fjögur sumur á síldveiðiskipi á Akureyri fór ég loks að sjá svolítinn pening. Þá var ég orðinn 21 árs gamall og alltof gamall fyrir framhaldsskóla þannig ég fór í Héraðsskólann á Laugarvatni. Þegar ég var að klára þar bjó ég mig undir að fara í Samvinnuskólann en frétti að skólastjóri Íþróttakennaraskólans hefði áhuga á að fá mig sem nemanda árið eftir þannig ég fór þangað og útskrifaðist þaðan 1940.“

Stefán kom aftur austur og fór að þjálfa hjá Þrótti og kenna íþróttir við gagnfræðaskólann. Hann kenndi líka sund „í köldum pollum á sumrin“ því engin var sundlaugin. Hún kom hins vegar fljótlega. „Lúðvík Jósepsson var formaður framkvæmdanefndar sem bæjarstjórn og íþróttafélagið kusu og ég var beðinn um að vera framkvæmdastjóri. Árið 1942 var ég ráðinn til að kenna sund en mitt aðalstarf var að koma upp sundlauginni. Þá var Þorsteinn Einarsson starfandi sem íþróttafulltrúi ríkisins og það var einstakt að fá hann og geta leitað til hans við allan undirbúning. Við vígðum laugina síðan 8. ágúst 1943. Þetta mannvirki er enn í fullum gangi og markaði geysileg tímamót fyrir okkur og íþróttalífið út fyrir bæjarmörkin því Eiðalaugin var þá eina upphitaða laugin á Austurlandi.“

Ætlaði aldrei í sjúkrahúsið

Sundlauginni veitti Stefán forstöðu í tæp 15 ár þar til hann tók við stjórn Fjórðungssjúkrahússins sem opnað var 17. janúar 1957. Í því starfi var hann í 30 ár. „Lúðvík var formaður bygginganefndarinnar en hann var alltaf á Alþingi þótt hann ynni þýðingarmikið starf við þessa framkvæmd. Ég var varaformaður í nefndinni og stýrði mannaráðningum og slíku í aðdraganda opnunar. Ég hafði mestan áhuga á sundlauginni og ætlaði mér aldrei að tengjast sjúkrahúsinu í framtíðinni en þegar kom að því að opna það var ég beðinn um að veita því forstöðu. Ég reiknaði alltaf með að það væri til bráðabirgða.

Upphaflega var aldrei reiknað með að þetta yrði Fjórðungssjúkrahús, bara mjög gott sjúkrahús og vel tækjum búið. Við fengum til okkar Gísla Sigurjónsson, forstjóra elliheimilisins Grundar. Hann var ákaflega merkilegur maður með mikinn áhuga á bættri heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hann var með umboð fyrir þýskt fyrirtæki og við sömdum við það um allan tækjabúnað, allt frá röntgentækjum og sjúkrabúnaði niður í teskeiðar í eldhúsið. Þannig var sjúkrahúsið vel tækjum búið frá fyrsta degi.

Við fengum líka frábæran skurðlækni sem var líka sérfræðingur í svæfingum og færeyska yfirhjúkrunarfræðinga, því ég held að íslenskir hjúkrunarfræðingar hafi ekki viljað flytja út á land.
Við vorum ekki búin að vígja sjúkrahúsið formlega þegar fyrsta mannslífinu var bjargað. Það var ungur maður sem fannst uppi í Oddsskarði og lífi hans var bjargað því við höfðum þessi tæki og kunnáttu. Hann var útskrifaður daginn sem við vígðum sjúkrahúsið.“

Vilhjálmur geysilega fjörugt barn

Stefán er hins vegar löngu orðinn landsþekktur og hefur jafnvel hlotið alþjóðlega athygli fyrir áhuga sinn á hreyfingu. Hann byrjar daginn á leikfimi og að fara í sund virka daga. Á golfvöllinn reynir hann líka að komast sem oftast á sumrin og á veturna skíðar hann. „Síðasti vetur er sá fyrsti sem ég fer ekki í Skarðið. Ég fór aðeins á gönguskíði,“ segir Stefán sem kennt hefur kynslóðum Norðfirðinga að standa á skíðum.

„Ríkið rak um tíma skíðaskóla á Ísafirði og þangað fór ég árið 1944 til að ná mér í einhverja færni til að geta leiðbeint á skíðum. Það var ágætis tími og mikils virði að geta fengið færni til að geta sagt öðrum til í íþróttinni. Þá voru alpagreinarnar að koma og síðan hefur þróunin orðið mikil, ekki síst í skíðabúnaðinum. Alls konar kúnstir sem menn voru að reyna þá eru orðnar einfaldar í dag.“

Stefán kenndi einnig sund árum saman. Hans frægasti sundnemandi er hins vegar ekki Norðfirðingur. „Þegar sundlaugin kom að Eiðum var það fyrsta upphitaða laugin á Austurlandi og Þórarinn Sveinsson, frændi minn úr Neskaupstað, hringir í mig og spyr hvort ég geti ekki komið til að koma á fót sundkennslu því hann hafði ekki tíma til þess. Ég var til en vandinn við Eiða var að komast þangað á veturna.

Ég tók þá ákvörðun að fara upp úr Fannardalnum yfir Jökul. Ég fór af stað snemma morguns með skíði og þegar ég kem að Fannardalsbænum kemur Ragnhildur skáldkona, sem bjó þar ein, hlaupandi í veg fyrir mig og spyr mig: „Hvað er klukkan? Ég hef enga klukku, þær eru allar stoppaðar.“ Ég var með úr og gat því sagt henni hvað klukkan væri.

Ég lagði á Jökulinn þótt ég kynni þá lítið á skíði. Ég hélt að þetta væri ekkert mál en svæðið er í þúsund metra hæð og þegar maður er búinn með einn hjalla og heldur að maður sé kominn tekur annar við og svo næstu og næsti. Það var komið langt fram á dag þegar ég komst upp en þá fór ég á skíðin og renndi mér niður í Slenjudalinn.

Þá átti ég eftir að labba andskoti langt og þegar ég kom að Miðhúsum var komið myrkur. Þar var ég settur upp á hest, sem ég kunni þó ekki mikið á, og farið í einum spretti að Eiðum í svarta myrkri. Ég byrjaði strax kennsluna og þá var þessi strákur, sem síðar varð frægasti íþróttamaður Íslendinga (Vilhjálmur Einarsson) alltaf hlaupandi í kringum mig. Hann var geysilega kraftmikill krakki, fjörugur og skemmtilegur. Ég var ekki að hugsa um hver yrði hans framtíð en var ekki hissa þegar þar að kom.“

Alltaf að reyna að sigra sjálfan sig

Golfið hefur hins vegar sérstaklega átt hug og hjarta Stefáns sem segist „fara alla daga þegar er brúklegt veður.“ Hann hafði ekki komið nálægt íþróttinni fyrr en konan hans gaf honum golfsett í afmælisgjöf þegar hann varð fimmtugur. „Ég fékk strax geysilegan áhuga fyrir íþróttinni,“ segir Stefán. Hann var meðal stofnfélaga í Golfklúbbi Norðfjarðar og tók við formennskunni þegar Gissur Erlingsson, símstöðvarstjóri og fyrsti formaðurinn, flutti. Stefán var formaður í fjölda ára og segist ánægður með hvernig til hefur tekist við uppbyggingu Grænanesvallar og aðstöðunnar þar við. Fyrsta klúbbhúsið var vegavinnuskúr sem félagar sóttu yfir á Reyðarfjörð en síðan flugvallarskýli sem þeir fengu að eiga gegn því að sækja. Loks byggðu þeir eigin skála.

„Ég stunda ekki aðrar íþróttir en þær sem ég hef gaman af og ég hef afskaplega gaman af því að spila golfið. Maður er alltaf að reyna að sigra sjálfan sig, að keppa við sjálfan sig með að telja höggin sín og reyna að gera betur en á síðustu braut.“

Í byrjun árs kom dagskrárgerðarmaður frá morgunþætti NBC sjónvarpsstöðvarinnar austur til að heimsækja Stefán og reyna að komast að leyndarmálinu að baki langlífinu. Stefán segist ekki velta sér mikið upp úr heimsókninni. „Ég veit að fólk er búið að gleyma þessu um leið og það hefur horft það en ef maður getur að einhverju leyti verið fyrirmynd þannig að maður geti bent fólki á að það það er ekki sama hvernig maður fer með sál og líkama þá er það einhver virði. Maður verður að hafa eitthvað fyrir því að halda góðri heilsu.

Ég er að upplagi tiltölulega hraustur. Uppeldið þroskaði mann þannig. Sem krakki tók ég þátt í atvinnulífinu og þroskaðist þannig líkamlega. Að róa 11-12 ára gamall á árabát gerir það að verkum að maður verður tiltölulega sterkur miðað við stærð og aldur. Ég tel þetta samt hálfgerðan barnaþrældóm og hefði ekki boðið börnunum mínum þetta.“

Ákaflega ástfangin allt okkar líf

Stefán var giftur Guðrúnu Sigurjónsdóttur í 68 en hún lést í desember 2013. „Ég kynntist henni upphaflega þannig að hún var nemandi hérna í gagnfræðaskólanum þar sem ég kenndi íþróttir. Hún var líka ein af aðalstjörnum handboltaliðsins okkar sem ég æfði með á sumrin. Leiðir okkar skildu þegar hún fór í samvinnuskólann en lágu saman aftur þegar við vorum að undirbúa þjóðhátíðina 1944. Ég æfði fimleikaflokka bæði pilta og stúlkna til sýninga þar og við opinberuðum trúlofun okkar á þjóðhátíðardaginn.

Ég átti alveg yndislega og vel gefna eiginkonu. Við vorum ákaflega samtaka og ástfangin allt okkar líf. Það var afskaplega erfitt tímabil fyrir mig þegar hún kvaddi. Maður veit að þetta er eitt af því sem hver einasti maður verður að standa frammi fyrir að allt tekur enda. Númer eitt er að hugsa ekki um það heldur hvað morgundagurinn ber í skauti sér.“

Fluttu aftur heim af elliheimilinu

Stefán býr að Þiljuvöllum 21, húsi sem hann og Guðrún byggðu og kallast Tjarnaland. „Við byrjuðum okkar búskap 1945 og fluttum í það 1947.“ Þá stóð húsið eitt. Engin gata var til sem kallaðist Þiljuvellir. Í kring voru tjarnir og ís úr þeim notaður til að ísa fisk í íshúsinu. Við þær var húsið kennt. Stefán býr á miðhæðinni ásamt Sigurjóni syni sínum sem er nýlega fluttur heim eftir hálfrar aldar dvöl í suðlægum löndum. Vilborg, dóttir Stefáns, býr á efri hæð ásamt fjölskyldu sinni en systkinin eru alls fjögur.

„Upphaflega var steinþak á húsinu sem var gallað. Ég fékk Sigvalda Thordarson, sem var afar nútímalegur arkitekt til að leiðbeina mér um hvað ég skildi gera. Hann sagði mér að ég ætti að byggja hæð ofan á húsið og ég sagði við hann að þá skildi hann teikna hana. Það gerði hann og að mínu viti er þar afar skemmtileg íbúð. Við seldum miðhæðina og fluttum upp því við höfðum ekki efni á að eiga báðar íbúðirnar.

Þegar við erum 75 ára dettur okkur í hug að flytja í íbúðir aldraðra. Ég hafði stýrt uppbyggingu þeirra þar og okkur leið ágætlega þar. Við vorum orðin öldruð og barnabarn mitt með sína fjölskyldu flutti inn í íbúðina okkar. Neðri hæðin drabbaðist niður og lenti á uppboði og í höndum Lífeyrissjóðs Austurlands. Ég segi í rælni við Guðrúnu: „Eigum við ekki að flytja aftur heim? Við getum alveg eins búið þar og hér“ og hún svarar „jú“ Ég samdi því við sjóðinn og við keyptum húsið aftur og gerðum það upp að utan sem innan eins og það er í dag.“

Skelfileg tímamót

Á langri ævi hefur Stefán upplifað marga merkisatburði í mannkynssögunni. Hann segist til dæmis muna nákvæmlega eftir því hvar hann var þegar seinni heimsstyrjöldin skall á. „Ég var á skipi frá Akureyri á Grímseyjarsundi. Aðalsíldarvertíðin var búin og við vorum með reknet. Það var ekkert útvarp hjá okkur hásetunum svo ég stend aftan við brúargluggann þar sem skipstjórinn býr því þar er útvarp. Þá heyri ég þessa voðlegu frétt og hlusta á þegar Chamberlain (breski forsætisráðherrann) segir: „Frá og með deginum í dag eigum við í styrjöld við Þýskaland.“

Ég var búinn að lesa bækur um fyrra stríðið eins og Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum og Orrustan mikla og hugsa strax „Óskapleg tíðindi eru þetta hræðileg. Þetta verður enn svakalegra en fyrra stríði og það var alveg hryllingur.“ Ég áttaði mig á að þarna voru gífurleg tímamót að verða í mannkynssögunni. Nasismanum og þeim skelfilegu kenningum sem hann byggir á var nánast útrýmt í stríðinu en hann grasserar víða enn.

Síðan urðu aftur geysileg tímamót hjá mannkyninu þegar þessi rosalega frétt kemur um atómsprenginguna. Maður vissi að það voru alvarleg tímamót því ef henni yrði beitt í framtíðinni markaði það endalok mannkyns.“

Stefán var yfir sjúkrahúsinu þegar tólf fórust í tveimur snjóflóðum sem féllu á Neskaupstað rétt fyrir jólin 1974. Hann segir þau hafa breytt tilfinningu Norðfirðinga fyrir öryggi sínu. „Það var algjör martröð. Ég áttaði mig fljótlega á að þarna eru að verða hræðileg slys og að verða tímamót í sögu Norðfjarðar sem við urðum að bregðast við. Þarna var hætta sem við höfðum aldrei gert ráð fyrir áður. Menn höfðu aldrei hugsað um þessa hættu en urðu nú að reikna með og forðast að nokkuð þessu líkt gæti komið fyrir aftur. Strax eftir flóðin var farið að tala um að setja upp varanlega snjóflóðavarnir. Komin væri tæki og tækni til að vinna slík verk sem ekki var til staðar þegar staðurinn var að mótast. Núna þurfum við ekki lengur að hafa áhyggjur af þessari hættu.“

Mikilvægt að eiga góðan ævifélaga

Það vefst fyrir Stefáni að svara spurningunni um lykilinn að langlífinu. „Ég held að það sé ekkert einfalt. Í fyrsta lagi eru það meðfæddir hæfileikar sem hver og einn einstaklingur ræður ekkert sjálfur yfir. Síðan er afskaplega mikilvægt að hafa átt góðan ævifélaga. Það er þýðingarmikið fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði að hafa átt góð og hraust börn. Það er afskaplega mikils virði fyrir mig að lifa hér í skjóli barna minna. Sonur minn er kominn heim eftir 50 ára útiveru og það er mér mjög mikils virði í ellinni.

Síðan er það að lifa og búa í góðu samfélagi eins og Neskaupstaður er. Allt skapar þetta lífshamingjuna. Langstærsti kostur Norðfirðinga er hvað þeir eru félagslyndir og samtaka ef eitthvað bjátar á og fyrirbyggja að það geti komið fyrir aftur. Ég myndi lýsa þeim sem ákaflega þroskuðum félagsverum.

Ég reyni að njóta þess sem umhverfið, bæði fjölskyldulífið og samfélagið, ber í skauti sér hvern dag. Það fer eftir veðri og vindum hvernig maður eyðir deginum.“

Aðstandendur Stefáns segja að hann keyri enn „eins og herforingi“ og hann endurnýjaði ökuskírteinið síðast í september í fyrra. „Blessunarlega keyri ég enn en ég verð að segja að ég verð var við svolitla tortryggni að svona gamall maður skuli keyra. Maður þarf að fá augnvottorð og viðurkenningu frá lögregluyfirvöldum á hverju ári um að maður hafi leyfi til að keyra.

Ég kvíði því ákaflega ef ég missi þetta leyfi því bíllinn er mér mjög mikils virði, einkum yfir sumartímann, til að geta farið þegar ég vil og átt góðar stundir við að leika mér í golfi.“

Lærir spænsku

Stefán fagnar því líka að hafa það góða sjón að hann þreytist ekki við að lesa og grípur gjarnan niður í bók. Um leið undirstrikar hann það sem sagt er um að svo lengi lærir sem lifir. „Ég reyni að bæta við mig eða að minnsta kosti halda við því litla sem ég kann í ensku og spænsku.

Sigurjón sonur minn átti heima í löndum þar sem spænska var töluð, var giftur konu sem talaði spænsku og börnin þeirra líka. Mér fannst sjálfsagt að reyna að geta talað við þau á þeirra eigin tungumáli og ef þess vegna glímt við að reyna að læra eitthvað í spænsku af sjálfum mér í bókum.

Ég finn hins vegar að hæfileikinn til að nema hefur sljóvgast með aldrinum. Það tilheyrir ellinni og maður verður að sætta sig við það. Ég neita að gefast upp fyrir sjálfum mér og reyni alltaf að líta í enska eða spænska bók á hverjum einasta degi. Um árangurinn veit ég ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.