Stóra forgangsmálið

Nú þarf sveitarstjóri Múlaþings að leggja á klárinn, ríða á Selfoss á fund Matvælastofnunar(MAST) með samþykkta beiðni heimastjórnar Seyðisfjarðar um að afgreiðsla rekstrarleyfis sjókvíaeldis í Seyðisfirði, verði sett í forgang. Umhverfisstofnun (UST) þarf líka að afgreiða starfsleyfi, en heimastjórnin var ekkert að biðja um forgang á því.

Á sveitarstjórnarfundinum var m.a. gagnrýnt að sumt fólk legði metnað sinn í að vera á móti og tefja ýmis mál. En það er oft gott að afla gagna áður en ákvörðun er tekin. Það þurfa MAST og UST að gera og fá að vera í friði með það.

VÁ hefur ekki staðið í vegi fyrir afgreiðslu umsóknar eða tafið hana á nokkurn hátt.

Aðalorsök þess að MAST og UST þurfa langan og góðan tíma til að taka sínar ákvarðanir er að strandsvæðaskipulag Austfjarða var ekki nema hálf klárað þegar innviðaráðherra samþykkti það.

Skipulagið tók ekki á fjölda atriða, sem áttu að liggja fyrir til að hægt væri að samþykkja það. Þeim var öllum vísað til leyfisveitenda. Nokkur þeirra eru hér að neðan og það á eftir að vinna þau öll. Sú vinna tekur langan tíma og það þarf að gefa sér þann tíma og vanda til verka. Langur úrvinnslutími umsókna í Seyðisfirði liggur m.a. í eftirfarandi.

Áhættumat siglinga vantar


„Við ákvörðun um staðsetningu á búnaði eða starfsemi innan reita þarf að liggja til grundvallar áhættumat um siglingaöryggi í samráði við Vegagerð, Samgöngustofu, Landhelgisgæslu og viðkomandi hafnaryfirvöld.“

Samkvæmt þessu átti áhættumat að liggja fyrir áður en skipulagið var samþykkt en ekki visa því til leyfisveitenda.

Hvítur ljósgeiri vita


„Það á alltaf að vera hægt að sigla án nokkurra hindrana í hvítum ljósgeira hvar sem er í veröldinni.“

Ný kortasjá Landmælinga Íslands sýnir hvernig sjókvíar, bæði í rekstri og umsókn, eru inni í hvítum ljósgeira vita. Vitalögin eru vísvitandi brotin bæði á Aust- og Vestfjörðum.

Mat á ofanflóðahættu vantar


„Áður en leyfi til fiskeldis er veitt á reitnum þarf að liggja fyrir nánara mat á hættu á ofnflóðum og þannig mögulegri hættu á slysasleppingu vegna ofanflóða.“

Það lá fyrir í skipulagsvinnunni að Selstaðavík er á C-svæði.

Raforku- og fjarskiptastrengir


„Mikilvægt er að í strandsvæðisskipulagi séu skilgreind svæði sem stuðla að öryggi raforku- og fjarskiptastrengja og koma í veg fyrir röskun á virkni þeirra.“

„Leita þarf umsagna eigenda flutningskerfa við veitingu leyfa sem kunna að hafa áhrif á öryggi þeirra.“

Þarna átti strandsvæðaskipulagið að leita upplýsinga hjá Fjarskiptastofu og Farice ehf en ekki tefja vinnuna.

Burðarþolsmat


Burðarþolsmat í Seyðisfirði er rangt unnið skv. skýrslu Ríkisendurskoðanda, og er í skoðun.

Umhverfismat


Umhverfismat er heldur ekki rétt lögum samkvæmt og er í kærumeðferð.

Áhættumat erfðablöndunar


„Slysasleppingin“ í Patreksfirði öskrar á okkur öll. Guðni Guðbergsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun sagði á opinberum fundi að áhættumat erfðablöndunar væri komið á núllpunkt, og ekkert lægi fyrir um hve langan tíma tæki að vinna það upp á nýtt. Í góðum Kveiksþætti sagði Guðni að allt of hratt væri farið í sjókvíaeldið og klykkti út með þessu: „það er ekki sjálfbært“.

Áhættumat erfðablöndunar hlýtur að verða unnið með tilliti til lítilla laxastofna jafnt sem stórra. Það hefur nefnilega komið í ljós að „sporðurinn virkar“ og laxarnir synda í hvaða á sem er.

Stjórnsýsla


Í skipulagsvinnunni er siglingaöryggi í Seyðisfirði fórnað. Gallupkönnun Múlaþings sýnir að 75% íbúa Seyðisfjarðar lýsa sig andvíga sjókvíaeldi. Atvinnugreinin er í algjöru uppnámi á landsvísu.

Í ljósi alls þessa spyr maður sig: Hvað eru yfirvöld í Múlaþingi til sjávar og sveita að hugsa?

Nær væri að einhenda sér í uppbyggingarstarfið á Seyðisfirði án tafar.

Það er stóra forgangsmálið.

Fyrir hönd VÁ - félags um vernd fjarðar
Sigfinnur, Benedikta, Magnús, Anna Dóra og Þóra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.