Stór helgi

Úrslitaviðureign Útsvars, bikarkeppnin í blaki, Gettu betur og Idol-Stjörnuleit eru meðal helstu viðburða sem Austfirðingum standa til boða um helgina.

 

ImageÍ kvöld klukkan 20:15 hefst úrslitaviðureign Útsvars þar sem Fljótsdalshérað mætir Kópavogi. Fljótsdalshérað hefur á leið sinni í úrslitin slegið út Vestmannaeyjar, Norðurþing, Akureyri og Árborg og sett tvö stigamet á leiðinni. Kópavogsliðið er engan vegin auðveld bráð, sigurvegari seinasta árs með aðgangsharða fyrrum Gettu betur keppendur í fararbroddi.
Á Egilsstöðum er efnt til samkomu á Hótel Héraði þar sem keppni verður sýnd á breiðtjaldi. Aðgangseyrir er eitt þúsund krónur, hámark þrjú þúsund á fjölskyldu og frítt fyrir átta ára og yngri. Aðgangseyririnn rennur í nýstofnaðan tómstundasjóð Hattar.

Bikarkeppnin í blaki

Úrslit og undanúrslit bikarkeppninnar í blaki verða leikin í Laugardalshöll um helgina. Á morgun kl. 12:30 hefst leikur Þróttar Neskaupstað og C liðs Þróttar Reykjavíkur. Liðið sem vinnur leikur til úrslita á sunnudag gegn HK eða aðallið Þróttar R. Úrslitin hefjast klukkan 13:30.

Gettu betur

Á laugardagskvöld klukkan 20:05 mætast lið Menntaskólans á Egilsstöðum og Menntaskólans í Reykjavík í seinustu viðureign fjórðungsúrslita Gettu betur. Keppnin fer fram í Útsvarshúsinu við Efstaleiti. Lið ME skipa Urður María Sigurðardóttir, Hrólfur Eyjólfsson og Arnar Jón Guðmundsson en það sló út lið Menntaskólans á Ísafirði og Framhaldsskólans á Húsavík á leið sinni í sjónvarpið.

Idolið

Tveir Austfirðingar taka þátt í undanúrslitum karla í Idol - stjörnuleit. Tíu keppa en fimm komast áfram í aðalkeppnina. Eskfirðingurinn Sigurður Magnús Þorbergsson syngur lagið „Von mín er sú“ með Landi og sonum en Magnús Jón Árnason, frá Norðfirði, syngur „Hjálpaðu mér upp“ eftir Ný dönsk. Keppnin er í Vetrargarðinum í Smáralind og byrjar útsendingin klukkan 20:30.

Fleira

Körfuknattleiksleiktíðinni lýkur í kvöld þegar Höttur tekur á móti KFÍ klukkan 19:15 í kvöld. Leikurinn skiptir Hattarmenn litlu máli þar sem liðið er þegar fallið.
ð auki má nefna að þrír leikhópar á vegum Þjóðleiks frumsýna verk sín um helgina. Frumsýningar verða á Eskifirði og Seyðisfirði í kvöld og á Borgarfirði á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.