Styrkjum búsetu á landsbyggðinni

Árið 2020 hefur verið mjög sérstakt fyrir okkur öll og sennilega eru margir fegnir því að það renni nú bráðum sitt skeið. Ég er sannfærður um að 2021 verði okkur betra og það eru mjög jákvæð teikn á lofti að svo verði.

Þegar ég horfi yfir árið 2020 og þau verkefni sem við í félagsmálaráðuneytinu höfum verið að vinna, horfi ég til baka stoltur en árið litaðist að mörgu leyti af viðbrögðum við heimsfaraldri Covid-19. Ég er hins vegar mjög ánægður og stoltur af því að hafa náð að koma þremur stórum baráttumálum mínum á dagskrá þrátt fyrir aðstæður í heiminum en þau eiga það öll sameiginlegt að styrkja búsetu á landsbyggðinni.

Aukinn kraftur í húsnæðismál á landsbyggðinni

Í byrjun september var frumvarp mitt um hlutdeildarlán samþykkt en þar erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt fólk og tekjulága inn á fasteignamarkaðinn. Hlutdeildarlánin munu hafa mikil og jákvæð áhrif á fasteignamarkað á landsbyggðinni sem hefur víða verið nálægt frostmarki undanfarna áratugi, en eitt að markmiðunum með þeim er að styrkja það kallað hefur verið köld markaðssvæði. Þá er gaman að sjá kraftinn í framkvæmdum víða um land sem fjármagnaðar eru með stofnframlögum, sérstöku byggðarframlagi og lánum frá HMS, aðgerðir sem samþykktar voru í fyrra. Mér telst til að alls séu 89 íbúðir í byggingu eða undirbúningi víða um land þar sem byggingaraðilar nýta sér þessi úrræði, má þar nefna 12 íbúðir á Húsavík, 10 íbúðir í Bolungarvík, átta íbúðir á Vopnafirði og fjórar á Borgarfirði Eystri.

Sérstakur styrkur til barnshafandi einstaklinga sem búa fjarri þjónustu

Annað stórt mál sem ég er stoltur af eru ný lög um fæðingarorlof en samkvæmt nýju lögunum er fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði, en lögin taka gildi 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm. Ég er mjög ánægður með aukin réttindi fyrir fólk á landsbyggðinni sem býr oftar en ekki fjarri þjónustunni og þarf oft að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins. Með nýju lögunum komum við til móts við þessa hópa og barnshafandi foreldri verður veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu.

Breyting í þágu barna

Síðast en ekki síst er ég gríðarlega stoltur af þremur frumvörpum sem ég hef lagt fram á Alþingi og miða að því að breyta kerfinu okkar í þágu barna. Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að þið njótið hátíðanna með ykkar nánustu.

Höfundur er félags- og barnamálaráðherra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.