Svala gefur kost á sér í 3.-5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Svala Jónsdóttir, sviðsstjóri á Akureyri, gefur kost á sér í 3.-5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í vor.  Svala er uppalin í Kópavogi, en hefur verið búsett á Akureyri undanfarin ár. Hún tók þátt í stofnun Samfylkingarinnar og var fyrsti formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, auk þess sem hún hefur verið varamaður í framkvæmdastjórn flokksins.

svala.jpg

Þá hefur Svala setið í sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um jafnréttismál og í hinum ýmsu nefndum á sveitarstjórnarstigi, auk fjölda annarra félagsstarfa. Hún hefur ekki áður gefið kost á sér á lista fyrir alþingiskosningar.

Svala hefur starfað sem sviðsstjóri hjá Jafnréttisstofu frá janúar 2007. Hún starfaði áður sem blaðamaður og jafnréttisráðgjafi. Einnig vann hún við almannatengsl og var upplýsingafulltrúi og deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins. 

  

„Framundan er mikil uppbygging sem krefst aðkomu fólks af báðum kynjum með fjölbreytta þekkingu og reynslu. Nauðsynlegt er að skapa almenningi lífvænleg skilyrði fyrir áframhaldandi búsetu í landinu. Ég hef áhuga á því að taka þátt í endurreisn íslensks samfélags með jafnrétti, lýðræði og jöfnuð að leiðarljósi.

Mín helstu baráttumál eru jafnréttismálin, málefni fjölskyldna, samgöngumál og umhverfismál í víðum skilningi. Úrræði í húsnæðis- og atvinnumálum eru brýn og þá þarf að leggja áherslu á hagsmuni þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu.

Það er lykilatriði að setja nýjar leikreglur í samfélaginu sem koma í veg fyrir spillingu og einkavinavæðingu. Til lengri tíma litið er mikilvægt fyrir Íslendinga að forðast einangrun á alþjóðavettvangi og þar vil ég líta til aðildar að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar.”

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.