Sveitarstjórnarpistill 5 – Góðar samgöngur og skipulag

Góðar samgöngur eru forsenda blómlegs atvinnulífs í sveitum og bæjum landa. Sama á hér við um þróun byggðar á Egilsstöðum. Framan af gerðist það af sjálfu sér. Þjóðleið hefur legið um Eyvindarárdal allt frá því land byggðist. Með síðari tíma mannvirkjagerð hefur þróunin mótast af ákvörðunum manna.

Lagarfljótsbrú með Fagradalsbraut er um 120 ára og þéttbýlismyndun með flugsamgöngum að auki spannar orðið um 80 ára mannsaldur. Þróun byggðar laðast að samgönguleiðum. Nú stendur byggðin frammi fyrir ákvörðun um þróun sem hafa mun áhrif um alla framtíð. Leið er að opnast í gegnum fjöllin til fjarða.

Ákvörðunum manna þarf að fylgja skipulag svo vel takist til. Fyrir Egilsstaði hefur gilt aðalskipulag frá 2008 og ætlað til 2028. Skipulagið gerir ráð fyrir þróun íbúðabyggðar til suðvesturs, ásamt með blandaðri byggð og til norðnorðausturs með blandaðri byggð og athafnasvæði. Ástæða fyrir því er að þrengt hefur að athafnasvæði innan byggðar við Miðás. Starfsemi hefur því verið að flytjast þaðan jafnt og þétt annað og þá frekast yfir um Fljót norðvestur með Hringveginum. Athafnasvæðið í Eyvindarárlandinu hefur ekki verið gert aðgengilegt.

Gildandi aðalskipulagið gerir ráð fyrir jarðgöngum til Seyðisfjarðar og tengingu um brú við Melshorn og inn á Hringveginn. Með hliðsjón af þessu skipulagi hafa margir tekið sínar ákvarðanir. Það hafa þó sveitarstjórnarfulltrúar ekki gert þegar þeir hafa látið undan sjónarmiðum um flutning gangnamunnans Héraðsmegin frá Miðhúsum sunnan Lönguhliðar yfir á Dalhús og tekið undir hugmyndir um að opna fyrir leið þaðan sunnan skipulagðrar byggðar niður á Vallaveg. Hvað hefur sveitarstjórnarfulltrúum gengið til eða láta þeir bara stjórnast af forræðishyggju hins opinbera?

Nýgerður málefnasamningur B&D lista Múlaþings gerir ráð fyrir að „Hafist skuli handa við nýtt aðalskipulag sveitarfélagsins“ og ekki seinna vænna. Ekki er þó einu orði minnst á leiðavalið að jarðgöngunum. Aðeins „…að staðið verði við þær framkvæmdir sem eru á samgönguáætlun…“ Suðurleiðinni er af Vegagerðarinnar hálfu ætlað að liggja sem mest utan þéttbýlis en liggur þó þétt upp að suður og vestur mörkum gildandi aðalskipulags Egilsstaða. Er þá ekki einnig eðlilegast að stefna að því að ný Lagarfljótsbrú liggi í línu frá Kílstanga að landi sunnan Skipalækjar og þaðan norður um sunnan Fellabæjarbyggðar að suðurenda Urriðavatns?

Stóra spurningin sem enn er ósvarað þrátt fyrir ný afstaðnar kosningar er, hvert og hvernig byggðin eigi á komandi áratugum að þróast? Hvernig fær blómstrandi atvinnulíf best þróast eigi að halda því aðgreindu frá helstu samgönguleiðinni. Meira um leiðavalið og áhrif þess síðar.

Höfundur er verkfræðingur

fjardarheidargong valleidir sj

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.