Svívirðingunum ætlar ekki að linna

 

Nú kraumar sem aldrei fyrr í reiðikötlum íslensks almennings. Fólk er hreinlega brjálað yfir tilboði Björgólfsfeðga um að greiða helminginn af um sex milljarða króna skuld þeirra við Kaupþing vegna Landsbankakaupa og þá ekki síður að Kaupþing skuli telja það skoðunarvert. Þetta og skuldafjötrar íslensku þjóðarinnar vegna Icesafe og fleiri voðaverka er sem olía á eldinn sem snarkar í okkur flestum.

 

 

 

Við erum ríkið. Við munum ekki láta það gerast að þeir sem bera hluta ábyrgðarinnar á því hvernig er farið fyrir þjóðarbúinu geti gengið frá skuldum sínum til hálfs, meðan íslensk alþýða á sér ekki viðreisnar von með sínar skuldir sem innheimtar eru til fulls og af hörku. Ég tek undir orð Vilhjálms Bjarnasonar, lektors við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, sem segir að það geti „hæglega leitt til borgarastyrjaldar“ ef rétt reynist að stjórnendur Kaupþings séu að semja við Björgólfsfeðga um þriggja milljarða afskrift á skuldum þeirra.

  

Því var á síðustu árum oft slegið fram að Ísland væri hálfgert bananalýðveldi þar sem þeir sem hefðu rétt tengsl og væru nógu og ósvífnir gætu gert það sem þeim sýndist innan og utan stjórnkerfis og makað á því krókinn. Smám saman dró aftur í sundur með fátæku fólki, sæmilega settu fólki og þeim sem lifðu í vellystingum praktuglega á loftkenndum afrakstri samninga sem ekki voru pappírsins virði þegar nánar var að gáð. 

  

Mér sýnist þetta land okkar vera orðið fullgilt bananalýðveldi nú, þrátt fyrir að Eva Joly reyni að hotta á rannsóknir. Það er sama hvernig málum er þvælt; þeir sem bera ábyrgð á því að við og börnin okkar erum nú í fasthertum skuldafjötrum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar, eru ekki látnir sæta ábyrgð. Þeir eru ekki látnir svara fyrir gerðir sínar, þeim er ekki gert að skila illa fengnum auði inn í þjóðarbú á vonarvöl. Athugið að hér er ég ekki aðeins að tala um auðmennina heldur líka fólkið sem var við stjórnvölinn. Sem sumt dirfist nú um stundir að leggja orð í belg eins og það njóti enn virðingar og tiltrúnaðar. Sveiattan.  Og smám saman hrynur allt í kringum okkur.

  

Ég er sannfærð um að Lilja Mósesdóttir veit upp á hár hvað hún segir þegar hún heldur því fram að þjóðin sé í rauninni gjaldþrota og sama sé hvernig verði barist á hæl og hnakka; við munum ekki geta staðið við þær skuldbindingar sem nú er verið að gera. Hún hefur nefnt haldgóð dæmi þessu til staðfestingar.

  

Mér hrýs hugur við framtíð okkar. Ég trúi að stjórnvöld geri sitt ítrasta og af bestu sannfæringu, en það er bara ekki nóg.

  

Það er ekki nóg.

   

Steinunn Ásmundsdóttir.

(Leiðari Austurgluggans 10.júlí 2009)

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.